Spássían - 2013, Page 7
7
Hún segir það fara vel saman að vinna sjálf að
myndlist og vinna með öðrum í að setja upp sýningar.
„Það heldur mér vakandi að vera alltaf að stússast í
þessu þótt vissulega fari líka tími í stúss hérna sem ég
hefði viljað nota á vinnustofunni. Þetta er minna rými
en ég hafði í DaLí galleríi svo ég er með vinnustofu
annars staðar núna. En á móti kemur að ég er með
skrifborð hérna og smá aðstöðu og ég tek vatnslitina
með mér og skissa oft hér. Þannig að ég er aldrei
aðgerðarlaus.“
Þegar Dagrún er spurð að því hvort galleríið
fylgi einhverri sérstakri stefnu hlær hún og segist
hafa verið spurð að þessu þegar hún byrjaði með
DaLí gallerí. „Ég svaraði: „Já. Enga einstefnu!“
Ég vil hafa þetta sem fjölbreyttast. Að hér komi
inn ólíkir listamenn og nýir listamenn, hér séu
málverk, gjörningar og innsetningar, skúlptúrar,
samsýningar og einkasýningar. Opnunarsýningin
hérna í Mjólkurbúðinni árið 2011 var ofboðslega
flott innsetning Mireyu Samper og Ástu Vilhelmínu
Guðmundsdóttur og nefndist Í sjávarmáli.
Tónlistaratriðið var líka flott, George Hollanders
spilaði á didjerídú og Þór Sigurðsson og rósa María
Stefánsdóttir sungu kvæði. Hann er með mikla
bassarödd og hún er sópran og þetta var afskaplega
fallegt. Eftir það hafa margir fengið að sýna hérna og
þegar listamenn útfæra sýningarnar á sinn hátt og eru
einlægir, þá bara heppnast það vel. Ég stilli ekki fólki
upp og segi því hvernig það eigi að gera hlutina. Fólk
vinnur inn í rýmið á sínum forsendum. Og þetta rými
er svo skemmtilegt, það einhvern veginn umfaðmar
sýningarnar. Alveg sama hversu ólíkar þær eru. Það er
eins og þær bara virki.“
Dagrún vinnur þó ekki
alltaf á svo bókstaflegan hátt með
mat. Fyrir sýninguna Staðfugl Farfugl bjó
hún til skúlptúr sem var stór fugl. „Ytra byrðið
er eggjaskurn og skúlptúrinn heitir „Skurn“. Hann
átti bara að lifa af sumarið úti en eggjaskurnin er svo
sterkt efni að hann lifði af sumarið og heilan vetur úti
í garði undir skafli. Því endaði hann uppi á skúrþaki hjá
nágrannanum – þótt hann sé orðinn sjúskaður. En mest hef
ég verið að mála portrett af mat. Ég veit ekki hvers vegna.
Mér finnst kannski bara svona gott að borða! Ég byrjaði
með matarseríu haustið 2007 sem heitir Look and
Cook og málaði ég uppskriftir. Og já, mér finnst líka
mjög gaman að elda, á sýningunni var einnig
að finna vídeóverk þar sem ég bjó til
rabarbaragraut.“
Í júní opnaði
myndlistahópurinn
Höfuðverk sýningu í
Mjólkurbúðinni en í sumar
verða þar fleiri sýningar,
t.d. á verkum Aðalheiðar
Eysteinsdóttur, Helen Molin og
Bergþórs Mortens, og fleiri
listamenn verða með
sýningar í ár.