Bændablaðið - 08.02.2018, Page 2
2 Bændablaðið | Fimmtudagur 8. febrúar 2018
Eftirlegukindum smalað til byggða á Austurlandi eftir áramótin:
Óstand á fjallskilum vegna
fækkunar sauðfjárbænda
– Ástandið er svipað á nánast öllu Austurlandi, segir Þorsteinn Bergsson, dýraeftirlitsmaður MAST
Fjölda fjár hefur verið smalað
til byggða á Austurlandi eftir
áramót. Greinilegt er að fjallskil
eru ekki í lagi þegar fjöldi fjár sem
rekið er á afréttir á vorin skilar
sér ekki við smölun að hausti.
Bent hefur verið á að fækkun
sauðfjárbænda er víða það mikil
að erfitt er að manna göngur við
fjallskil á haustin.
Þorsteinn Bergsson, fyrrverandi
sauðfjárbóndi við Héraðsflóa og
núverandi dýraeftirlitsmaður MAST,
sagði í samtali við Bændablaðið að
ein af ástæðunum fyrir þessu væri að
fólki hefði fækkað í sveitum, þannig
að ekki er hægt að smala eins stór
svæði í einu lagi og áður var. Þá þarf
að skipta svæðunum upp og smala
þau á lengri tíma, sem eykur líkur
á að eitthvað verði eftir.
„Ástandið er svipað á nánast
öllu Austurlandi. Ég hef heyrt um
manneklu við smölun á Vopnafirði,
í Fljótsdal, Loðmundarfirði
og Seyðisfirði og einnig á
Suðurfjörðunum frá Berufirði
og suður úr til Hornafjarðar. Það
er því víða á Austurlandi sem
smalamennskur geta verið geypilega
erfiðar.“
Ábyrgðin hjá sveitarfélögunum
Að sögn Þorsteins er löngu tímabært
að taka á málinu og finna einhvers
konar lausn á því.
„Eins og staðan er í dag er
þetta ófremdarástand. Samkvæmt
lögum um fjallskil, eins og þau
eru í dag, liggur ábyrgðin hjá
sveitarfélögunum og mjög misjafnt
hvernig þau standa undir þeirri
ábyrgð og hvað þau hafa mikinn
áhuga á því.“
Fé í afgirtum hólfum
Komið hefur upp sú hugmynd að
settar verði reglur um sauðfjárhald
sem fela í sér að bændur sem ekki
geti framvísað lista að vori yfir
nauðsynlegan fjölda leitarmanna
fyrir viðkomandi svæði næsta
haust, verði bannað að reka á fjall
og gert skylt að hafa sitt fé í afgirtum
beitarhólfum til að forðast svona
vandræði.
Þorsteinn vill ekki tjá sig um
hvort sú hugmynd sé raunhæf en
segir að sums staðar á landinu sé
búið að koma smölun þannig fyrir
að það séu ekki endilega bændur
sem smala.
„Það geta verið björgunarsveitir
eða sérstök félög eins og
í Svarfaðardal þar sem er
gangnamannafélag sem sér um
fjallskil á haustin. Það má því
segja að þar sé búið að útvista
smöluninni.“
Misgott ástand á eftirlegufénu
Að sögn Þorsteins hefur hann ekki
á hraðbergi hversu margt fé hefur
verið að heimtast á Austurlandi frá
því eftir leitir í haust en hann segist
hafa heyrt að í Fljótsdal séu það um
tvö hundruð eftir áramót.
„Í Fljótsdal er mikið um skóga
sem erfitt er að ná fénu úr. Þar
hefur féð það gott og er því ekki
að hrekjast heim vegna þess að
það sé illa haldið. Annars staðar
eru aðstæður fjárins verri, það er
kannski að lokast af í fönnum til
fjalla og þá þarf að bjarga því af
fjalli. Auk þess að valda bændum og
öðrum landsmönnum áhyggjum af
skepnunum geta þessi slöku fjallskil
einnig valdið talsverðu fjárhagslegu
tjóni.“ /VH
FRÉTTIR
Þorsteinn Bergsson, fyrrverandi sauðfjárbóndi við Héraðsflóa og núverandi
dýraeftirlitsmaður MAST. Mynd /smh
Fé bjargað af fjalli eftir hrakninga
fyrir nokkrum árum.
