Hugur og hönd - 01.06.1988, Qupperneq 10
af kexkassaloki. Eitt sinn sá amma hálf-
saumaða samkvæmistösku, sem Kristín
dóttir hennar hafði lagt til hliðar eftir að
hafa saumað aðra hliðina með sígildu
mynstri. Hún gerði sér lítið fyrir og
saumaði á hinn helminginn fjöldann all-
an af litfögrum fiðrildum, stórum og
smáum, fljúgandi og með fellda vængi.
Aldrei varð ömmu Theó ráðafátt.
Eg minntist hér að framan á pjötlupok-
ann hennar ömmu. Þar kenndi margra
skemmtilegra grasa. Þar voru skinn-
pjötlur, loðnir efnisbútar og snöggir,
glansandi og mattir, litfagrir og daufir,
nýfengnir úr búð eða úr gömlu og snjáðu
fati, sem munað hafði sinn fífil fegri.
Þarna leitaði hún fanga í bútateppin sín
og smámuni. Ekki hefur mér tekist að
hafa upp á teppi eða mynd. Hins vegar er
til flauelstaska skreytt fiðrildum. Þau eru
úr filti, prýdd perlum og pallíettum, ból-
um og borðum og límd svo á. Lásinn á
töskunni er ekki síður frumlegur, hann
er fuglsbein. Þeir, sem komið hafa í Ás-
grímssafn hafa séð teppið, sem hún gerði
og gaf Ásgrími Jónssyni. I teppin notaði
hún ullardúka og ofan á lagði hún alla
vega lita og lagaða efnisbúta og litfögur
bönd. Suma bútana festi hún niður með
kappmelli, aðra með aftursting eða
fljótaspori. Þarna naut sín vel listrænt
lita- og formskyn hennar. Mér finnst sem
ég sjái ömmu Theó leggja niður á svar-
brúnan dúk litríka búta, langan og mjóan
gulan silkibút og annan rauðbrúnan úr
velúri, raulandi stundarhátt lagstúfinn
sinn. En þetta er tilbúin mynd, trúlega
yfirfærð frá mömmu, því er þarna var
komið í lífi hennar var hún hætt að vinna
að stórum stykkjum. Gaman væri að
vita, hvort einhver ætti í fórum sínum
teppi eða eitthvað annað unnið á þennan
hátt. Líklegterþó, að teppin séu öll slitin
til húðar enda ætluð sem værðarvoðir.
Margt fleira fékkst amma Theó við og
má segja að allt, sem beita mátti á skær-
um og/eða nál hafi orðið að fallegum eða
skemmtilegum munum í höndum henn-
ar. I glugganum hennar var u.þ.b. tuttugu
og fimm sentimetra hár kolsvartur
hraunsteinn. Mátti greina þar vanga-
mynd af manni, sem aðeins drúpti höfði.
Amma klippti út hvíta skinnpjötlu, límdi
í hnakka stað og kallaði síðan steininn
Djáknann á Myrká. Mér fannst hins veg-
ar steinninn eins og munkur á bæn. — Til
er tuskubrúða eftir hana, sem getur verið
hvort heldur hvít stúlka eða negri. Pilsið
er stíft, vítt og tvöfalt og felur þá ásjónu,
sem ekki á við í það skiptið, síðan er
henni hvolft og önnur ásjóna kemur í
ljós. Eitthvað fékkst amma við að klippa
smádúka úr skinnbútum. Svo mikið er
víst að tveir slíkir voru til heima hjá mér.
Var annar ,,symmetrískur“ eins og
klipptur bréfdúkur, í hinn var klippt
blóm og laufblöð, mynd og límt undir
vínrautt fóður. Gaman var að stinga litl-
um fingrum þar í gegn.
Fyrir ofan rúmið hennar var mikið af
smámyndum af gengnum og fjarlægum
ástvinum. Margar voru þær í römmum,
sem hún hafði sjálf búið til úr pappa og
perlum, tölum og gömlum úrkössum.
Allt mátti nýta og man ég vel stoltið í
svipnum þegar hún sýndi mömmu eitt-
hvað, sem hún hafði gert svo að segja úr
engu, báðar dáðust að.
Amma átti víða hauka í horni í versl-
unum og á verkstæðum, sem viku að
henni prufum og skrautborðum, eða
boruðu gat á bein og tré. Hún var alls
staðar aufúsugestur, ótæmandi sagna-
brunnur og dillandi af fjöri og kátínu.
Oft voru gullsmiðir bæjarins henni innan
handar að vinna í góðmálma hugmyndir
hennar. Mömmu gaf hún steingerðan
kuðung, með glitrandi kristöllum,
greyptan í silfur og varð úr þessu hin feg-
ursta næla. Pabbi átti slifsisprjón, sem
var smá ópalsteinn og utan um snúinn
gylltur vír. Einnig vissi ég til, að hún
kom með ærhorn til gullsmiðs og lét
smíða undir það fót eftir sinni fyrirsögn.
Ekki munu þessi dæmi einstök vera.
Börnum sínum kenndi amma snemma
að beita nál og skærum, og á ég margar
smáar krosssaumsmyndir unnar af þeim
systkinunum. Dætur hennar Unnur,
Kristín Ólína, Katrín, Ragnhildur og
María Kristín voru allar miklar hann-
yrðakonur, þó hver á sinn máta en áttu
það sammerkt að vera vandvirkar og
fljótvirkar. Sonur hennar Sverrir saum-
aði mikið í stramma kross- og kelímspor
og Sigurður var myndlistamaður og
hönnuður. Mamma mín saumaði tölu-
vert eftir eigin höfði, en komst þó hvergi
með tærnar, þar sem amma hafði hæl-
ana.
Ef amma hefði fæðst 80—100 árum
seinna tel ég víst hún hefði orðið textíl-
listakona eða þá að sá listræni strengur
sem sló í brjósti hennar hefði fengið út-
rás í alhliða hönnun.
Á engan hátt er þetta tæmandi umfjöll-
un um handmennt og hugmyndaauðgi
ömmu minnar Theodóru Friðriku og fari
ég með rangt mál bið ég menn að minn-
ast orð Ara Þorgilssonar.
Eftirfarandi frændfólki þakka ég lán á
munum, svör við fyrirspurnum og fræð-
andi spjall:
Dóru, Ástu og Regínu Guðmunds-
dætrum Thoroddsen, bróðurdóttur
þeirra Theodóru Skúladóttur; Skúla
Halldórssyni og konu hans Steinunni
Magnúsdóttur svo og systurdætrum hans
Vénýju Viðarsdóttur og Unni Maríu
Figved; mágkonu minni Hrafnhildi Pét-
ursdóttur; Katrínu og Theódóru Sverris-
dætrum Thoroddsen; Jóni Thóri Har-
aldssyni og systur hans Ragnþeiði Guð-
rúnu; Helgu Egilson, og mörgum fleiri.
Ingibjörg Yr Pálmadóttir
6. Tveir dúkar. Sá til vinstri er tenerifa,
hinn er saumaður í smágert net með
sprangsaumi.
Ljósmynd: Rut Hallgrímsdóttir.
Handverkfæri og
útskurðarjárn í
miklu úrvali
Verslunin Brynja
Laugavegi 29
Sími 24321
10
HUGUR OG HÖND