Sjómannadagsblaðið - 07.06.2020, Qupperneq 16
16 s j ó m a n n a d a g s b l a ð i ð j ú n í 2 0 2 0
Það er ekki hægt að segja að
hátíðarhöldin um jól og áramót
á Grænlandssundi, hvar áhöfnin
dvaldi við veiðar, hafi verið upp á
marga fiska. Á aðfangadagskvöld var
veðrið svo vont að kokkurinn gat ekki
eldað. Menn þurftu því að gera sér
að góðu fransbrauð með margaríni
og sultu. Á nýju ári var áfram sótt og
það var loks um miðjan febrúar sem
skipstjórinn tilkynnti áhöfninni að
stefnan yrði tekin á Nýfundnaland.
„Það kom fát á okkur því við töldum
að við hefðum bara verið ráðnir út
febrúar. Við komumst þó að því
að síðasti túr hefði tekið um tvö
ár þannig að þessu var hvergi nær
lokið,“ segir Magnús Viðar og hlær.
„Við Íslendingarnir um borð
tilkynntum honum þá að við vildum
fara á Íslandsmið eins og lofað hefði
verið við ráðninguna. Það kom ekki
til greina að hans mati og áfram
hélt siglingin. Til að mótmæla þessu
hjuggum við á færin beggja megin
þannig að það fór allt í sjóinn. Við
gerðum það svo aftur í næsta holli.
Þá var tilkynnt að Íslendingarnir
hefðu gert uppreisn um borð og
stefnan var sett á Godthåb [nú Nuuk],“
segir Magnús Viðar.
„Það lá við slagsmálum við Fær-
eyingana og við komuna í Godthåb
beið lögregla á bryggjunni tilbúin að
handtaka okkur uppreisnarseggina.
Í fyrri landlegum höfðum við komist
upp á kant við pólitíið og nokkrum
verið stungið inn. Nú voru þeir
komnir með liðsauka, Schäfer-hund
og haglabyssu. Á síðustu stundu kom
þó skeyti frá útgerðinni um að fara
með fjárans vandræðagemlingana
til Íslands. Skipið var þá komið inn
í höfnina og stefndi á bryggjuna þar
sem danska yfirvaldið beið en sneri
við um leið. Þegar við komum í land
í Reykjavík tók ég dótið mitt og fór
frá borði. Nokkrir Íslendinganna
voru svo fegnir að vera komnir heim
að þeir fóru frá borði án þess að
taka dótið sitt með. Hins vegar var
karlinn lúmskur og um leið og síðasti
maður fór frá borði sleppti hann og
sigldi í burtu. Þarna voru nokkrir
sem töpuðu öllu sínu. Útgerðin sendi
einhverja lágmarkstryggingu en við
heyrðum ekkert meira af þeim.“
Næstu misseri starfaði Magnús Við-
ar m.a. áfram á Sæborgu RE, Smára
SH og Blátindi GK 88. Eftir að hafa
loksins náð tökum á sjóveikinni var
þó komið að því að feta menntaveginn.
Bjuggu til nýtt viðhaldskerfi
Magnús Viðar hóf nám í Vélskóla
Íslands haustið 1970. Hann segir
að fyrra bragði að það hafi verið af
hagkvæmnisástæðum sem hann
valdi sér það nám, því þrátt fyrir að
hafa á þeim tíma ekki haft neinn
sérstakan áhuga á vélum leit hann
þannig á að með vélstjórapróf í
vasanum gæti hann haft val um það
hvort hann hygðist starfa á sjó eða
landi til framtíðar.
Magnús Viðar stundaði sjóinn á
sumrin á trollbátum og skipum Eim-
skips samhliða námi og í kjölfarið
sem háseti á Brúarfossi og síðar sem
3. og 2. vélstjóri. Árið 1977 voru hann
og aðrir áhafnarmeðlimir þó staðnir
að verki við að smygla inn áfengi og
tóbaki á Ísafirði. Þeir voru í kjölfarið
látnir hætta störfum.
