Bændablaðið - 08.02.2018, Page 20
20 Bændablaðið | Fimmtudagur 8. febrúar 2018
Greinilegt er að skoðanir eru
mjög skiptar um hvort það sé
í raun eins farsælt að moka
ofan í framræsluskurði til að
endurheimta votlendi og gjarnan
er fullyrt. Ljóst er að mörgum
veigamiklum spurningum
hefur þar ekki verið svarað
með ótvíræðum hætti. Þá
virðast fullyrðingar sem margir
stjórnmálamenn hafa gripið á lofti
um ágæti skurðafyllinga byggðar
á afar umdeildum forsendum.
Það hefur verið varpað fram
fullyrðingum um að endurheimt
votlendis yrði stórtækasta
aðgerðin sem Íslendingar geti
ráðist í til að draga úr losun
gróðurhúsalofttegunda. Allt annað sé
nánast hjóm eitt í samanburðinum. Á
þeim forsendum virðist framkvæmd
íslenskra yfirvalda í þessum
málaflokki byggjast. Í umræðum
um kolefnisbindingu felast þó miklar
þversagnir af hálfu stjórnvalda.
Á sama tíma og menn ræða um
að moka ofan í skurði með ærnum
kostnaði, hafa stjórnvöld stöðugt
verið að draga úr fjárveitingum til
skógræktar sem þó þykir vísindalega
sannað að sé ein áhrifamesta leiðin til
að binda koltvísýring í andrúmslofti.
Gagnrýnin hugsun afar mikilvæg
Vísindi og öll vísindaleg
framþróun byggir undantekninga-
laust á gagnrýnni hugsun. Blind
trú á kenningar eða fullyrðingar
vísindamanna sem ekki byggja
á sannreyndum gögnum, geta
því reynst æði hættulegar. Nægir
þar að nefna trú á fullyrðingar
Bandaríkjamannsins Nathan
Pritikins um að dýrafita væri orsök
offitu, hjartasjúkdóma sem og
annarra vestrænna lífsstílssjúkdóma.
Kom hann fram með Pritkin
næringarkúrinn (Pritikin Diet) og
setti á fót heila stofnun á þessum
forsendum 1967 sem bar nafnið
Pritikin Longevity Center. Lögð voru
fram svokölluð vísindalega rök fyrir
þessu máli sem síðar reyndust ekki
standast skoðun. Þar var aðallega
um að ræða faraldsfræðilegar
rannsóknir Bandaríkjamannsins
Ancel Keys á tengslum mataræðis
og hjartasjúkdóma (The Seven
Countries Study). Niðurstaða hans
var sú að mikil neysla mettaðrar fitu
og kólesteróls yki hættuna á hjarta- og
æðasjúkdómum. Í framhaldinu kom
nefnd, sem stýrt var af bandaríska
öldungadeildarþingmanninum
og forsetaframbjóðandanum
GeorgeMcGovern. Nefndin sendi
frá sér leiðbeiningar á árunum 1977
og 1980 um mataræði til bandarísku
þjóðarinnar (Dietary Goals for The
United States). Þar var lögð áhersla
á að draga bæri úr fituneyslu,
sérstaklega neyslu mettaðrar fitu og
kólesteróls.
Þessi hugmyndafræði var gerð
að grundvelli lýðheilsumarkmiða
Bandaríkjanna og flestra þjóða
heims, þar á meðal íslenska
heilbrigðiskerfisins. Ráku læknar
á Íslandi og um allan heim harðan
áróður fyrir framgangi þessarar
stefnu áratugum saman. Létu
stjórnmálamenn um allan heim
einnig draga sig á asnaeyrunum í
þessum málum með skelfilegum
afleiðingum fyrir lýðheilsu
almennings. Í dag viðurkenna flestir,
en sumir kannski með semingi, að
þessi lýðheilsustefna, sem byggði
á fölskum vísindaniðurstöðum, var
kolröng.
