Morgunblaðið - 17.01.2020, Blaðsíða 24
24 MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 17. JANÚAR 2020
✝ SigurbjörgÓlafsdóttir
fæddist 12. desem-
ber 1923 í Hlíð undir
Eyjafjöllum. Hún
lést eftir stutta dvöl
á hjúkrunarheimili
Hrafnistu Laugarási
8. janúar 2020.
Foreldrar Sigur-
bjargar voru Ólafur
Ólafsson, f. 8.8. 1873,
d. 8.4. 1956, bóndi í
Núpakoti og síðar í Eyvindar-
hólum í sömu sveit, síðast kaup-
maður í Vestmannaeyjum, og Jó-
hanna Sigurðardóttir, f. 9.9.
1880, d. 20.10. 1974, frá Hlíð A.
Eyjafjöllum. Fyrir átti Ólafur
þrjá syni, Kjartan, Harald Axel
og Jón Hörð. Þeir bræður eru all-
ir látnir. Jóhanna átti fyrir, með
Sigurbergi Einarssyni, Vilborgu
og Eyþór sem bæði eru látin.
Eftir að Ólafur hætti búskap
árið 1924 fór hann til Vest-
mannaeyja og gerðist kaup-
maður. Sigurbjörg flutti fimm
ára með móður sinni til Eyja til
Ólafs og ólst þar upp og undi sér
vel.
Sigurbjörg og Magnús hófu
verslunarrekstur árið 1956 á
Sólheimum, þar sem Ólafur faðir
hennar hafði rekið verslun, og
síðar á Bárugötu í Vestmanna-
eyjum. Verslunin hét Verslun
Sigurbjargar Ólafsdóttur en oft-
ast kölluð Verslun Siggu Sól.
Þau fóru ekki til Eyja eftir gos
en héldu áfram að versla í versl-
uninni Donnu og Hólakoti í
Reykjavík þar sem þau höfðu
sest að. Þegar þau hættu þeim
rekstri fóru þau að ferðast um
heiminn og Sigurbjörg hóf
enskunám. Sigurbjörg var list-
hneigð og stundaði listmálara-
nám árum saman hjá Myndlista-
skóla Vestmannaeyja og síðar
hjá Myndlistaklúbbi Hvassa-
leitis.
Útför Sigurbjargar fer fram
frá Bústaðakirkju í dag, 17. jan-
úar 2020, klukkan 11.
Árið 1950 giftist
Sigurbjörg Magn-
úsi Kristjánssyni,
f. 14.8. 1929, d. 1.1.
2017, frá Tindum í
Dalasýslu.
Foreldrar hans
voru Kristján Fr.
Bjarnason, f. 1905,
og Una Björns-
dóttir, f. 1899.
Börn Sigurbjargar
og Magnúsar eru:
1) Ólafur, f. 1952, kvæntur Katr-
ínu Indíönu Valentínusdóttur og
eiga þau fjögur börn og átta
barnabörn. 2) Elfur, f. 1966, gift
Sæmundi Jónssyni og eiga þau
tvo syni. Fyrir átti Sigurbjörg
dótturina 3) Þóru Eyland Elías-
dóttur, f. 1945, sem er gift Stef-
áni Guðbjartssyni. Þóra á fjögur
börn, tíu barnabörn og sjö
barnabarnabörn.
Ég kveð þig, elsku fallega
amma mín, og þakka þér fyrir
allar þær stundir sem þú hefur
gefið mér og mínum.
Þegar ég hugsa til þín birtir
yfir og dillandi og fallegi hlátur
þinn ómar.
Allar sögustundirnar um
ævintýrin í Vestmannaeyjum og
úr sveitinni eru svo eftirminni-
legir þættir úr æsku minni sem
ég held svo fast í.
Þú varst alltaf svo góð við þá
sem voru minni máttar og ég
veit að það eru margir sem taka
á móti þér þegar þú gengur inn
í Sumarlandið.
Minningin um þig mun lifa
áfram í hjörtum okkar.
