Skessuhorn - 15.01.2020, Qupperneq 17
MIÐVIKUDAGUR 15. JAnúAR 2020 17
„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á
mat og eldmamennsku en ég var
aldrei að pæla í að læra kokkinn,“
segir tvítugi Skagamaðurinn Anton
Elí Ingason en um þessar mundir
er hann að undirbúa sig fyrir Ól-
ympíukeppni í matreiðslu sem
fram fer á Indlandi í lok þessa mán-
aðar. Anton er fæddur og uppalinn
á Akranesi og hefur hvergi annars
staðar búið. Hann gekk í Brekku-
bæjarskóla og fór svo í kokkanám í
lok ársins 2015 á veitingastaðnum
Galito á Akranesi. „Það var vinur
minn, Ari Jónsson, sem sagði mér
að skoða kokkanámið því það væri
algjör snilld. Hann sagði mér frá
skipulagi námsins og mér fannst
það bara hljóma vel, en maður er
bara að vinna á veitingastað í tvö og
hálft ár, á launum, og lærir helling.
Svo eru þetta þrjár annir í skóla,“
segir Anton.
Snyrtimennska skiptir
miklu máli
Á Gatlito segist Anton hafa fengið
mjög góðan grunn fyrir áframhald-
andi nám. „Ég myndi segja að Ga-
lito væri alveg frábær veitingastað-
ur til að byrja á, maður fær varla
betri grunn. Þar er sushi, veislu-
þjónusta, hádegismatur með rétti
dagsins, hefðbundinn matseðill og
í raun bara allt. Ég er mjög sáttur
við að hafa byrjað þar en ég vildi
svo fara meira út í fínni matargerð,
sem ég hef meiri áhuga á,“ segir
Anton sem fór næst að starfa á veit-
ingastaðnum nostra í Reykjavík og
nú vinnur hann hjá nomy veislu-
þjónustu. Anton leggur af stað til
Indlands 27. janúar næstkomandi.
Í fyrstu umferð keppninnar þarf
hann að úrbeina kjúkling og gera úr
honum fjóra skammta af kjúklinga-
rétti. „Ég hef frjálsar hendur með
hvað ég geri en mér er skammtað
hráefni. Þegar ég ákveð hvað ég
ætla að elda horfi ég fyrst í hverj-
ir eru að dæma því ég vil að mat-
urinn höfði til þeirra,“ segir Anton
og bætir því við að maturinn sjálf-
ur sé þó ekki það eina sem skipti
máli. „Langflest stigin eru gefin
fyrir snyrtimennsku í eldhúsinu.
Ef ég get verið ótrúlega snyrtileg-
ur og unnið í raun bara eins og vél-
menni og geri góðan mat ætti mér
að ganga mjög vel,“ segir hann.
„Ég hef tekið þátt í Bocuse d´Or
keppni, sem er stærsta matreiðslu-
keppni í heimi, þar sem ég var að
aðstoða Bjarna Siguróla Jakobs-
son matreiðslumeistara sem var að
keppa. Þar var mikið lagt upp úr að
vera snyrtilegur í eldhúsinu svo ég
ætti alveg að kunna það og fá góð
stig þar.“
Opnar matarvagn
Aðspurður segist Anton sjálfur
vera hrifnastur af því að elda villi-
bráð og matreiða úr því sem finnst
í nærumhverfinu. „Það er svo gam-
an að tína kannski kóngasveppi í
Skorradal og elda eitthvað úr þeim
og villibráð eða eitthvað svona nor-
dic. Ég elska líka að elda fisk. Fólk
gerir sér ekki grein fyrir því hversu
lítinn eldunartíma fiskur þarf en
hann þarf kannski bara sjö mínút-
ur í ofni á meðan flestar uppskrift-
ir segja 20 mínútur. Það er lúmskt
að geta eldað fisk alveg rétt,“ segir
Anton. En hvað ætlar hann að gera
þegar hann kemur heim frá Ind-
landi? „Ég er að fara að opna mat-
arvagn með Ara vini mínum. Við
ætlum að vera með svona djúsí og
góðan street food,“ svarar Anton
og brosir. „Við fundum vagn á fínu
verði með rekstrarleyfi og pláss og
aðstöðu í Kolaportinu. Við ætlum
því að vera með vagninn þar þegar
það er lítið að gera en svo er ætl-
unin að fara með vagninn á útihá-
tíðar,“ segir Anton og bætir því við
að þeir ætli að bjóða upp á einfalda
kóngasveppasúpu, vöfflu með rifnu
kjúklingakjöti og góðri kjúklinga-
sósu og eitthvað fleira einfalt og
gott. Auk kokkastarfana er Anton í
hljómsveitinni E.c sem er að gefa
út nýtt lag næsta föstudag, lagið
Free, sem Anton segir að lofi mjög
góðu.
arg
Rakel Dögg Sigurgeirsdóttir er
fædd og uppalin í Borgarnesi og
flutti aftur í heimahagana síðastlið-
ið haust. Rakel Dögg er við það að
opna nýtt heilsueflingarsetur und-
ir nafninu Stoð & Styrkur á B59.
