Bændablaðið - 08.02.2018, Síða 6
6 Bændablaðið | Fimmtudagur 8. febrúar 2018
Bændablaðið kemur út 24 sinnum á ári. Því er dreift ókeypis á yfir 400 stöðum
á landinu og á öll lögbýli landsins.
Lesendur geta einnig gerst áskrifendur að blaðinu og fengið það sent heim í pósti
gegn greiðslu. Árgangurinn kostar þá kr. 10.500 með vsk. (innheimt í tvennu lagi).
Ársáskrift fyrir eldri borgara kostar 5.250 með vsk.
Heimilisfang: Bændablaðið, Bændahöll við Hagatorg, 107 Reykjavík.
Sími: 563 0300 – Fax: 562 3058 – Kt: 631294–2279
Bændablaðið er í eigu Bændasamtaka Íslands. − Málgagn bænda og landsbyggðar −
SKOÐUN
Íslenskir bændur þurfa sannarlega
ekki að skammast sín fyrir árangur í
gæðaframleiðslu landbúnaðarvara. Það
sýnir sig best að ár eftir ár er verið að slá
ný met á þeim vettvangi.
Í síðasta Bændablaði var greint frá því
að kýr númer 851 á Innri-Kleif í Breiðdal
á Austfjörðum hafi sett nýtt Íslandsmet
er hún mjólkaði hvorki meira né minna
en 14,2 tonnum. Þar var einnig greint frá
því að Brúsastaðir í Vatnsdal hafi verið
afurðahæsta kúabúið annað árið í röð.
Höfðu bændur á sama bæ áður hampað
slíku afreki í tvígang, auk þess að hafa átt kú
sem setti Íslandsmet. Íslenskir kúabændur
hafa líka tekið risaskref í þróunarmálum
með uppbyggingu lausagöngufjósa og
innleiðingu mjaltaþjóna.
Í blaðinu í dag er svo greint frá því
að Eiríkur Jónsson í Gýgjarhólskoti í
Biskupstungum hafi sett nýtt Íslandsmet
í meðalafurðum eftir hverja kind, eða
48,1 kg. Fjöldi sauðfjárbænda hafa líka
verið að standa sig afburðavel í ræktun og
framleiðslu þó ekki séu þeir öfundsverðir
þegar kemur að því að telja saman þá
fjárhagslegu umbun sem þeir fá fyrir
sinn snúð. Þar brjóta menn nú heila í
bakherbergjum stjórnsýslunnar varðandi
það hvaða stefnu skuli taka til að bæta úr
þeirri ófremdarstöðu sem uppi hefur verið
í þessari grein.
Víst er að þar dugar ekki að sveifla
pennum og strika yfir starfsemi
sauðfjárbænda í hagræðingarskyni. Það
hangir nefnilega ýmislegt fleira á þeirri
spýtu. Hvort sem mönnum líkar vel við
bændur eða ekki, þá er það staðreynd
að þeir eru víða límið sem heldur saman
heilu samlögunum. Ef þeim er kippt út úr
jöfnunni til að láta exelskjal arðseminnar
líta betur út, þá er hætt við að önnur
exelskjöl muni ekki ganga upp. Þegar
bændur neyðast til að gefast upp, þá rýrnar
byggð á viðkomandi svæði og félagsleg
staða heilu byggðarlaganna getur umturnast
á einu augabragði. Þegar heilu samfélögin
hrynja hverfa líka möguleikarnir til sóknar
á viðkomandi svæði. Þetta verða menn
að hafa í huga þegar rætt er um vanda
sauðfjárbænda. Þeirra vandi er nefnilega
vandi heilu byggðarlaganna og stundum
heilu landshlutanna. Það þarf að finna
lausnir en þær verða að vera á skynsemi
byggðar.
Ferðaþjónusta hefur verið sá vaxtarsproti
sem mest hefur verið áberandi í íslensku
þjóðfélagi á síðustu árum. Erlendir
ferðamenn eru langflestir hingað komnir
til að njóta einstakrar náttúrufegurðar og
til að upplifa íslenska menningu. Íslenska
náttúrufegurð er vart að finna í stórum
stíl í miðbæ Reykjavíkur og íslensk
miðborgarmenning sýnir harla falska
mynd af menningu þjóðarinnar. Það er bara
einföld staðreynd að púslin í þá mynd sem
ferðamenn sækjast helst eftir er langflest
að finna á landsbyggðinni.