Guð blessi þig og varðveiti,
elsku amma mín.
Drottinn er minn hirðir,
mig mun ekkert bresta.
Á grænum grundum
lætur hann mig hvílast,
leiðir mig að vötnum,
þar sem ég má næðis njóta.
Hann hressir sál mína,
leiðir mig um rétta vegu
fyrir sakir nafns síns.
Jafnvel þótt ég fari um dimman dal,
óttast ég ekkert illt,
því að þú ert hjá mér,
sproti þinn og stafur hugga mig.
Þú býr mér borð
frammi fyrir fjendum mínum,
þú smyr höfuð mitt með olíu,
bikar minn er barmafullur.
Já, gæfa og náð fylgja mér
alla ævidaga mína,
og í húsi Drottins bý ég langa ævi.
(23. Davíðssálmur)
Þín
Helen.
Það hefur líklega verið
þriðjudagur, því þann dag kom
rútan frá Reykjavík. Sólin sendi
geisla sína yfir Skarðsströndina
og hlý golan læddist um tún og
engi. Á Tindum var búið að þvo
og pússa allt húsið og setja
damaskrúmfötin á rúmið í
Magga herbergi. Við Unnur
röltum um húsið til að athuga
hvort allt væri í besta lagi því
Maggi var á leiðinni og ekki
einn eins og venjulega, kærast-
an var með. Enginn í fjölskyld-
unni hafði hitt hana, hún var
næstum því frá útlöndum; sem
sagt frá Vestmannaeyjum. Eftir
langa bið komu þau. Allir voru
úti á hlaði til að taka á móti
þeim, kærastan gekk hikandi í
áttina að þessum fólksfjölda,
heilsaði öllum með handabandi
og hneigði sig; beygði sig örlítið
í hnjánum, svo dömulega og svo
fallega. Ég ákvað á stundinni að
svona ætlaði ég að heilsa öllum
héðan í frá. Það sást strax að
kærastan var ákaflega feimin og
það var ekki auðvelt fyrir hana
að koma og hitta tilvonandi
tengdafólk. En það sáu líka allir
að hún var umvafin ósýnilegri
hlýju og velvilja sem fylgdi
henni alla ævi. Hún hélt á tösku
sem síðar kom í ljós að var
undrataska rétt eins og taskan
hennar Mary Poppins því upp
úr henni komu yndisgjafir til
okkar krakkanna, ekki bara
þennan sólríka dag heldur alla
dagana sem þau dvöldu á Tind-
um í þessari ferð.
Sigga var afar gjafmild
manneskja. Hún var alltaf með
aukagjafir, það þurfti ekkert til-
efni. Það eru ótaldir hlutirnir á
mínu heimili sem hún kom með.
Og þær eru ótaldar klukku-
stundirnar sem við töluðum
saman um allt milli himins og
jarðar. Ég dáðist að svo ótal
mörgu í persónuleika mágkonu
minnar. Hún þoldi illa að heyra
talað um það neikvæða í fari
fólks, hún trúði því að allir væru
góðir.
Hún talaði ekki um það sem
miður fór, hún geymdi sitt í
þögninni. Henni þótti gott að
vera ein stöku sinnum, hún sá
ýmislegt sem aðrir sáu ekki og
hún vissi líka margt sem öðrum
var hulið. En hún var fáorð um
slíka hluti. Og hún Sigurbjörg
mágkona mín – þessi einstak-
lega góða manneskja var öðru-
vísi en allir aðrir, það kom fram
í svo mörgu. Ég sakna hennar
afskaplega mikið, hún er búin
að vera hluti af lífi mínu síðan
ég var barn og hún var góður
vinur. Enginn kemur í hennar
stað. Ég harma að hún skyldi
þurfa að liggja sárkvalin á
sjúkrahúsi í nærri sex mánuði
áður en hún fékk far til Sumar-
landsins sem henni varð tíðrætt
um. Hún spurði mig stundum
hvort ég héldi að Sumarlandið
væri til. Ég taldi að á því lægi
enginn vafi og þuldi upp ým-
islegt því til sönnunar. Hún
brosti og sagði á sinn hógværa
hátt; jæja Anna litla, við sjáum
nú til. Og ég vona svo sann-
arlega að Sumarlandið hennar
Siggu sé þarna einhvers staðar.