Því hlýtur það að vera
fagnaðarefni þegar vísindamenn
setja fram rökstudda gagnrýni á
viðteknum skoðunum, sem ekki
virðast vera skotheldar vísindalegar
sannanir fyrir. Það á m.a. við íslensku
mýrarnar þar sem Bændablaðið hefur
m.a. reynt með litlum árangri að fá
svör við ákveðnum spurningum hjá
vísindasamfélaginu. Það er kannski
fyrst núna að einhver viðbrögð eru
að fást við þeim spurningum.
Gagnrýnin grein á fullyrðingar
um íslensku mýrarnar
Grein dr. Þorsteins Guðmundssonar,
sem starfað hefur m.a. sem
prófessor í jarðvegsfræði við
Landbúnaðarháskóla Íslands, og dr.
Guðna Þorvaldssonar, prófessors við
LbhÍ í jarðrækt, í síðasta Bændablaði
um íslensku mýrarnar, hlýtur
því að hafa verið kærkomin fyrir
vísindasinnað fólk, enda vakti hún
mikla athygli. Greinin svarar m.a.
að hluta framlögðum spurningum
Bændablaðsins sem upphaflega voru
lagðar fram af verkfræðingi sem
áhuga hefur á þessum málum.
Í greininni horfa þeir félagar mjög
gagnrýnum augum á fullyrðingar
um ágæti þess að moka ofan í
framræsluskurði í tilraun til að
endurheimta mýrar. Í grein sinni
rökstyðja þeir mál sitt nokkuð
ítarlega. Báðir þessir menn eru
sérmenntaðir í jarðvegsfræðum.
Gagnrýni á gagnrýni
Dr. Auður Magnúsdóttir, forseti
auðlinda- og umhverfisdeildar
LbhÍ, og dr. Árni Bragason
landgræðslustjóri rituðu grein á
vefsíðu Vísis þann 29.1. 2018.
Auður er lífefnafræðingur og Árni
er plöntuerfðafræðingur. Í greininni
gefa þau ekki mikið fyrir greinarskrif
dr. Þorsteins og dr. Guðna. Þar er samt
ekki að finna neinn rökstuðning fyrir
þeim fullyrðingum sem Þorsteinn
og Guðni voru að gagnrýna, en
þær eru forsenda talna sem notaðar
eru af hálfu Íslands í alþjóðlegum
samningum um loftslagsmál. Þar
segja þau Auður og Árni m.a:
„Þeir félagar draga ýmislegt
fram varðandi óvissu og skort
á rannsóknum á votlendi og
endurheimt en efast ekki um að losun
á sér stað á fjölmörgum stöðum.
Ekkert af því sem þeir draga fram
er nýtt eða kemur á óvart enda allt
of lítið fé fengist til rannsókna og
mælinga á gasjafnvægi á framræstu
landi.“ Í greininni segja þau einnig:
„Þeir Þorsteinn og Guðni velta
fyrir sér hvort ekki sé vænlegra
að auka ræktun á framræstu landi
til að auka bindingu. Það getur
að sjálfsögðu átt við í einhverjum
tilvikum þar sem viðkomandi
landeigandi á ekki kost á öðru
landi. Við viljum og þurfum að ná
árangri í loftslagsmálum og teljum
því að endurheimta eigi framræst
land sem ekki er í notkun og taka
til ræktunar lítt gróið og illa farið
land eins og fjölmargir bændur eru að
gera í samstarfi við Landgræðsluna í
verkefnunum Bændur græða landið
og í verkefnum Landbótasjóðs.
Fráleitt er að halda því fram
að endurheimt votlendis hamli
möguleikum bænda til túnræktar
og annarrar landnýtingar enda er
landeigendum frjálst að taka þátt í
slíkum aðgerðum. Þar er verið að
beita hræðsluáróðri sem á ekki við
nein rök að styðjast.
Endurheimt votlendis hefur af
lítt skiljanlegum ástæðum verið
mætt af mikilli andstöðu á Íslandi
og ráðamenn hafa ekki enn tekið af
skarið og valið endurheimt votlendis
til þess að berjast við loftslagsvána.
Þar hafa efasemdarmenn borið
fyrir sig skort á rannsóknum á
endurheimtaraðgerðum á Íslandi
og óvissu í bæði tölum um losun og
heildarflatarmál framræstra svæða.
