Spássían - 2013, Page 59

Spássían - 2013, Page 59
59 Vald og valdaleysi Eftir Kolfinnu Jónatansdóttur Vilborg Davíðsdóttir. Vígroði. Mál og menning. 2012. VÍGROðI eftir Vilborgu Davíðsdóttur er framhald bókarinnar Auðar (2009) og er söguleg skáldsaga sem gerist á einum vetri á síðari hluta níundu aldar. Hún lýsir samfélagi og átökum á norðanverðum Bretlandseyjum, sem og togstreitu á milli ólíkra þjóðarbrota og trúarhugmynda. Í forgrunni er Auður djúpúðga Ketilsdóttir, sem síðar varð landnámskona á Íslandi, en sagan snýst ekki eingöngu um örlög hennar, heldur lýsir þjóðfélagi þessa tíma. Bókin skiptist í tvo hluta. Í þeim fyrri segir frá heimsókn Auðar til foreldra sinna og systkina á eynni Tyrvist og dvöl hennar þar. Í þeim síðari er ýmist sagt frá því sem gerist að Þórsá, bæ Auðar, og ferð Þorsteins sonar hennar með Orkneyjajarli. Sagan er sögð í þriðju persónu og þó að Auður og sonur hennar Þorsteinn fái mest rými er öðrum persónum einnig fylgt eftir og skyggnst inn í ólíkar aðstæður þeirra eftir kyni, aldri og þjóðfélagsstöðu. Þetta dýpkar söguna töluvert og veitir sýn inn í ólíka heima. Þrátt fyrir að persónurnar nái mismiklum tökum á lesanda er þessi leið mun áhrifaríkari en ef Auði einni væri fylgt eftir allan tímann og sjónarhornið einskorðað við hana.  Í upphafi sögunnar óttast hin fráskilda Auður að faðir hennar ákveði að gifta hana á ný, til að auka eigin tengsl og völd. Þrátt fyrir að standa ein fyrir búi, vera útsjónarsöm og hafa komið ár sinni vel fyrir borð er hún ekki sjálfráð. Það að vera háður valdi annarra er áberandi þema í sögunni. Konur hafa lítið um eigið líf að segja, hverjum þær eru gefnar eða hvort börn þeirra fái að lifa. Þær verða að lúta ákvörðunum feðra sinna, eiginmanna og bræðra og geta einungis haft óbein áhrif. Almenningur er einnig háður höfðingjunum og valdabrölti þeirra, þarf að sýna þeim hollustu, borga þeim skatta og skyldur og jafnvel fylgja þeim í víking eða herfarir. Einnig getur það verið flókið að velja hverjum beri að fylgja, líkt og Þorsteinn sem þarf að sverja Orkneyjajarli, andstæðingi föður síns, hollustueið. Hernaði er líka lýst á ófagran hátt, hann reynist óskyldur hugrekki og sæmd og snýst að miklu um rán, gripdeildir og ótta. Innst inni þrá allir frið og nóg jarðnæði og því verður hið nýfundna land í norðri, þar sem engir höfðingjar bítast um völd, heillandi valkostur.  Lítið er vitað um líf Auðar eða annarra á þessum slóðum áður en þau héldu til Íslands en höfundur vinnur vel úr þeim heimildum sem til eru og skáldar í eyðurnar. Stundum er þó fullmikil áhersla lögð á að koma staðreyndum til skila og bitnar það á flæði sögunnar. Sagan er þó grípandi og spennandi og lesanda stendur engan veginn á sama um afdrif sögupersóna. Endirinn bendir til þess að framhalds sé að vænta.  Frágangur bókarinnar er til fyrirmyndar og kápuskreyting smekkleg. Aftast í bókinni er ættartré Auðar og skýringar á gelískum hugtökum. Höfundur gerir einnig grein fyrir efnivið sínum og heimildum og eru þessar viðbætur mjög gagnlegar, sem og landakortið sem er innan á bókarkápu. Ljósmyndir uppspretta skáldskapar Eftir Ástu Gísladóttur ransom riggs. Heimili fröken Peregrine fyrir sérkennileg börn. Salka. 2012. SAGAN segir frá unglingsdrengnum Jakob sem er alinn upp við ævintýralegar sögur afa síns. Þessum sögum fylgja ljósmyndir af skrítnum krökkum og trúir Jakob þeim mátulega. Þegar afinn deyr á voveiflegan hátt og furðulegir hlutir fara að gerast ákveður hann að ferðast til Englands til að læra meira um sögu afa síns og hvort eitthvað sé í raun til í þessum ótrúlegu sögum og undarlegu ljósmyndum. Þegar þangað er komið reynist raunveruleikinn mun furðulegri en hann hafði gert sér í hugarlund.  Heimili fröken Peregrine fyrir sérkennileg börn er sérkennileg bók. Hún sækir innblástur frá gömlum ljósmyndum sem höfundur fékk að láni úr einkasöfnum fólks sem hafði hafði sankað þeim að sér á flóamörkuðum og bílskúrssölum víðs vegar um Bandaríkin. Myndirnar eru allar teknar af raunverulegu fólki við raunverulegar aðstæður, þótt ljósmyndablekkingum hafi verið beitt á nokkrar. Þær eru svo fléttaðar inn í skáldaða frásögn bókarinnar, og eru því undanfari frásagnarinnar í stað þess að vera viðbót eins og oftast á við. Persónur og atvik eru greinlega skálduð til að falla að skemmtilegum myndum og sagan látin laga sig að þeim frekar en öfugt. Stemningin verður þannig stundum óþægilega raunveruleg. Það reynir að vísu svolítið á trúverðugleikann að persónur bókarinnar skuli taka myndir í gríð og erg og hafa aðstöðu til að framkalla þær á afskekktri eyju á tímum síðari heimstyrjaldarinnar. Margar myndanna eru einnig greinilega teknar í ljósmyndastúdíói en ekki við þær aðstæður sem lýst er í bókinni. Vitneskjan hvaðan myndirnar koma dregur óneitanlega úr áhrifamætti þeirra, og svo hægt sé að lifa sig inn í söguna þarf að leggja þessa vitneskju til hliðar. En engu að síður er um skemmtilega og öðruvísi tilraun að ræða og sá heimur sem ljósmyndirnar fæða af sér er bæði flókinn og frumlegur. Sagan endar í nokkuð lausu lofti enda mun framhald vera á leiðinni. Það verður spennandi að sjá hvernig samspil ljósmynda og skáldskapar verður þar.

x

Spássían

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Spássían
https://timarit.is/publication/1454

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.