Ég kveð hana að sinni og þakka
hjartanlega fyrir samveruna hér
á þessari jörð.
Elsku Þóra, Óli og allra besta
Elfur mín, tengdabörn, barna-
börn langömmu- og langalang-
ömmubörn; innilegar samúðar-
kveðjur.
Anna Fr. Kristjánsdóttir.
Í dag kveðjum við elskulega
tengdamóður mína. Mikið var
ég heppin að hafa fengið hana
sem slíka. Sigurbjörg Ólafsdótt-
ir, eða Sigga Sól eins og hún
var alltaf kölluð, var einstök
kona eða eins og ég hef alltaf
sagt engill í mannsmynd. Sigga
var sjálfstæð, ákveðin og lífs-
glöð. Það var alltaf stutt í brosið
hennar og dillandi hláturinn og
alltaf var hún tilbúin að hjálpa
öllum sem áttu erfitt. Sigur-
björg var ávallt lífsglöð, trúuð
og jákvæð. Hún skipti aldrei
skapi og var hvarvetna gleði-
gjafi í sólskinsskapi enda hafði
hún hlotið viðurnefnið Sigga sól
í Eyjum og kunni því ákaflega
vel. Allir sem kynntust henni
elskuðu hana. Góðar minningar
streyma fram þegar ég hugsa
til hennar. Ég man þegar ég
hitti hana fyrst, ég var ansi
kvíðin því ég var ein með tvö
börn að slá mér upp með einka-
syninum. En þvílíkar móttökur
og með kærleika og hlýju um-
vafði hún mig og gerði síðan
alla tíð.
Við fórum saman í málara-
tíma hjá Myndlistaklúbbi
Hvassaleitisskóla og lærðum
hjá mörgum frægum listamönn-
um. Sýning var alltaf haldin í
lok hvers starfsárs og var Sigga
ákaflega hrifin af verkum sínum
sem þó voru aldrei tilbúin eins
og hjá sönnum listamanni. Hún
elskaði að mála og það langt
fram eftir nóttu. Hún fylgdist
með öllu og öllum og mundi alla
afmælisdaga. Við fórum í marg-
ar ferðir í Gilitrutt en það hét
víbon ferðabíllinn okkar, kom
þá Magnús einnig með okkur.
Ófáar voru bústaðarferðir sem
við fórum í saman um allt land
og síðar er við eignuðumst okk-
ar eigin bústað í Skorradal.
Alltaf var mikið hlegið og það
var gaman. Sigurbjörg fór með
okkur á Þjóðhátíð í Vestmanna-
eyjum enda mikill Eyjamaður
og bjó þar frá 5 ára aldri þar til
gosið hófst. Fluttist hún þá til
Reykjavíkur. Hún kom líka með
okkur í nokkur ár á Systrakvöld
hjá Frímúrurum í Hafnarfirði,
og skemmti hún sér vel innan
um „svona gott fólk og allir svo
fínir í kjólfötum og síðum kjól-
um“ eins og hún orðaði það
sjálf. Hún var ekki bara amma
eða tengdó, hún var alla tíð
mikill vinur og ein af fjölskyld-
unni sem nú saknar hennar
sárt. Mikið erum við heppin að
eiga svo margar dýrmætar
minningar um Siggu Sól.
Nú þegar elskuleg tengda-
móðir mín hefur hvatt þetta
jarðlíf og farin í Sumarlandið,
til allra sem bíða hennar þar, er
mér efst í huga, með tár í aug-
um, söknuður og þakklæti fyrir
allar yndislegu stundirnar sem
hún gaf mér og fjölskyldu
minni. Hafðu þakkir fyrir allt
og allt, elsku Sigga mín. Guð
geymi þig og umvefji ljósi og
kærleika.
