Spássían - 2013, Blaðsíða 19
19
öðru hverju út á sjóinn“ (9). En hin dæmigerða
ímynd 20. aldar höfundarins – miðaldra karlinn sem
lokar sig af til að hamra innblásin orð á ritvélina
sína og horfa hugleiðandi út um gluggann inn
á milli – er eitt af því sem er nú smátt og smátt
að hverfa. Sögumaðurinn talar kaldhæðinn um
niðursagaða „verönd sem var“ (83) á nágrannahúsi,
þar sem hann situr eftir í sumarhúsabyggðinni um
haustið eins og draugur fortíðar og reynir að skrifa
skáldsögu. Í endurminningabókinni Veröld sem var
gerði Stefan Zweig nostalgíska tilraun til að varðveita
og endurskapa í texta tíðaranda æsku sinnar og
ungdómsára, tíðaranda sem honum fannst hafa horfið
með fyrri heimsstyrjöldinni. Og í Suðurglugganum er
einnig að finna nostalgískan óð til horfinna gilda; óð
til hins sérstaka sambands höfundar og ritvélar sem
tapast hefur á tölvuöld. Sögumaðurinn vísar meira að
segja í hefð sem skapast hefur fyrir slíkum sögum um
samband höfundar og ritvélar: „Ef ég man rétt var það
Paul Auster sem skrifaði heila bók um ritvélina sína
og dásamaði hvað það væri gott að slá á lyklaborðið á
henni“ (35). En þegar sú hefð er skoðuð nánar verður
ljóst að höfundar hafa eytt að minnsta kosti jafn
miklum tíma í að úthúða ritvélum og að dásama þær.
Og strax á fyrstu síðum Suðurgluggans verður líka ljóst
að samband sögumannsins við gömlu Olivetti-ritvélina
sína einkennist af kvíða, togstreitu og ofbeldisfullum
hugsunum.
MAður Og VÉL
Sögumaðurinn í Suðurglugganum er jafnvel enn meira
lifandi dauður en sögupersónur Péturs Gunnarssonar
því hann hefur lokað sig algjörlega af frá mannlegu
samfélagi. Hann vísar stöðugt í önnur verk og höfunda
þar sem sjálfsmorð og dauði koma við sögu og lætur
sig jafnframt dreyma um að stúta ritvélinni sinni:
Það kemur fyrir að ég hugleiði að fara með ritvélina
yfir á höfðann og henda henni í sjóinn, jafnvel fara
sjálfur á eftir henni. Skáldsögur eru myllusteinn
um háls höfundarins. (12)
Ofbeldishneigðin sem beinist gegn vélinni er
vandlega samofin sjálfseyðingarhvöt, en rithöfundar
lýsa ritvélunum sínum oft eins og nokkurs konar
framlengingu á eigin persónuleika. John Updike á til
dæmis að hafa sagt í viðtali að hann og Olivetti-vélin
sem hann skrifaði allar bækur sínar á, og sem var
framleidd sama ár og hann fæddist, væru að eldast og
hrörna saman.3 Og í Suðurglugganum verður ritvélin
eins og framlenging á huga höfundarins:
Mér hefur verið sagt hvað eftir annað að það sé
fáránlegt að ég skuli ekki nota tölvu við að skrifa.
En ég er þrjóskur og vil ekki gefa eftir. Tölvan hefur
svipuð áhrif á mig og ljósmyndavélar á frumbyggja
Ástralíu: mér finnst hún taka sálina frá mér. Það
gerir ritvélin ekki. Samt er það auðvitað svo, að ef
hugurinn er ekki tilbúinn, þá er alveg sama hvort
ég mundi nota ritvél, Plútóblýant, Parkerpenna
eða tölvu, ekkert gerist. En ritvél, helst gömul
ritvél án rafmagns, er það næsta sem ég kemst
huganum. (32-33).
Það getur því ekki boðað neitt gott þegar hann setur
lokið á ritvélina og smellir „því aftur, með svipuðum
hreyfingum og útfararstjóri skrúfar lok á kistu“ (15).
Eða þegar: „[s]mellirnir í ritvélinni minna á byssuskot í
hljóðu húsinu“, þótt það sé „bara loftriffill“ (11). Upp í
hugann kemur sú saga að Hunter S. Thompson hafi átt
það til að fara með ritvélina sína út í garð og skjóta á
hana. Hann skaut svo á endanum sjálfan sig.4
próFLAuS í BLiNDFLugi
Sögumaðurinn í Suðurglugganum lítur á sig sem
fulltrúa eldri tíma og streitist á móti nýrri tækni. En
aftenging hans við heiminn fyrir utan, við framrás
tímans, breytingar og tækniþróun, verður síst til að
efla sambandið við gömlu, traustu ritvélina:
Höfuðið á mér er algerlega tómt. Þegar ég horfi
niður á svarta ritvélina finnst mér hún vera óvinveitt
lífvera, einhverskonar eiturkuðungur (23).
Lýsingar sögumanns á hugarástandi sínu haldast
gjarnan í hendur við lýsingar á ritvélinni, líkt og að
með því að stara á hana eða snerta geti hann komist
í snertingu við sjálfan sig. Það sem við blasir verður
hins vegar æ ókunnuglegra og undir lokin er svo
komið að ritvélin, það næsta sem kemst huga hans, er
orðin tæki sem hann kann ekki að nota:
Ég reyndi í morgun, tók lokið af ritvélinni og settist
við borðið, en snögglega leið mér einsog ritvélin
væri stjórnborð í flugvél hátt á lofti, og ég ekki með
neinskonar flugpróf. Maður fær ekki skírteini út á
hugarflug, slíkir flugtímar fást ekki metnir. Ég hef
lengi stundað blindflug á þessari vél próflaus, en
það verður sífellt áhættusamara. (101)
DAuðAFöLir STAFir
Eins og ráða má af tilvitnunum hér að framan ganga
skáldskaparskrif sögumannsins í Suðurglugganum
ekki sérlega vel. Sögupersónur neita að vakna til lífs
og undir lokin er sögumaðurinn farinn að hamra
jafnóðum x yfir hvern staf sem hann skrifar. Sem
er reyndar óþarfi, því stafirnir sjást varla lengur á
pappírnum.
Hinir dofnandi stafir eiga sér eðlilega skýringu. Þeir
sem þrjóskast við að skipta gömlu ritvélunum út fyrir
tölvu standa fyrr eða síðar frammi fyrir þeim vanda að
blekið eyðist upp af ritvélarborðanum og að afar erfitt
er að verða sér úti um nýjan. Indriði, sögupersónan í
Íslendingablokk, lendir til dæmis í sama vanda er hann
ákveður að semja minningargrein:
ritvélin var á sínum stað inni í svenherbergisskáp,
en letrið svo dauft að stafirnir voru nánast hvítir.
Hann bað stúlkuna í upplýsingu að hafa uppi á
ritvélabúð, en þær voru engar til lengur (155).
Indriði handskrifar að lokum minningargreinina og
fer með hana í eigin persónu á Morgunblaðið, sem
veldur nokkrum vandræðum í stafrænum heimi. Sú
sena Péturs Gunnarssonar er nokkuð kómísk, þótt