Morgunblaðið - 06.02.2020, Blaðsíða 4
Helgi Bjarnason
helgi@mbl.is
„Þetta er fyrsta skrefið okkar. Við
þurftum að fá upplýsingar um stöð-
una eins og hún er til þess að geta
farið að vinna aðgerðaáætlanir um
að draga úr losun,“ segir Margrét
Gísladóttir, framkvæmdastjóri
Landssambands kúabænda. Kynnt
hefur verið skýrsla um kolefnisspor
íslenskrar nautgriparæktar sem
Efla verkfræðistofa vann fyrir sam-
tökin.
Losun vegna nautgriparæktar og
mjólkurframleiðslu hér á landi nam
275 þúsund tonnum CO2-ígilda á
árinu 2018, samkvæmt skýrslunni.
Þrír þættir hafa mest áhrif. Helm-
ingurinn er vegna losunar metans
úr meltingarvegi nautgripa. 13%
hennar eru vegna meðhöndlunar
búfjáráburgðar og 12% vegna
framleiðslu og flutnings tilbúins
fóðurs. Rekja má alls um 70% af
kolefnisspori greinarinnar til líf-
fræðilegra ferla í gripunum, þegar
notkun húsdýraáburðar er tekin
með í reikninginn.
Samsvarar kílói á lítra
Heildarlosun frá dæmigerðu búi
þar sem mjólkurframleiðsla er
stunduð er um 578 tonn CO2-ígilda
á ári. Samsvarar það 1 kg á hvern
lítra mjólkur og rúmlega 18 kg á
hvert kíló kjöts sem framleitt er á
búinu. Heildarlosun frá dæmigerðu
kjötframleiðslubúi nemur 187 tonn-
um af CO2-ígildum á ári sem svarar
til 23,4 kg á hvert kíló kjöts.
Margrét segir að niðurstöðurnar
séu í ágætu samræmi við nið-
urstöður erlendra rannsókna, frek-
ar þó í lægri kantinum.
Spurð hvað hægt sé að gera til
að draga úr losun segir Margrét:
„Við getum gert betur í heimaöflun
fóðurs og markvissari notkun lands
er viðfangsefni alls landbúnaðarins.
Mikilvægt er að eftir því sem nytin
eykst fækkar þeim gripum sem
þarf til að framleiða sama magn af
mjólk. Við það minnkar losun. Með
kynbótum er því hægt að minnka
kolefnissporið.
Gerð verður verkáætlun
Þá er spennandi rannsókn í
gangi hjá Matís þar sem skoðað er
hvort hægt er að nota þörunga sem
íblöndunarefni í fóður til að auka
nyt mjólkurkúa og draga úr met-
angasmyndun.“
Eitt af meginmarkmiðum gild-
andi samnings ríkis og bænda um
starfsskilyrði nautgriparæktarinnar
er að greinin verði kolefnisjöfnuð
fyrir árið 2040. Skipaður verður
starfshópur til að setja saman verk-
áætlun vegna þess. Hann á að skila
útfærslu tiltekinna atriða fyrir 1.
maí.
„Það er okkar næsta varða í
þessari vinnu. Ég geri fastlega ráð
fyrir að starfshópurinn muni hafa
skýrslu okkar um kolefnisfótspor
nautgriparæktarinnar til hliðsjónar
við sína vinnu,“ segir Margrét.
70% kolefnisfótspors
vegna líffræðilegra ferla
Kúabændur stefna að kolefnishlutleysi fyrir árið 2040
Morgunblaðið/Eggert
Kýr á beit Helmingur losunar gróðurhúsalofttegunda frá nautgriparækt er
metangas sem myndast í meltingarvegi kúnna. Hugsanlega má minnka það.
4 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 6. FEBRÚAR 2020
Ágúst Ingi Jónsson
aij@mbl.is
Siglingasvið rannsóknanefndar
samgönguslysa afgreiddi í vikunni
lokaskýrslur vegna slysa um borð í
þremur hvalaskoðunarbátum á
Skjálfanda síðasta sumar. Nefndin
ályktaði ekki í málunum, en vísaði
til þess að hún hefði rannsakað
fjölda sams konar slysa frá árinu
2011. Vísað er til ellefu skýrslna á
þessu tímabili „þar sem niðurstöður
benda allar til þess sama þ.e.a.s. að
of mikill siglingahraði miðað við að-
stæður hafi valdið slysunum“, eins
og segir í skýrslunni.
Umræddir RIB-bátar, Kjói,
Amma Sigga og Amma Sigga II eru
gerðir út frá Húsavík. Í öllum til-
vikum kom högg á bátana og einn
farþegi í hverjum bát slasaðist í
baki. Tvær ferðanna voru farnar í
maí í fyrra og sú þriðja í ágúst.
Í sérstakri ábendingu í loka-
skýrslum um þessi þrjú mál er rifj-
að upp að RNSA gerði eftirfarandi
tillögu í öryggisátt í ágúst 2017: „Í
ljósi tíðra slysa um borð í RIB bát-
um, sem notaðir eru í atvinnuskyni,
leggur nefndin til við samgöngu- og
sveitastjórnarráðuneyti að settar
verði reglur sem tryggi öryggi far-
þega. Í því sambandi verði m.a. at-
hugað hvort fjaðrandi sæti geti ver-
ið einn liður í því.“
„Þetta hefur ekki verið gert“
Síðan segir í sérstakri ábendingu
siglingasviðs RNSA að í bréfi frá
16. apríl 2018 hafi ráðuneytið ekki
talið fært að setja sérstakar reglur
varðandi sæti þar sem bátarnir
væru CE-merktir. Hinsvegar hafi
verið ákveðið að útfærðar yrðu kröf-
ur um að útgerðir RIB-báta fram-
kvæmdu áhættumöt á mismunandi
aðstæðum sem fæli í sér að við til-
teknar aðstæður væri siglt hægar.