Blessað ljós ég bið þig nú að
brjóst hennar fyllir þú með
heitum kærleik og hreinni trú.
Katrín Indíana
Valentínusdóttir
Í dag kveð ég þig, elsku
besta amma mín.
Mikið var ég heppin að fá þig
sem ömmu alltaf svo dásamlega
skemmtilega, hlýja og góða. Þó
að það sé sárt að kveðja er
ómetanlegt að fá að eiga allar
þessar fallegu minningar.
Ég fékk þá góðu gjöf að fá að
eyða með þér miklum tíma. All-
ar minningarnar af Háleitis-
brautinni og orlofsnóttunum hjá
ykkur afa geymi ég sem gull.
Þú vaktir snemma hjá mér
ímyndunaraflið með sögunum
úr sveitinni þinni af álfum og
tröllum. Ég sé enn í huga mér
pabba þinn hoppandi á milli
fjalla með kindur undir hend-
inni.
Þú sagðir mér sögur úr Eyj-
um, frá Sólheimum, hvernig þú
lærðir að synda í sjónum og frá
búðinni ykkar afa. Þú last upp
fyrir mig texta bíómynda heilar
kvöldstundir. Þú bakaðir með
mér pönnukökur og kleinur. Þú
komst með mér í lautarferðir
og berjamó. Þú framreiddir
fimm rétta hádegismat fyrir
mig á sumrin. Þú sendir mér
vikulega bréf og myndir til
Ekvador. Þú passaðir upp á að
ég myndi ekki missa af neinu.
Þú hlóst með mér, varst alltaf
til staðar og hvattir mig til
dáða.
Elsku amma, þér var margt
til lista lagt og þegar ég tala
um þig við Óla Viðar, Halldóru
Sól og Kristján Dag þá segja
þau að amma Sigga var alltaf
svo kát, blíð og góð. Þú varst
Sólin okkar.
Allar þessar minningar og
miklu fleiri geymi ég í hjarta
mínu.
Ég kveð þig með þessu fal-
lega ljóði sem ég gaf þér á sín-
um tíma í afmælisgjöf og á svo
vel við þig. Ég veit að þér þótti
vænt um það:
Fyrir þig eru rósirnar rauðar,
fyrir þig senda geislarnir yl.
Fyrir þig geta svanirnir sungið
fyrir þig hafa skáld orðið til.
Fyrir þig geta perlurnar glitrað,
fyrir þig hafa strengirnir hljóð.
Fyrir þig hefur hjartað mitt titrað,
fyrir þig hef ég sungið mitt ljóð.
(Bjarni Jónsson frá Gröf)
Takk fyrir allt, elsku amma.
Þín
Sigurbjörg (Sigga).
Mig langar til að minnast
ömmu minnar með nokkrum
orðum.
Amma var glæsileg, góð og
glaðlynd kona sem gaman var
að vera í návistum við. Hún var
yfirveguð, hreinskilin og það
var alltaf stutt í hláturinn hjá
henni en þegar henni fannst
eitthvað fyndið þá lokaði hún
oftast augunum, klappaði sam-
an lófunum og hló dátt. Amma
leit aldrei á sig sem gamla konu
og spurði mig oft hvort mér
fyndist hún vera orðin gömul
en svarið mitt var alltaf nei því
amma var ung í anda og leit
alltaf út fyrir að vera mun
yngri en hún var. Þegar hún
var farin að heyra illa mátti
hún ekki heyra minnst á það að
fá heyrnatæki því henni fannst
hún aldrei vera komin á þann
aldur til að þurfa að nota slík
tæki.
Það var alltaf gaman að
koma í heimsókn til ömmu en
hún átti alltaf bakkelsi til að
bjóða með kaffinu og aldrei fór
ég svöng frá henni og oftar en
ekki fór ég frá henni með ávöxt
eða súkkulaði í veskinu því
henni fannst ómögulegt að
kveðja mann án þess að maður
hefði eitthvert nesti með sér.