Í uppgjöri afurðastöðvanna, vegna
sauðfjárslátrunar síðastliðið
haust, kemur fram að meðalverð
fyrir hvern dilk var frá 340,99
krónur á kílóið upp í 425,5
krónur á hvert kíló.
Bændablaðið leitaði til
sláturleyfishafa og bað um
upplýsingar um meðalverð á kíló
til bænda fyrir hvern innlagðan dilk.
Einnig var óskað eftir upplýsingum
um fjölda slátraðra dilka og
meðalþunga – og hvort vænta mætti
endurskoðunar á verðskrám.
Sláturfélag Vopnfirðinga slátraði
rúmum 30 þúsund
Að sögn Þórðar Pálssonar,
skrifstofustjóra hjá Sláturfélagi
Vopnfirðinga, var innlagt magn
dilkakjöts á síðustu sláturvertíð
467.434 kíló. Meðalafurðaverð fyrir
hvert kíló var um 377 krónur með
breyttri gjaldskrá, en alls var slátrað
30.430 dilkum þar sem meðalvigtin
var 15,91 kíló.
Fjallalamb slátraði tæpum 28
þúsund
Björn Víkingur Björnsson,
framkvæmdastjóri Fjallalambs,
segir að heildarmeðalverð á öllum
keyptum dilkum hafi verið 347,69
krónur á kílóið. Meðalþungi dilka hjá
Fjallalambi var 15,73 kíló og alls var
slátrað 27.731 dilkum. Hann tekur
fram að Fjallalamb hafi ekki hækkað
sláturkostnað á heimteknu ef tekið var
eitthvert magn. „Flest húsin hækkuðu
sláturkostnað verulega ef heimtaka
bænda fór yfir ákveðið magn og
gerði þá bændum erfiðara að taka í
heimtöku og selja.“
Björn Víkingur segir að þegar
endanleg útkoma ársins 2017 liggi
fyrir mun Fjallalamb ákveða með
uppfærslu á verðskrá
.
Meðalþungi 16,36 kíló hjá
Norðlenska
Ágúst Torfi Hauksson,
framkvæmdastjóri Norðlenska,
segir að hjá þeim hafi 97.851 dilki
verið slátrað.
Meðalþungi hjá Norðlenska var
16,36 kíló á dilk og meðalverð um
356 krónur á kílóið.
„Þeirri verðskrá sem gefin var út
í lok sumars hefur ekki verið breytt,
en breytingar gætu orðið fljótlega,“
segir Ágúst Torfi.
KS slátraði tæplega
98 þúsund dilkum
Ágúst Andrésson, forstöðumaður
Kjötafurðastöðvar Kaupfélags
Skagfirðinga, segir að meðalverð
fyrir innlagða dilka hafi verið 399,7
krónur á kílóið. Kjötafurðastöðin
slátraði 97.778 dilkum og var
meðalþyngdin 16,33 kíló. Að
sögn Ágústs verður verðskráin
endurskoðuð í næsta mánuði.
Hann segir að rétt sé að setja
verð frá SKVH sér inn í þennan
samanburð, þar sem að þeir
greiða álag á hluta slátrunar. Á
Hvammstanga var 100.139 lömbum
slátrað, þar sem meðalvigt var 16,7
kíló. Þar var meðalverð á lamb 425,5
krónur á kílóið.
SAH afurðir slátruðu rúmlega
96 þúsund dilkum
Hjá SAH afurðum á Blönduósi var
96.256 dilkum slátrað. Meðalþungi
dilka var 16,52 kíló og meðalverð
fyrir dilk var 340,99 krónur á
kílóið, miðað við fyrirliggjandi
verðskrá.
Eiður Gunnlaugsson,
stjórnarformaður Kjarnafæðis,
sem á og rekur SAH afurðir, segir
að endurskoðun á verðskrá liggi
ekki fyrir. „Við komum til með að
fara yfir þetta með eins góðum hug
og hægt er, svo mikið er víst, en
erum ekki búnir að því og ég get
ekki sagt hvenær við gerum það,“
segir hann.