Ef við höfum ekki ráð á að byggja
landið sem víðast, þá missir landið stóran
hluta af sínu aðdráttarafli. Ferðamönnum
mun þá fækka og efnahagur þjóðarinnar
þrengjast. Ef menn vilja aftur á móti gera
eitthvað til að styrkja stöðuna, þá þarf að
halda áfram af krafti við þá merkilegu vinnu
sem í gangi hefur verið við uppbyggingu
fjarskiptakerfisins. Alvöru raforkuvæðing
með þriggja fasa lögnum í sveitum er
líka nauðsynleg forsenda framfara, m.a. í
rafbílavæðingu.
Eitt mikilvægasta verkefnið er þó að
halda uppi nútíma vegum og samgöngukerfi.
Þar verða menn bara að fara að hysja upp
um sig buxurnar ef ekki á enn verr að fara.
Illa farið vegakerfi er þegar orðið allt of
dýrt fyrir þjóðina og mannslífin sem glatast
á vegum landsins á hverju ári eru algerlega
óverjandi fórnarkostnaður. /HKr.
Límið í byggðunum
ÍSLAND ER LAND ÞITT
og birtustig og sýnast því aldrei eins. Mynd / Hörður Krstjánsson
Loftslagsbreytingarnar eru stórt mál sem
heimsbyggðin þarf að taka á, þar er litla
Ísland ekki undanskilið. Okkur er tjáð
að stærsti áhrifaþátturinn á Íslandi í
kolefnismenguninni séu framræstar mýrar
og með ákveðnum mælingum eru fundnir
út stuðlar og tölur.
Þegar verið er að meta losun vegna
framræslu hér á landi er stuðst við losunartölur
sem notaðar eru í Evrópu. Mér finnst það nú
dálítið eins og við myndum meta mjólkurnyt
kúnna okkar með stuðlum frá evrópskum
kúm. T.d. Jersey-kýrnar eru ekki mikið stærri
en íslensku kýrnar. 50 kýr í fjósi þar hljóta
því að mjólka jafn mikið og 50 kýr í fjósi hér,
en það er langt því frá að svo sé. Eða að 100
hektarar af túni hér á landi gefi jafn mikla
uppskeru og 100 hektarar af túni í Danmörku.
Það er svo margt sem hefur áhrif á losunina,
veðurfar, gróðurfar, jarðvegsgerð og fleira,
því er bráðnauðsynlegt að komast að því hver
losun gróðurhúsalofttegunda er raunverulega
úr framræstum mýrum hér á landi.
Eins þarf að velta fyrir sér hvaða
fleiri ráðum við getum beitt til að
minnka kolefnisfótsporin. Þar horfi
ég t.d. til innflutnings og útflutnings á
landbúnaðarvörum. Það væri mun minni
mengun af því að neyta innlendrar
framleiðslu, fremur en að flytja inn og þurfa
þá að flytja á móti út landbúnaðarafurðir sem
ekki seljast vegna innfluttu varanna.
Hvernig vörur viljum kaupa?
Talandi um innflutning landbúnaðarafurða.
Hvernig vörur viljum við borða? Er okkur
alveg sama, bara að þær næri okkur svo
við getum haldið áfram lífsbaráttunni? Nei,
ég held að við viljum vita hvernig varan
er framleidd, við hvaða aðbúnað dýrin
lifðu, eða hvernig sinnt var um plönturnar,
hvernig fóður dýrin hafa fengið, hvort
einhver sýklalyf og eiturefni voru notuð
við framleiðsluna, hvernig aðbúnaður
og launakjör starfsmannanna sem hirtu
um dýrin og plönturnar var o.þ.h. Ódýrar
innfluttar landbúnaðarvörur eru ekki
framleiddar á sömu forsendum og íslenskar
landbúnaðarvörur.
Verum stolt af okkar íslensku framleiðslu
og höldum áfram að gera vel í framleiðslu
landbúnaðarvara í hæsta gæðaflokki. Þó
svo að að okkur sé sótt með innflutningi
á landbúnaðarvörum þá eigum við ekki að
þurfa að óttast þá samkeppni. Það er hins
vegar áskorun og stórt verkefni framundan að
koma innflytjendum og verslunarrekendum
í skilning um að neytendur þurfa að hafa
val. Neytendur eiga ekki bara að geta keypt
ódýra innflutta vöru. Íslenska varan þarf líka
að vera á boðstólum og sett fram af sanngirni
af innflytjendum og verslunum. Að setja
innflutta sveppi í sambærilegar pakkningar
og íslenska gæða Flúðasveppi ber vott um
einbeittan brotavilja innflytjanda og þá trú og
vissu hans að neytendur vilji kaupa íslenska
framleiðslu.