„Þetta hefur ekki verið gert,“ segir í
sérstakri ábendingu siglingasviðs
RNSA.
Mörg hliðstæð
mál á RIB-bátum
Fjallað um slys í hvalaskoðunarbátum
Morgunblaðið/Sigurður Ægisson
Á Skjálfanda Slys um borð í hvalaskoðunarbátunum Ömmu Siggu, Ömmu
Siggu II og Kjóa hafa verið til meðferðar hjá siglingasviði RNSA.
Margrét Þóra Þórsdóttir
Akureyri
Fleiri íbúðir verða byggðar í Haga-
hverfi á Akureyri, nýjasta hverfi
bæjarins, en í fyrstu var gert ráð
fyrir. Í deiliskipulagi var sett ákveð-
ið lágmark, 540 íbúðir, en gert ráð
fyrir möguleika á að byggja meira
og sú hefur orðið raunin. Fleiri íbúð-
ir og væntanlega þá fleiri íbúar
verða því í hverfinu, en nú er gert
ráð fyrir að í allt verði byggðar að
lágmarki um 700 íbúðir í Haga-
hverfi.
Framkvæmdir við Hagahverfi
ganga samkvæmt áætlun. Hverfið
gengur suður af Naustahverfi og er
námunda við helstu útivistarperlur
Akureyrar, Kjarnaskóg og Nausta-
borgir. Gert er ráð fyrir að leikskóli
verði byggður í hverfinu en þar
verður ekki grunnskóli, þar verður
þjónustusvæði, skipulögð útivistar-
og leiksvæði í blandaðri byggð, ein-
býlis-, rað-, og fjölbýlishúsa.
Allar lóðir eru seldar nema ein-
býlishúsalóðir
Deiliskipulag Hagahverfis tók
gildi um mitt ár 2015 og segir Pétur
Ingi Haraldsson, sviðsstjóri Skipu-
lagssviðs Akureyrarbæjar, að fyrstu
lóðunum hafi verið úthlutað fljótlega
eftir það og framkvæmdir farið af
stað. Heilmikill kraftur hafi verið í
byggingaframkvæmdum í Haga-
hverfi undanfarin ár og segir hann
að nú í byrjun árs 2020 sé búið að
auglýsa allar lausar lóðir í hverfinu.
„Þær hafa allar gengið vel út nema
25 einbýlishúsalóðir sem eftir
standa,“ segir Pétur Ingi. „Við vit-
um í raun ekki alveg hvers vegna
eftirspurn eftir einbýlishúsalóðum
er svona lítið, en gerðum ráð fyrir að
þær myndu fara hægar út en fjöl-
býlis þar sem lítið er um að verktak-
ar sækist eftir einbýlishúsalóðum.“
Hann segir þá stöðu uppi nú að
líklegt sé að heildarfjöldi íbúða í
Hagahverfi verði í kringum 700 tals-
ins þegar hverfið verður fullbyggt.
Það þýði að fjöldi íbúa þar verði á
bilinu 1.600 til 1.800 manns.
Nýtt hverfi kynnt innan tíðar
Pétur Ingi segir að um þessar
mundir séu framkvæmdir hafnar við
um helming íbúða í hverfinu. „Við
erum svo langt komin með næsta
hverfi á Akureyri og gerum ráð fyrir
að það fari í kynningu á næstu mán-
uðum. Það hverfi kallast Holtahverfi
norður og er um að ræða íbúabyggð
austan Krossanesbrautar og að
hluta til vestan hennar líka,“ segir
hann. Að auki er unnið að gerð
rammaskipulags fyrir íbúðasvæði
vestan við Borgarbraut og norðan
Giljahverfis.
Íbúafjölgun á Akureyri var að
meðaltali um 1,2% á ári á árunum
eftir 2000 en frá 2010 lækkaði hlut-
fallið í 0,8%. Lítið var um íbúða-
byggingar á Akureyri á árunum eft-
ir hrun, frá 2009 til 2012 og skapaðir
þá töluverð þörf í bænum fyrir íbúð-
ir, en Pétur Ingi segir ómögulegt að
segja hvenær þeirri uppsöfnuðu
þörf ljúki og markaðurinn mettist.
Íbúðum fjölgað í Hagahverfi
Nú er gert ráð fyrir að allt að 700 íbúðir verði byggðar í nýjasta hverfinu á Akureyri og að þar muni
búa á bilinu 1.600 til 1.800 manns Ný íbúðahverfi austan Krossanesbrautar verða kynnt innan tíðar
Morgunblaðið/Margrét Þóra Þórsdóttir
Hagahverfi í byggingu Framkvæmdir við Hagahverfi ganga samkvæmt áætlun en þar verður þjónustusvæði, skipulögð útivistar- og leiksvæði í blandaðri byggð einbýlis-, rað-, og fjölbýlishúsa.