Spássían - 2013, Page 61

Spássían - 2013, Page 61
61 verksins tengdi áhorfandann sterkt við konuna og gaf mynd af fjallkonunni, móður jörð umlukta óblíðum náttúruöflum. Í kjölfarið birtust mæður þessa heims með börn sín og upp hófst tími átaka og sátta, samkenndar og sundrungar, ringulreiðar og jafnvægis. Kvenlegur klæðnaður dansaranna undirstrikaði einnig kvenlega ímynd verksins sem og ljóð í sýningaskrá. Það voru samt engar persónur beint sýnilegar í verkinu þó að dansararnir fengju að njóta sín í sólóum og samdansi og enginn var söguþráðurinn. Verkið birti hugmyndir og veruleika sem höfðu verið krufin og sett svo aftur saman í nýju formi. Það skapaði upplifun frekar en að segja sögu nema þá sögu sem hver og einn áhorfandi bjó til úr eigin upplifunum. Öll framvinda verksins var þó flæðandi sem gaf því heildræna mynd. Tengsl við áhorfendur voru skýr, áhorfendur sátu í myrkrinu á meðan dansararnir tjáðu tilfinningar sínar á sviðinu. Engin bein samræða fór fram á milli þessara tveggja hópa þó að dansararnir byðu áhorfendum að fylgjast með átökum þeirra úr fjarlægð. Fjórði veggurinn, skilin milli áhorfenda og þess sem gerist á sviðinu, var þannig á sínum stað. Í dansverkinu var ekki hægt að greina neina sérstaka aðaldansa og aukadansara heldur vann hópurinn meira og minna sem ein heild. Fyrir þá sem þekkja til dansaranna var samt greinilegt að hver og einn fékk að njóta sín á eigin forsendum. Þær breytingar hafa orðið í samvinnu dansara og danshöfunda undanfarin ár að það er sífellt algengara að dansverk séu sköpuð af danshöfundi og dönsurum í sameiningu. Þannig leggja danshöfundarnir línurnar og skapa ramma verksins en dansararnir koma með hreyfingar og úrlausnir á verkefnum sem danshöfundurinn setur fram. Þetta er ólíkt þeirri leið þegar danshöfundurinn er allsráðandi og dansararnir efniviður þeirra til að móta og skapa. Í þeim tilvikum skapa danshöfundarnir verkin en dansararnir læra þau og dansa á sviðinu. Dansverkið reyndi mikið á hreyfifærni dansaranna, úthald og kraft. Hreyfingin var í fyrirrúmi og var það tjáningarform sem dansararnir höfðu til að ná til áhorfenda. Ólíkt ballettinum, þar sem unnið er á móti þyngdaraflinu til að skapa ímynd hins yfirnáttúrulega, einkenndi sterk gólfvinna hreyfimynstur verksins. Samdans í ætt við snertispuna var einnig sýnilegur en snertispuni á milli tveggja kvenna er nokkuð ólíkur pas de deux ballettsins þar sem karldansarar lyfta ballerínunum til að undirstrika fegurð þeirra og yndisþokka. ÁFErð Höfundar: Saga Sigurðardóttir og Margrét Bjarnadóttir Leikmynd og búningar: Eva Signý Berger Tónlist: Good Moon Deer, Guðmundur Ingi úlfarsson og Ívar Pétur Kjartansson Lýsing: Magnús Arnar Sigurðarson Verkið Áferð snýst fyrst og fremst um sköpun og leik að efni sem í þessu tilfelli eru dýnur í mismunandi litum og stærðum. Hér er leikurinn og hversdagurinn í fyrirrúmi og rannsóknin á því hvað er hægt að gera þegar dýnur og hópur af dönsurum koma saman. Verkið var þannig frekar kóreógraferaður hversdagsleiki en listrænn viðburður. Í upphafi sýningarinnar voru dansararnir að leggja lokahönd á hús úr dýnunum á sviðinu. Dansararnir voru íklæddir mjög svo heimilislegum