Morgunblaðið - 17.01.2020, Blaðsíða 11
FRÉTTIR 11Innlent
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 17. JANÚAR 2020
Bláu húsin Faxafeni ◊ S. 588 4499 ◊ Opið mán.-fös. 11-18, lau. 11-16 ◊ www.mostc.is
ALLAR VÖRUR
50%
AFSLÁTTUR
Úlpa
kr. 4.495
Jakki
kr. 4.495
Gerið verðsamanburð
DÚNDUR ÚTSALA!
Helgi Bjarnason
helgi@mbl.is
Landhelgisgæslan hefur lengi haft
það á stefnuskrá sinni að hafa
ávallt tvö skip á sjó í stað eins, eins
og staðan er núna. Halldór B. Nel-
lett, skipherra á varðskipinu Þór,
segir að með því væri hægt að auka
mjög öryggi íbúa landsins. Gæslan
hefur hins vegar ekki fjárveitingar
til að ráða fleiri áhafnir eða leggja í
þann útgerðarkostnað sem fjölgun
úthaldsdaga hefði í för með sér.
Landhelgisgæslan hefur reynt að
haga áætlun varðskipa þannig að
skip sé vestan eða norðan við land-
ið þegar von er á óveðri eða hætta
er á ferðum. Þannig var varðskipið
Þór í Ísafjarðardjúpi þegar óveðrið
skall á Norðurlandi í desember og
á sama stað þegar stóru snjóflóðin
féllu á Flateyri og í Súgandafirði.
Kom það sér mjög vel í báðum til-
vikum. Í desemberóveðrinu var
skipinu siglt til Eyjafjarðar og var
meðal annars notað sem fljótandi
rafstöð fyrir Dalvík í marga daga. Í
snjóflóðunum nýttist það til að
flytja hjálparlið, búnað og vistir frá
Ísafirði til Flateyrar og sjúklinga
til Ísafjarðar, auk annarrar að-
stoðar. Halldór B. Nellett nefnir
einnig að þegar allir vegir eru
ófærir, eins og verið hefur á Vest-
fjörðum að undanförnu og ekki
hægt að fljúga, sé varðskip mik-
ilvægt tæki til sjúkraflutninga því
að yfirleitt sé fært á sjó.
Fjölga þarf áhöfnum
Halldór segir að í norðaustan
brælu sé seinlegt að senda varðskip
frá Reykjavík vestur á firði eða
norður í land, á móti veðri. Nefnir
hann siglingu Ægis til Flateyrar í
snjóflóðunum fyrir 25 árum. Betra
sé að sigla lens, eins og gert var í
snjóflóðunum nú. Hann tekur fram
að siglingin norður fyrir Vestfirði í
óveðrinu í desember hafi tekið á og
þar hafi Þór sannað gildi sitt, einu
sinn enn. Telur hann að erfitt hefði
verið að nota eitthvert af gömlu
varðskipunum í það verkefni.
Landhelgisgæslan gerir nú út
tvö varðskip, Þór sem kom til
landsins fyrir níu árum og Tý sem
er á fimmtugsaldri. Ein áhöfn er á
hvoru skipi. Gæslan miðar við að
alltaf sé eitt skip á sjó, að minnsta
kosti yfir vetrartímann, og á meðan
er áhöfn hins skipsins að taka sín
frí og undirbúa skipið fyrir næsta
túr.
Ásgrímur L. Ásgrímsson, fram-
kvæmdastjóri aðgerða, segir að það
hafi lengi verið á óskalista Land-
helgisgæslunnar að auka úthald
varðskipanna. Með því væri hægt
að staðsetja skipin betur með tilliti
til öryggis og stytta tímann sem
það tekur að koma þeim á vettvang.
Það væri, að sögn Ásgríms, hægt
að gera með því að fjölga áhöfnum,
annaðhvort með því að ráða eina
auka áhöfn sem færi á milli skipa
eða tvær áhafnir þannig að tvær
áhafnir væru á hvoru skipi. Þá væri
gott að fá þriðja skipið í rekstur,
helst öflugt varðskip í líkingu við
Þór. Unnið er að þarfagreiningu
fyrir varðskipaflota Gæslunnar.
Allt kostar þetta fjármuni sem
Landhelgisgæslan hefur ekki yfir
að ráða. Ásgrímur segir að það
hlaupi á hundruðum milljóna að
ráða fleiri áhafnir og kosta aukinn
siglingatíma varðskipanna.
Þörf á að auka
úthaldstíma
varðskipanna
Sannaði gildi sitt í hamfaraveðri
nyrðra og snjóflóðum
Morgunblaðið/Halldór Sveinbjörnsson
Til taks Varðskipið Þór var til taks í Ísafjarðarhöfn í janúaróveðrinu.