Ekki má gleyma því að amma
bjó til heimsins bestu skonsur
og mikið vorum við fjölskyldan
heppin þegar stafli af skonsum
beið okkar þegar við komum
heim eftir utanlandsferðir.
Amma var afskaplega skemmti-
leg og gaman var að eiga við
hana samræður.
Hún var einstaklega góður
hlustandi en hún hafði líka frá
mörgu að segja og frásögn
hennar var alltaf skemmtileg og
áhugaverð.
Amma var mikil næturhrafn,
hún elskaði að sofa og hvíla sig
til hádegis en kvöldin voru
hennar tími og það var vel
hægt að hringja í hana seint á
kvöldin án þess að hafa áhyggj-
ur af því að vekja hana.
Amma vildi allt fyrir mann
gera, einu sinni hringdi ég í
hana til að fá uppskrift að kjöt-
súpu og ekki leið á löngu þar til
hún var mætt heim til að kenna
mér að búa til súpuna.
Þegar ég eignaðist tvíburana
mína og þær voru á vökudeild-
inni mætti amma til að styðja
mig og til að biðja fyrir þeim.
Þannig var hún amma, hún bað
fyrir öllum og vildi öllum svo
vel og hún mátti ekkert aumt
sjá, góðsemin og hjálpsemin
var aldrei langt undan.
Amma hafði listræna hæfi-
leika og hafði mikinn áhuga á
að mála og mikið var gaman
þegar hún fór í málaraklúbbinn
og bauð okkur svo á sýningar.
Hún var óhrædd við að læra
eitthvað nýtt og þegar hún var
á sjötugsaldri þá fór hún að
læra ensku en hún vildi læra
ensku þar sem hún og afi létu
verða af því að ferðast um
heiminn og mikið var það
ánægjulegt að sjá hversu vel
þau nutu þessara ára saman.
Amma var sterk og dugleg
kona sem kvartaði aldrei, hún
var léttlynd með jafnaðargeð
og æðrulaus. Þannig tókst hún
á við veikindi sín til hinstu
stundar.
Amma er komin í sumar-
landið og afi hefur örugglega
tekið vel á móti henni. Ég kveð
hana með söknuði, allar minn-
ingar sem ég á um hana mun
ég ætíð varðveita.
Ég kveð elsku ömmu mína
með orðunum sem hún sagði
svo oft þegar hún kvaddi mig,
takk fyrir allt og allt.
Sigurborg Íris
Vilhjálmsdóttir.
Elsku amma mín, Sigurbjörg
Ólafsdóttir. Það tekur á að
skrifa minningarorð um hana
ömmu mína, hún var mér sjálf-
um og öllum þeim sem deildu
með henni stundum og tíma
ómetanleg. Hún Sigga amma
mín var þeim einstaklega hæfi-
leika gædd að geta lífgað upp á
og betrumbætt allt umhverfið í
kringum sig eingöngu með
nærveru sinni. Hún gat þar að
auki tekið alla með sér upp á
allt annað stig með léttleika,
söng, brosi og ólýsanlegum og
bráðsmitandi hlátri sínum. Ég
þarf ekki annað en að hugsa
um hana ömmu mína til að
heyra þennan gleðilega og ein-
staka hlátur hennar og sjá
hana fyrir mér klappa saman
höndum og brosa.
Hversu dýrmætt er það!
Allir þeir sem eignuðust stund-
ir með ömmu minni elskuðu
hana, annað var bara einfald-
lega ekki hægt. Hún var svo
ótrúlega góð, hugulsöm og
hjartahlý kona. Að sækja
ömmu heim var alltaf gleðilegt,
gestrisnin var konungleg í
hvert einasta skipti og amma
þurfti alltaf fjölmargar ferðir
fram og til baka til að ferja allt
það sem henni þótti nægilega
gott til að bjóða gestum og
gangandi á annaðhvort eldhús-
eða stofuborðið.