náttfötum, sem virkuðu ótrúlega þægileg en myndu ekki teljast glæsileg. Enginn náttkjóll var sjáanlegur og lítið var um skæra liti. Það sem gerðist síðan á sviðinu var í ætt við það sem gæti gerst í skólastofu úti á landi þar sem hópur krakka, stelpna, er á ferð. Hópurinn þekktist vel og í raun upplifði áhorfandinn að hann þekkti þátttakendurnar líka. Þó að dansararnir hafi fyrst og fremst verið að leika sér saman var áhorfandinn með. Fjórði veggurinn var til staðar en hann var ekki sterkur og skýr heldur þunnur og óljós, það mætti halda því fram að áhorfendur hafi allir verið með í skólastofunni þó að þeir hafi ekki verið þátttakendur. Áhorfendur skipta líka máli þegar gerðar eru tilraunir eða fíflast í hversdagslífinu. Alltaf hafa einhverjir það hlutverk að hlæja að uppátækjunum og fylgjast með hverju fundið er upp á næst. Verkið var þannig barnslegt og einlægt og reyndi ekki að vera annað en það var, samspil dansara og dýna. Verkið í heild var brotakennt og samansett úr mörgum mismunandi uppátækjum. Hið listræna flæði sem einkenndi verkið Eyju var hvergi sjáanlegt. Þessi brotakennda upplifun var þó alls ekki löstur á verkinu heldur sjarmi þess. Spennan sem fólst í því að sjá hvað kæmi næst hélt athygli áhorfenda fanginni, auk fegurðarinnar sem birtist þegar hversdagsleikinn mætti kóreógrafískri fagmennsku. Leikur er grunnstef verksins, sagðar eru sögur, dýnurnar notaðar til að fela sig í, hoppa og kútveltast, stelpurnar fara á trúnó en ráðast einnig hver á aðra með meiðandi orðum og æði. Innan hópsins ríkir samkeppni en einnig samhugur. Það eina sem vantaði í leikinn var hláturinn, hláturinn sem brýst út þegar hópur kemur saman og kannar mörk þess sem má og má ekki, óstöðvandi hlátursköstin sem brjótast út eins og stífla hafi brostið og ekkert getur hamið fyrr en maginn er aumur og tárin streyma úr augunum. Í Áferð var hreyfingin aðeins eitt af tjáningarformum dansaranna. Við bættist myndun hljóða með míkrafón og notkun raddarinnar í frásögn og söng. Hljóðmyndin var þannig mikilvægur þáttur í dansinum sjálfum. Í Eyju var tónlistin einn þáttur í heildarupplifun verksins, dansararnir dönsuðu við tónlistina. Í Áferð var hljóðmyndin hluti af kóreógrafíunni, dansararnir mynduðu hljóð rétt eins og þeir mynduðu hreyfingar. Hreyfingarnar í verkinu voru einnig hversdagslegar og minntu meira á leik barna en dans dansara þó að það færi ekki á milli mála að það voru velmenntaðir og þjálfaðir dansarar í báðum verkunum. Þannig hefur skrefið frá niðurnjörfuðum hreyfiforða ballettsins verið tekið enn lengra með því að skapa ekki aðeins nýja gerð af hreyfiforða heldur nota hreyfingarnar sem finnast í okkar daglega lífi. Sýning Nemendaleikhússins á útskriftarverkefnum samtímadansbrautarinnar, Eyja og Áferð, krafðist breiðrar þekkingar og færni af dönsurunum en þeir stóðust það próf með sóma. Sýningin krafðist ekki síður mikils af áhorfendum því ólíkar leiðir í sköpun kalla á ólíka nálgun áhorfenda og opinn hug fyrir nýjum töfrum listformsins. Mynd: LHÍ

x

Spássían

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Spássían
https://timarit.is/publication/1454

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.