Eins og í öllum vísindarannsóknum
er óvissa í mælingum og þegar
um er að ræða líffræðileg kerfi er
óvissan alltaf töluverð. Við vitum
þó að á Íslandi voru grafnir tæplega
40 þúsund kílómetrar af skurðum
á síðustu öld og af þeim hafa 34
þúsund kílómetrar verið kortlagðir.
Flatarmál raskaðra votlenda er því
augljóslega mjög stórt og hefur
verið vel kortlagt. Við vitum líka
að framræst votlendi losar mikið
af gróðurhúsalofttegundum vegna
ítarlega rannsókna síðastliðinna
áratuga erlendis og á Íslandi.“
Votlendissjóður fyrir verkefni sem
sagt er kosta 5–6 milljarða
Athygli vekur að í niðurlagi
greinar sinnar vekja þau athygli á
sjóðsstofnun áhugafólks um mokstur
í skurði og endurheimt votlendis, sem
vel á minnst, byggir á hugmyndunum
umdeildu og segja:
„Landeigendur á Íslandi sem hafa
áhuga á því að endurheimta votlendi
í sinni eigu geta því núna strax farið
af stað og lagt sitt af mörkum. Brýnt
er að tryggja fjármagn til þessa og
þar þarf ríkið en einnig einkaaðilar
að koma að. Hópur áhugafólks hefur
unnið að stofnun Votlendissjóðsins
síðastliðna mánuði en hann hefur
það markmið að tengja saman þá
sem vilja leggja sitt af mörkum
fjárhagslega í baráttunni gegn
loftslagsvánni og eigendur raskaðra
votlenda sem vilja endurheimta
þeirra fyrri virkni.“
Hart er keyrt á stofnun
Votlendissjóðs eins og sjá mátti
m.a. í leiðara Fréttablaðsins fyrir
skömmu og í umfjöllun Spegilsins
hjá RÚV. Þar er m.a. haldið á
lofti þeirri opinberu fullyrðingu
að yfir 70 prósent af losun
gróðurhúsalofttegunda hér á landi
komi frá framræstu votlendi, eða um
11 milljónir tonna af CO2. Þá er sagt
að hægt sé að endurheimta 90 þúsund
hektara og breyta í votlendi. Það kosti
um 60 til 70 þúsund krónur á hektara.
Verktakakostnaður er þá áætlaður 5,4
til 6,3 milljarða króna, en ekki er lagt
mat á stjórnsýslukostnað í kringum
verkefnið.
Jón Guðmundsson, lektor við
LbhÍ, Ólafur Arnalds, prófessor
við LbhÍ, Gunnhildur Eva G.
Gunnarsdóttir, rannsóknarmaður hjá
LbhÍ, Hlynur Óskarsson, dósent hjá
LbhÍ og Sunna Áskelsdóttir gagnrýna
líka harðlega samstarfsmenn sína, þá
Þorstein og Guðna, í athyglisverðri
grein hér í blaðinu á bls. 40 og 41.
Í þeirri grein er byrjað í inngangi
á því að gera afskaplega lítið úr
fræðiþekkingu þeirra félaga og þeirra
athugasemdum líkt við það sem þau
kalla „afneitunarfræði“. Þau fara
síðan yfir grein Þorsteins og Guðna
lið fyrir lið. Það vekur þó athygli
að lítið er þar minnst á metangas
sem er þó veigamikil gastegund
sem losnar í mýrum og margfalt
áhrifameiri gróðurhúsalofttegund
en koltvísýringur.
Efasemdir rafmagnsverkfræðings
um að moka ofan í skurði
Í ljósi þessara skrifa hámenntaðra
vísindamanna, sem eru greinilega
ekki sammála um meint ágæti þess
að moka ofan í skurði, er ekki úr vegi
að rifja upp forsendur fyrirspurnar
Bændablaðsins sem upphaflega var
send til Landbúnaðarháskóla Íslands
á síðastliðnu sumri og ekki fengust
þá svör við. Þær forsendur eru
vangaveltur Ágústs H. Bjarnasonar,
rafmagnsverkfræðings hjá Verkís,
sem hefur mikið velt þessum málum
fyrir sér og skrifað um það greinar.