SS staðgreiddi rúmar 422
krónur fyrir kílóið
Steinþór Skúlason, forstjóri
Sláturfélags Suðurlands, segir
að 103.204 dilkum hafi verið
slátrað hjá þeim í síðustu sláturtíð.
Meðalþyngd slátraðra dilka var
16,49 kg og meðalverð sem greitt
var fyrir innlagða dilka var 422,65
krónur á kílóið. „SS staðgreiddi
allt sauðfjárinnlegg föstudag eftir
innleggsviku,“ segir Steinþór, sem
reiknar ekki með breytingu á þeirra
verðskrá. /smh
KS styður sína
félagsmenn
Afurðaverð til sauðfjárbænda fyrir sláturtíðina 2017:
Greitt var frá tæpri 341 krónu til
um 425 króna á innlagt kíló
– Afurðastöðvar liggja undir feldi með endurskoðun á verðskrám
SS staðgreiddi rúmar 422 krónur fyrir kílóið af dilkakjötinu.
Á Facebook-síðunni Sauðfjár
bændur hefur spunnist
allnokkur umræðuþráður um
fyrirgreiðslusamninga sem
Kaupfélag Skagfirðinga (KS)
hefur boðið sauðfjárbændum
sem eru í viðskiptum við félagið.
Er þar rætt um hagkvæma
lánasamninga, auk þess sem
hagstæð kaup á áburði eru talin
í boði. Telja sumir sem tjá sig á
þræðinum að sauðfjárbændur
sem eigi í viðskiptum við KS
sitji ekki allir við sama borð og
þá eru uppi sjónarmið um að
slíkir samningar skekki stöðu
sauðfjárbænda í landinu.
Ingólfur Jóhannsson, fjármála
stjóri KS, segir að það sé ekkert
nýtt að KS styðji við bændur sem
séu félagsmenn í félaginu. „Þetta
hafa verið lánafyrirgreiðslur
til skamms tíma á hagstæðum
kjörum; til dæmis vegna kaupa
á greiðslumarki – hvort sem það
er í sauðfé eða mjólk. Við höfum
líka lánað vegna framkvæmda, en
þá eingöngu á framkvæmdatíma.“
Á við innleggjendur og
félagsmenn í KS
„Þetta sem nú er í umræðunni á
við þá sauðfjárbændur sem leggja
inn og jafnframt eru félagsmenn í
KS. Þeim var boðið að skuldbreyta
hluta af viðskiptastöðu við KS til
þriggja ára,“ segir Ingólfur. Hann
segir það misskilning að það sé
veittur afsláttur við áburðarkaupin,
heldur sé áburðarpöntunin komin
inn í viðskiptastöðuna og er þar
af leiðandi hluti af skuldbreytingu
hluta viðskiptastöðunnar.
Varðandi það hvort verið
sé að mismuna bændum í
Skagafirði segir Ingólfur að
það sé ekki rétt. „Það stendur
öllum sauðfjárbændum þetta
til boða, sem leggja inn hjá KS
og eru jafnframt félagsmenn.
Við lögðum þetta með þessum
hætti upp fyrir bændur en erum
ekki búnir að ganga frá þessum
málum endanlega. Við fengum
deildarstjóra hjá KS til þess að
koma á fundum þar sem þetta var
kynnt fyrir bændum og þeir sem
hafa áhuga leita svo til okkar.“
Jafnræði ekki raskað
Ingólfur segir að það sé ekki
hægt að segja að jafnvægi í
greininni sé eitthvað raskað með
slíkum samningum. „Í sjálfu sér
er það ekki nýtt að KS aðstoði
félagsmenn sína með lánum á
hagstæðum kjörum. Við erum
að bjóða félagsmönnum þetta og
félagssvæði okkar er Skagafjörður.
Ákvörðun þessi er ekki tekin af
kjötafurðastöð KS heldur af
fjármáladeild í samráði við stjórn
félagsins,“ segir hann. /smh
Höfuðstöðvar Kaupfélags Skag-
firðinga á Sauðárkróki.