„Brúarfoss sigldi á þessum tíma
strandsiglingar og það var nokkur
eftirspurn eftir áfengi og tóbaki
á landsbyggðinni. Það réttlætir
auðvitað ekki smyglið og þarna var
sú einfalda regla í gildi að ef maður
var gripinn við þessa iðju var maður
sendur í land. Ég fékk þó tækifæri
til að koma aftur til vinnu nokkrum
árum síðar og fyrir það tækifæri er ég
afskaplega þakklátur,“ segir Magnús
Viðar.
Í kjölfar þessa máls settist hann
aftur á skólabekk í verknámi og
lauk sveinsprófi í vélvirkjun frá
Landssmiðjunni árið 1980. Samhliða
því starfaði hann hjá Ríkisskipum,
á fraktskipunum Heklu og Esju. Að
loknu námi var hann ráðinn sem 2.
og 1. vélstjóri á togaranum Apríl HF
en sneri þó aftur til Ríkisskipa sem
yfirvélstjóri og starfaði á á Öskju og
Esju.
„Þeir Guðmundur Einarsson og
Hjörtur Emilsson stýrðu útgerðinni
þá. Þeir hugsuðu vel fram í tímann
og vildu leiða inn nýjungar til
að bæta reksturinn, gera hann
öruggari, ódýrari og skilvirkari. Í
byrjun árs 1986 og áfram næstu ár
þróuðum við í sameiningu, vélstjórar
og stjórnendur hjá Ríkisskipum,
viðhaldskerfi fyrir Esjuna og lögðum
áherslu á fyrirbyggjandi viðhald til
að tryggja betur rekstraröryggi skips
og vélbúnaðar. Vélstjórarnir fengu
frjálsar hendur til að byggja kerfið
upp þannig að það myndi virka vel
og vera þægilegt í notkun,“ segir
Magnús Viðar.
„Við vorum sendir á námskeið hjá
Sambandi málm- og skipasmiða. Þar
var leiðbeinandi Brynjar Haraldsson
véltæknifræðingur, nýkominn frá
Noregi, og kynnti fyrir okkur norskt
flokkunarkerfi, SFI, sem gat haldið
utan um og flokkað niður skip og
vélbúnað með sérstöku tölusettu
númerakerfi þar sem smiðjur, slippir
og útgerð gátu talað sama tungumál.
Við settum upp upp svokallað
spjaldskrárkerfi fyrir fyrirbyggjandi
viðhald byggt á þessum flokkunar-
númerum þannig að vélstjórar
skipasmíðastöðvar, viðgerðastöðvar
og áhöfn gátu skilið og vitað hvaða
hlut skipsins eða vélarpart var verið
að fjalla um. Allir aðilar töluðu
þá sama flokkunarmálið til að
forðast misskilning eða túlkun á
verkefninu sem gæti orsakað mistök
og afleiddar bilanir síðar meir. Menn
tóku vel í þetta kerfi og Fjarhönnun
hf., sem þá var stýrt af Guðlaugi
Jósefssyni, forritaði síðan tölvutækt
hugbúnaðarkerfi í kringum þetta,
Viðhaldsvakann. Þarna voru allar
viðgerðir og viðhald skráð vandlega
niður þannig að hægt væri að
fylgjast vel með ástandi tækja,
kostnaði og viðhaldssögu. Með
þessum upplýsingum var hægt að
lengja notkunartíma milli upptekta
og draga úr viðhaldskostnaði.“
Þegar Ríkisskip voru lögð niður
var viðhaldskerfið selt og þróað
áfram. Það heitir í dag Viðhaldsstjóri,
er í eigu Tero ehf. og er nokkuð
vinsælt og í mikilli notkun í íslenska
flotanum og hjá framleiðslufyrir-
tækjum.
Lét drauminn rætast
Um 62 ára sögu Ríkisskipa lauk
í febrúar 1992. Askja var þá
seld til Noregs og samið var við
Samskip um yfirtöku tveggja skipa
Ríkisskipa, Esju og Heklu. Magnús
Viðar starfaði áfram á Esju eftir að
Samskip tóku við rekstri skipsins
og breytti nafni þess í Kistufell.
Hann sigldi á Kistufelli í eitt ár þar
til hann var ráðinn 2. vélstjóri á
Hákoni ÞH, sem var í eigu Gjögurs
á Grenivík. Hann starfaði á Hákoni
til ársins 1997, þegar hann venti
kvæði sínu í kross, fór í land og
hóf að starfa sem sölumaður fyrir
skipamálningu hjá Slippfélaginu í
Reykjavík og síðar hjá Áburðarverk-
smiðju ríkisins.
