Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2018, Blaðsíða 25
c. [hann] lét gera róðu úr silfri svo mikla að allskostar er hún meiri
og lengri en einnhver maður. (Ólafs saga helga, ONP ÓHLeg
9328, hdr. um 1225–1250)
Dæmin í (19) eru ekki öll greind á sama hátt í ONP. (19a) er haft í undir-
flettu almagnorðsins einhver, ‘enhver anden; any/every other’, sbr. dæmi
(2c) í 2.2 þar sem merkingin er ‘sérhver, hver og einn’. (19b–c) eru hins
vegar sett undir hina algengari merkingu einhver, ‘en eller anden; some,
any’. Dæmið í (19b) hefði mátt fara með á sama hátt og (19a) og jafnvel
enn frekar. Þarna er ekki átt við bændur almennt heldur tiltekinn hóp
bænda sem áður höfðu verið kvaddir í lið höfðingjans sem ávarpaður er.
Sá sem talar segist þarna betri en þessir bændur, þ.e. betri en hver og einn
þeirra. Dæmið í (19c) virðist kannski ögn fjarlægara almagnsmerking-
unni. Þessi dæmi sýna vel hversu skammt er á milli almagnsmerkingar
(‘sérhver, hver og einn’) og hlutverks 8; í samanburðarsetningum vísa for-
nöfn jafnan til allra (Hann getur hlaupið hraðar en nokkur í bekknum =
‘hraðar en allir aðrir í bekknum’) sem fer auðvitað afar nálægt merking-
unni ‘sérhver, hver og einn’.
Í hlutverkum 1, 2, 3, 5 og 8 gátu því staðið bæði nokkur-röðin og ein-
röðin. Það er þó óhætt að segja að nokkur-röðin hafi verið miklu algengari
en ein-röðin í a.m.k. sumum þessara hlutverka. Það á örugglega við um
hlutverk 1, 3 og 5; um nokkur-röðina er að jafnaði auðvelt að finna dæmi
í fornum ritum en því er öfugt farið með ein-röðina. Um ein-röðina í hlut-
verki 5 (skilyrði) fundust t.d. aðeins tvö dæmi í Grágás (Grágás 1997) við
þessa athugun, sjá (18e–f), en skilyrðissetningar eru algengar í lagatext-
um. Um nokkur-röðina í þessu hlutverki eru hins vegar meira en 160
dæmi í Grágás. Í Íslensku textasafni fundust engin traust dæmi. Í ONP eru
allmörg dæmi um fornafnið einhver (undir flettunum einhverr og einn-
hverr og undir flettunni 2einn í tengslum við hverr) í skilyrðissetningum.
En þau virðast hér um bil undantekningarlaust vera úr norskum ritum.
Hlutverkadreifing óákveðinna fornafna í fornnorsku kann að hafa verið
frábrugðin dreifingunni í forníslensku. Það þarf ekki að koma á óvart,
hlutverkadreifing getur breyst hratt, sbr. 2.2.
Við þessa athugun hafa ekki fundist traust dæmi um ein-röð fornmáls-
ins í öðrum hlutverkum en 1, 2, 3, 5 og 8. Í fljótu bragði virðast þó vera
dæmi um röðina í fornu máli í neitun (hlutverkum 6 og 7). En þegar betur
er að gáð eru þessi dæmi haldlitlar heimildir um ein-röðina í umræddum
hlutverkum í forníslensku eins og nú verður rakið.
„Hefir hver til síns ágætis nokkuð“ 25