Ásgrímur L.
Ásgrímsson
Halldór B.
Nellett
Ómar Friðriksson
omfr@mbl.is
Atvinnuleysi í síðasta mánuði nýlið-
ins árs mældist 4,3% á landinu öllu
og jókst um 0,2 prósentustig frá
mánuðinum á undan. Að jafnaði
voru rúmlega átta þúsund manns á
atvinnuleysisskrá í desember og
hafði þá fjölgað um rúmlega 400 frá í
nóvember. Ekki hafa sést svo háar
atvinnuleysistölur frá því í mars árið
2014, þegar hér mældist 4,5% at-
vinnuleysi.
4,4-4,7% atvinnuleysi í janúar?
Fram kemur á nýju yfirliti Vinnu-
málastofnunar að í desember sl.
voru 4.606 karlar að jafnaði atvinnu-
lausir og 3.413 konur. Var atvinnu-
leysi 4,4% meðal karla og 4,2% með-
al kvenna. Nú er gert ráð fyrir að
atvinnuleysi í yfirstandandi mánuði
aukist og verði á bilinu 4,4%-4,7%.
Atvinnuleysið í desember var líkt
og á undanförnum mánuðum sér-
staklega mikið meðal erlendra ríkis-
borgara í desembermánuði.
„Alls var 3.461 erlendur ríkis-
borgari án atvinnu í lok desember
eða um 40% allra atvinnulausra.
Þessi fjöldi samsvarar um 9,9% at-
vinnuleysi meðal erlendra ríkisborg-
ara. Þetta er mikil aukning frá því í
desember 2018 þegar hlutfall at-
vinnulausra erlendra ríkisborgara
var um 35% allra atvinnulausra eða
sem svaraði til um 5,7% atvinnu-
leysi,“ segir í umfjöllun Vinnumála-
stofnunar.
Atvinnulausum fjölgaði í öllum at-
vinnugreinum í desember saman-
borið við sama mánuð fyrir ári. Bent
er á að mest fjölgaði atvinnulausum í
flutningastarfsemi í mannvirkjagerð
og í ýmissi sérfræðistarfsemi.
Langmest á Suðurnesjum en
minnst á Norðurlandi vestra
,,Minnsta fjölgun atvinnulausra
var í fræðslustarfsemi og sjávar-
útvegi og landbúnaði. Að því er
varðar fjölda atvinnulausra eftir
starfsstéttum þá fjölgaði atvinnu-
lausum mest meðal iðnaðarmanna
og meðal skrifstofufólks,“ segir í
skýrslunni.
Ef sjónum er beint að atvinnu-
ástandinu eftir landsvæðum kemur í
ljós að atvinnuleysi jókst alls staðar í
síðasta mánuði nema á Vestfjörðum
þar sem það minnkaði lítilsháttar.
Það var langmest á Suðurnesjum
eða 8,7% og jókst um 0,3 prósentu-
stig milli mánaða. ,,Næstmest var
atvinnuleysi á höfuðborgarsvæðinu
eða 4,4% og 3,9% á Norðurlandi
eystra. Minnst var atvinnuleysið á
Norðurlandi vestra eða 1,8%.“
Mesta atvinnuleysi
frá marsmánuði 2014
9,9% atvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgara í desember
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Atvinnumál Fleiri voru án vinnu í desember síðastliðnum en árið á undan.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Ís-
lands, heldur í opinbera heimsókn
til Ísraels dagana 22. og 23. janúar
í boði Reuven Rivlin, forseta Ísr-
aels. Þar mun hann ásamt 50 þjóð-
arleiðtogum, forystumönnum ríkis-
stjórna og þjóðþinga, sækja dag-
skrá í Jerúsalem til að minnast
helfararinnar gegn gyðingum í síð-
ari heimsstyrjöldinni.
Meðal ræðumanna verða Reuven
Rivlin, forseti Ísraels, Vladímír
Pútín, forseti Rússlands, Emmanu-
el Macron forseti Frakklands,
Frank-Walter Steinmeier, forseti
Þýskalands, Michael R. Pence,
varaforseti Bandaríkjanna, og Karl
Bretaprins.
Kvöldið áður mun Guðni ásamt
öðrum forystumönnum sitja
hátíðarkvöldverð forseta Ísraels.
Þá mun forseti Íslands eiga fundi
með landsstjóra Kanada og forseta
Finnlands meðan á dvöl hans í
Jerúsalem stendur.
Á leið sinni til Ísraels mun Guðni
sækja landsleik Íslands og Portú-
gals í handknattleik karla sem
fram fer í Malmö sunnudaginn 19.
janúar.
Forseti Íslands heimsækir Ísrael
Atvinna