„Mig langaði að breyta aðeins
til og verja meiri tíma með
fjölskyldunni,“ segir Magnús Viðar
spurður um það af hverju hann fór í
land á þessum tímapunkti.
„Þessi þrjú og hálft ár í landi voru
mjög gefandi á þeim tíma og það er
öllum hollt að breyta til öðru hvoru
ef menn eiga þess kost.“
Eins og með Ríkisskip var
Áburðarverksmiðjan seld og
hugur Magnúsar Viðars leitaði
aftur á sjóinn. Honum stóð til boða
að snúa aftur á Hákon en fyrir
tilviljun rakst hann á gamlan vin
og vinnufélaga sem þá starfaði í
skiparekstrinum hjá Samskipum.
Sá bað hann um að fara nokkra
túra á Arnarfellið.
„Úr varð að ég ílengdist á
Arnarfellinu, og síðar á Helgafell-
inu frá 2005, eða allt þar til ég lét af
störfum árið 2018,“ segir Magnús
Viðar.
Á sjómannadaginn 2008 var
Magnúsi Viðari veitt viðurkenn-
ingin Neistinn fyrir fyrirmyndar
yfirvélstjórastörf. Það var í sext-
ánda sinn sem sá gripur var veittur
af VM og Tryggingamiðstöðinni hf.
Vegna fjarveru á sjó gat hann ekki
tekið við gripnum en eiginkona
hans, Stella Hauksdóttir, bjargaði
málinu eins og svo oft áður og veitti
gripnum viðtöku. Saman eiga þau
Stella þrjú uppkomin börn. Það
er gaman að segja frá því að þau
hittust fyrst um borð í Bakkafossi
árið 1969 en leiðir þeirra lágu þó
ekki aftur saman fyrr en þremur
árum síðar.
Magnús Viðar lét gamlan draum
um landbúnaðarstörf rætast. Á jörð
sinni á Vestfjörðum stundar hann
kartöflu- og grænmetisrækt, lítils
háttar skógrækt og trilluútgerð fyrir
soðningu og harðfisk auk útivistar.
Árið 2008 tók Magnús Viðar
pungaprófið svokallaða, skip-
stjórnarréttindi á 30 rúmlesta báti,
og stundaði strandveiðar á eigin
báti, Mjallhvíti ÍS 73, í tvö sumur
frá Þingeyri. Það gekk á ýmsu með
útgerðina, en meðeigandi hans
var Eiríkur Eiríksson, bóndi á Felli.
Mikill sjógarpur til hálfrar aldar.
Í kjölfar hrunsins 2008 skorti þá
fjármagn til að halda áfram en
sóttu þó stíft til að ná skammtinum
og tíminn var tæpur. Í einni
brælunni, NA 13 m, fór Mjallhvít
einn báta út úr firðinum til að ná
skammtinum, 850 kg úti af Nesdal.
Síðar var haft var eftir þekktum
listmálara sem þá var staddur á
kaffihúsi á Þingeyri og kallaði ekki
allt ömmu sína að götustrákur úr
Reykjavík væri orðinn aflahæstur á
Þingeyri og um leið var spurt hvað
orðið hefði af vestfirsku sjógörpun-
um. Eðli málsins samkvæmt voru
heimamenn ekki glaðir með þessa
yfirlýsingu.
„Þetta eru reyndar afburða
sjómenn og klárir. Þetta var þó
ágætt innlegg fyrir mig í byrjun
strandveiðanna. Allt er þetta búið
að vera góður tími en það er aldrei
of seint að láta drauma sína rætast,“
segir Magnús Viðar að lokum. - gfv
árið 2008 tók magnús Viðar pungaprófið svokallaða, skipstjórnarréttindi á 30 rúmlesta báti, og stundaði strandveiðar á eigin báti, mjallhvíti íS 73, í tvö sumur frá Þingeyri.
Mynd/Hreinn Magnússon
allt er þetta búið að vera
góður tími en það er aldrei
of seint að láta drauma
sína rætast.