Hún var alltaf til í að hlusta
á reynslusögur og ævintýri en
aftur á móti þótti henni einnig
gríðarlega gaman að segja sög-
ur og ævintýri.
Þær voru nú ófáar þjóðsög-
urnar sem hún amma mín sagði
mér um útlaga, vætti og huldu-
líf landsins.
Hún Sigga amma mín er og
mun alltaf vera ómetanlega
stór þáttur í lífi mínu. Ég er
með eindæmum heppinn að
hafa fengið að eignast allar
þessar yndislegu stundir og
minningar með þér, elsku
amman mín.
Ólafur (Óli litli/danski).
Sigurbjörg
Ólafsdóttir
Vinur okkar,
Sævar Pálsson, er
fallinn frá, aðeins
65 ára, alltof stutt
líf fyrir þann gleðipinna, sem
ætíð sá spaugilegu hliðarnar á
öllum málum.
Þröstur kynntist Sævari
1974, við upphaf náms við Leik-
listarskóla SÁL. Leiðir Ara og
Sævars lágu saman í landsprófi
í Gagnfræðaskóla Austurbæjar,
síðar Vörðuskóla, haustið 1969.
Sævar Pálsson
✝ Sævar Pálssonfæddist 10.
ágúst 1954. Hann
lést 19. nóvember
2019.
Útför Sævars fór
fram 3. desember
2019.
Sævar var að
hefja sitt annað ár
í SÁL en ákvað að
slást í hóp okkar á
fyrsta ári, því við
vorum miklu
„skemmtilegri“ en
þau hin og þar að
auki vorum við í
kvöldskóla sem
skipti máli fjár-
hagslega fyrir
hann.
Við strákarnir þrír brölluð-
um ýmislegt saman á ungdóms-
árum okkar. Á árunum 1975-82
fóru Sævar og Þröstur oft í
sauðfjárréttir vestur í Dali þar
sem Þröstur var í sveit frá
unga aldri. Ari flaut með í eitt
skipti. Það var segin saga; hann
hélt uppi fjörinu með sínum
einlæga húmor svo um var tal-
að í sveitinni í fleiri ár á eftir.
Það var í gegnum Sævar sem
við félagarnir kynntumst. En
hin seinni ár hafa samskiptin
verið stopul, einstaka símtal og
hin árlegu jólakort. Það var
einmitt viku fyrir síðastliðin jól
að Þröstur kom heim eftir
tveggja mánaða fjarveru og
fyrsta verkið var að skrifa jóla-
kortin og senda. Þann sama
dag var flett í gegnum Mogg-
astaflann, þar sem tilkynning-
arnar um andlát og jarðarför
Sævars birtust Þresti, þvílíkt
áfall.
Ari var einnig fjarverandi,
við vorum á ferðalagi hvor í
sinni heimsálfunni. Og við fé-
lagarnir sem vorum alltaf á
leiðinni að hafa samband og
hittast. Við höfðum ekki hug-
mynd um veikindi Sævars því
ekki lét hann gömlu vini sína
vita um breytta hagi sína. Það
var ekki hans stíll að láta vor-
kenna sér. Nei, bara grín og
meira grín, eins og kom fram í
minningargrein sem félagi hans
og samstarfsmaður, Gísli Ölvir,
ritar um hann og birtist hér í
blaðinu á útfarardegi Sævars,
þar sem rifjað er upp hvernig
Sævar gantaðist með hárleysi
sitt.
Sævar fékk mjög alvarlegt
hjartaáfall árið 2003 en náði
með þrautseigju að byggja aft-
ur upp ótrúlegt þrek.
Elsku Guðrún og fjölskylda,
við vinirnir sendum ykkur inni-
legustu samúðarkveðjur vegna
fráfalls Sævars. Hann lifir í
hjörtum okkar og skilur eftir
dásamlegar minningar um líf
sitt hér á jörð. Það verður aftur
gaman er við hittumst öll í
grösugum brekkum Sumar-
landsins.
Þröstur Guðbjartsson
og Ari Tryggvason.