En matvörur er ekki bara hægt að fá í
verslunum. Stórir matvörukaupendur eru
veitingahús og mötuneyti. Þar þarf að vera
hægt að tryggja að neytandinn viti uppruna
matarins sem þar er að fá.
Full þörf á matvælastefnu
Ríki, sveitarfélög og fyrirtæki setja sér hinar
ýmsu stefnur. Það ætti að vera metnaðarmál
að mötuneyti að minnsta kosti ríkis og
sveitarfélaga settu sér matvælastefnu, þar
sem kæmi fram m.a. að markmiðið væri að
kaupa innlenda framleiðslu eins og unnt er.
Af þessum skrifum mínum má kannski
skilja að ég haldi að allar erlendar matvörur
séu afleitar. Það er langt frá því að ég telji
það. Erlendis er mjög mikið af úrvals
matvöru líkt og íslenskir bændur framleiða.
Hins vegar, þegar búið er að flytja matvöru
í þeim gæðaflokki til landsins okkar, þá er
hún yfirleitt á sambærilegu verði og innlenda
framleiðslan. Hvers vegna þá ekki að kaupa
þá innlendu, styðja við íslenska framleiðslu
og minnka kolefnisfótsporið?
Horfum opin fram á veginn
Fyrir nokkrum árum var nemandi í
áburðarfræðitíma hjá Magnúsi Óskarssyni í
Bændaskólanum á Hvanneyri. Til að ná eyrum
nemendanna bryddaði sá snilldarkennari oft upp
á öðru umræðuefni en þurri áburðarfræðinni.
Í umræddum tíma var Magnús að ræða um
félagsmál bænda og sagði eitthvað á þessa
leið: „Krakkar! Þegar þið komið heim úr
skólanum og verðið orðin bændur, þá er eins
líklegt að flest ykkar fari inn í sveitarstjórnir og
félagsmál bænda. Þið verðið jafnvel formenn
og oddvitar.“ Það var ekki lítið sem þessum
nemanda þótti fullyrðing kennarans fjarri lagi,
allavega hvað hann sjálfan varðaði. Nú rúmum
25 árum seinna hefur umræddur nemandi setið
í mörg ár í sveitarstjórn, verið oddviti, setið í
stjórn Landssambands kúabænda í mörg ár og
stjórn Bændasamtaka Íslands næstum því jafn
mörg ár, verið varaformaður beggja félaga og
komið víðar við í félagsmálum.
Ástæðan fyrir að ég nefni þetta í þessum
leiðara er sú að við eigum að horfa opin fram
á veginn. Taka þeim áskorunum sem að okkur
er beint. Eins eigum við að vera með opin
augun gagnvart þeim í kringum okkur sem
við viljum að sinni félagsmálum og gegni
forystu fyrir okkur. Það er ekki sjálfgefið að
viðkomandi aðilar hafi metnað eða sjálfstraust
til að koma sér sjálfir áfram. Ég hef ákveðið
að gefa ekki kost á mér áfram til setu í stjórn
BÍ og vil þakka kærlega fyrir þá reynslu sem
ég hef fengið af þeim störfum, sem og öðrum
í þágu bænda. Þetta er dálítið eins og að
vera í tíma hjá Magnúsi Óskarssyni, þú veist
ekkert alltaf hvar tíminn endar, þó hann byrji
á áburðarfræði, en lærdómurinn ómetanlegur
engu að síður.
Ritstjóri: Hörður Kristjánsson (ábm.) hk@bondi.is – Sími: 563 0339 − Rekstur og markaðsmál: Tjörvi Bjarnason tjorvi@bondi.is – Blaðamenn: Margrét Þ. Þórsdóttir mth@bondi.is – Sigurður Már Harðarson
smh@bondi.is – Vilmundur Hansen vilmundur@bondi.is – Auglýsingastjóri: Guðrún Hulda Pálsdóttir ghp@bondi.is – Sími: 563 0303 – Netfang auglýsinga: augl@bondi.is − Vefur blaðsins:
www.bbl.is − Netfang blaðsins: (fréttir og annað efni) er bbl@bondi.is
Frágangur fyrir prentun: Anna Kristín Ólafsdóttir – Prentun: Landsprent ehf. – Upplag: sjá forsíðu – Dreifing: Landsprent og Íslandspóstur. ISSN 1025-5621
Guðný Helga Björnsdóttir
varaformaður Bændasamtaka Íslands
bessast@simnet.is
Tökum þeim áskorunum sem að okkur er beint