Þar á meðal er grein sem birtist í 5.
tbl. blaðsins Heima er bezt 2017.
Ágúst og fjölskylda hafa mikinn
áhuga á þessum málum og hafa m.a.
prófað sig áfram með landbætur og
trjáplöntun á um 10 hektara landi
skammt frá Geysi í Haukadal. Þá vann
Ágúst t.d. á sínum unglingsárum við
skógrækt í Haukadal. Hann útlistar
sig þó alls ekki sem sérfræðing í
málefnum mýra, en spyr bara sem
leikmaður eðlilegra spurninga og
reynir að rökstyðja sínar vangaveltur.
Í greininni í Heima er bezt og á
vefsíðu sinni varpaði hann m.a. fram
mjög athyglisverðum spurningum
sem ráðamenn hljóta að verða að
svara áður en lengra er haldið. Það
er að segja ef menn vilja yfirhöfuð
grundvalla sínar ákvarðanir á
vísindalegum rökum. Ágúst segir
m.a.:
„Oft hefur mér komið til hugar
að „endurheimt votlendis“ með því
að fylla í skurði sé ekki endilega
rétt aðferð til að minnka losun
koltvísýrings.“
Vísar hann m.a. til þess að þar
sem land hafi verið þurrkað upp
sé víða farið að binda kolefni með
ræktun trjáa. Á öðrum svæðum sem
fengið hafi að vera í friði fyrir beit
sé farinn að vaxa upp sjálfsprottinn
trjágróður.
„Til þess að flýta fyrir að skógur
vaxi upp nánast af sjálfdáðum mætti
planta fáeinum birkiplöntum hér og
þar, jafnvel aðeins 100 stk. í hvern
hektara, þ.e. um 10 metrar milli
plantnanna. Eftir nokkur ár fara þessi
tré að bera fræ og verða frælindir.
Sjálfsáðar plöntur fara að skjóta upp
kollinum vítt og breitt. Á fáeinum
áratugum verður birkiskógurinn
þéttur og fallegur. Þetta kostar
lítið sem ekkert, eða þrjá bakka af
birkiplöntum í hvern hektara.“
Losun metangass stoppar ekki við
að moka ofan í skurði
Ágúst velti líka upp spurningum sem
skipta sennilega mestu máli í þessu
samhengi:
„Hve lengi losar mýri sem hefur
verið þurrkuð CO2? Að því hlýtur
að koma að órotnuðu jurtaleifarnar
í fyrrum mýrinni rotni og breytist
í frjósama gróðurmold. Það tekur
ekki mjög langan tíma. Eftir það er
losunin ekki meiri en frá venjulegum
úthaga og þörfin fyrir að endurheimta
votlendið til að minnka losun á CO2
þá engin.
Ekki er ólíklegt að losun þurrkuðu
mýrarinnar fylgi veldisfalli eins og
algengt er í náttúrunni. Losunin
væri þá mest í byrjun, en færi hratt
minnkandi. Ef til vill er hún orðin
óveruleg eftir fáeina áratugi.
Að bleyta upp land sem breyst
hefur úr mýrarjarðvegi í frjósaman
jarðveg hefur því ef til vill ekki
nokkurn tilgang. Það hjálpar
auðvitað ekkert að stöðva losun sem
af náttúrulegum ástæðum er orðin
lítil sem engin.
Svo má ekki gleyma því að þó
að blautar mýrar losi ekki nema
takmarkað af CO2, þá losa þær metan.
Metan er um 25 sinnum virkara
gróðurhúsagas en koltvísýringur, svo
Gagnrýnin hugsun hlýtur að vera forsenda vísindalegra niðurstaðna og bakgrunnur pólitískra ákvarðana:
Er endurheimt votlendis töfralausn
eða er þörf á að skoða málið betur?
FRÉTTASKÝRING
Hörður Kristjánsson
hk@bondi.is
Helmingunartími losunar koltvísýrings úr mýri sem sem þurrkuð hefur verið
með skurðgreftri. Mynd / úr grein Ágústs H. Bjarnarsonar verkfræðings.
Hér var áður votlendi. Nú er það fallegur sjálfsáður skógur. Mynd / Ágúst H. Bjarnarson