Spássían - 2013, Page 47
47
og eðlilegt sé. „Fólk kemur og fer
og það ber með sér breytingar. En
eins og víðar er lítið fjármagn sett
í myndlistina og auðvitað mætti
hlúa betur að Listagilinu. Þegar
svona fyrirbæri eins og Listagilið
hafa sannað sig finnst mér eðlilegt
að settur sé meiri peningur í þau
af hálfu bæjarfélaga til að þau geti
lifað og dafnað. Auðvitað er þetta
alltaf spurning um það hvaðan
peningar eiga að koma, og um
forgangsröðun, en mér finnst að
það mætti leggja meiri áherslu á
að þarna geti verið blómlegt starf.
Annars held ég að fólkið í Listagilinu
sé að gera eins vel og hægt er
miðað við aðstæður.“
Aðalheiður rekur nú heimili
og vinnustofu í Freyjulundi,
sem er í nágrenni Akureyrar, en
nýlega keypti hún einnig gamla
Alþýðuhúsið á Siglufirði. „Það er
líka heimili og vinnustofa, en þar
bætist við lítið gallerí sem heitir
Kompan. Þar set ég upp sýningar
eftir aðra listamenn og þá er opið
fyrir almenning. Það er ótrúlegur
menningarbragur á þessum litla
bæ, Siglufirði, en kannski helst að
fjölga mætti myndlistarsýningum.
Þess vegna langaði mig að setja upp
þetta gallerí. Ég stend einnig fyrir
alls konar menningarviðburðum
einu sinni í mánuði; gjörningum,
fyrirlestrum og ýmsum
uppákomum, en ég hef alltaf
gert það jafnt og þétt í gegnum
tíðina. Mér finnst það vera hluti af
starfinu og ég hef aðstöðu til þess
í Alþýðuhúsinu. Í Freyjulundi hef
ég reyndar einnig haft opið hús í
desember en það kallar á annars
konar heimilishald og er ekki hægt
að gera allan ársins hring.“
Þótt tréskúlptúrar Aðalheiðar
hafi verið mest áberandi hér heima
vinnur hún með ýmis önnur efni
og aðferðir en segist alltaf fjalla
um það sama; hversdagsleikann.
„Þegar ég hef sýnt erlendis hef ég
gjarnan verið með eitthvað annað
en tréskúlptúra því það er svo dýrt
að senda þá til útlanda. Hér heima
nota ég hins vegar tækifærið til að
sýna þá. Og auðvitað hafa kviknað
nýjar hugmyndir á leiðinni sem ég
þurfti að ýta til hliðar því ég vildi
klára þetta verkefni. En nú verður
kannski tekinn nýr vinkill og stærra
skref til hliðar.“
Sýningar Aðalheiðar í Listagilinu
munu standa frá 22. júní til 11.
ágúst.
Myndir: Arnar Ómarsson