Hún er dóttir Sigurgeirs Erlends-
sonar og Önnubellu Albertsdóttur
sem reka Geirabakarí í Borgarnesi,
en þar hitti blaðamaður Skessu-
horns einmitt Rakel að máli og
ræddi við hana um nýja heilsusetr-
ið. Rakel lauk sjúkraþjálfaranámi í
Danmörku árið 2007 og hefur síð-
an þá bætt við sig ýmissi sérþekk-
ingu, þar á meðal í kvenheilsu,
meðgöngu, nálastungum, bak- og
verkjameðferðum, íþróttasjúkra-
þjálfun og stoðkerfis-, hreyfi- og
göngugreiningu. Hún hefur lokið
jógakennaranámi, er flotþerapisti
og nuddari og er með sérþekkingu
í ráðgjöf við val á spelkum, hjálpar-
tækjum og stuðningsvörum.
Starfar utan Sjúkra
trygginga Íslands
Rakel Dögg bjó í tólf ár í Hafnar-
firði og vann í tæp átta ár hjá Ás-
megin sjúkraþjálfun áður en hún
fór að vinna hjá Eirberg í um tvö ár.
Hún hefur unnið sem sjúkraþjálfari
á einkastofu, sjúkrahúsi og hjúkr-
unarheimili og hefur þannig öðl-
ast víðtæka reynslu í faginu. Rak-
el ákvað nú að opna eigin stofu og
starfa utan Sjúkratrygginga Íslands.
„Mig langar að starfa meira fyrir-
byggjandi og leggja meiri ábyrgð
á þá sem leita til mín, veita stuðn-
ing og aðhald að breyttum lífsstíl
til framtíðarheilsu. Sjúkraþjálfur-
um eru settar ákveðnar skorður af
Sjúkratryggingum Íslands og það
er mín tilfinning að þær skorð-
ur hafi of mikil áhrif á gæði þjón-
ustunnar. núna kemur fólk beint
til mín og ég verð að veita góða
og skilvirka þjónustu,“ segir Rak-
el Dögg.
Fyrirbyggjandi meðferð
Rakel segir mikinn hraða í starfi
sjúkraþjálfara í dag. „Við erum í
raun alltaf bara að slökkva elda
en ættum að vera að vinna mikið
meira fyrirbyggjandi. Kerfið í dag
veitir bara ekki svigrúm til þess,
bæði vegna þess hversu stuttan
tíma við fáum með hverjum ein-
staklingi og vegna þess að fólk er
að koma of seint til okkar,“ segir
Rakel en almennt þarf fólk fyrst að
leita til heimilislæknis og fá beiðni
til sjúkraþjálfara og þá getur tek-
ið við löng bið. „Ég hugsa þetta
þannig, að fólk kemur til mín og
fær klukkustund í viðtal, líkams- og
hreyfigreiningu og helstu heilsu-
farsmælingar ef á við. Síðan setj-
um við saman upp ákveðið hrey-
fiplan sem fólk verður svo sjálft að
taka ábyrgð á. Ég vil helst ekki að
fólk komi oft til mín heldur ætla ég
að gefa því verkfærin til að hjálpa
sér sjálft, svo er hægt að koma í eft-
irfylgni eftir einhvern tíma,“ segir
Rakel.
Áður en líkaminn æpir
Aðspurð segist Rakel binda von-
ir við að hún fái fólk til sín fyrr,
áður en vandamálin verða of stór.
„Ég vil hugsa þetta heildrænt, bak-
verkur er ekki bara bakverkur, ég
vil hjálpa fólki að finna út hvað
veldur þessum bakverki og hvern-
ig megi koma í veg fyrir hann. Ég
myndi vilja að fólk komi til mín um
leið og einkenni koma fram, áður
en líkaminn er farinn að æpa. Lík-
aminn gefur okkur skilaboð við
öllu en því miður erum við oft að
hundsa þessi skilaboð og heyrum
þau ekki fyrr en komið er í óefni,“
segir hún.
Stoð & Styrkur verður staðsett
í heilsulind Lóu Spa á neðri hæð
Hótel B59 í Borgarnesi þar sem
Rakel Dögg er með góða aðstöðu
og aðgang að fullbúnum tækja-
sal. Hún er þar til halds og trausts
fyrir korthafa líkamsræktar Lóu
Spa á mánudögum og fimmtudög-
um frá kl. 12-13 og korthafar geta
bókað tíma hjá Rakel Dögg til að
fá aðstoð við að útbúa æfingaplan
í tækjasal. Til að hafa samband við
Rakel Dögg er hægt að finna hana
á Facebook undir nafninu Stoð og
Styrkur, senda tölvupóst á stodog-
styrkur@gmail.com eða hringja í
síma 698-0076.
Ráðleggingar á
vinnustaði
Rakel mun einnig bjóða upp á
fræðslu og ráðgjöf við líkamsbeit-
ingu á vinnustöðum. „Ég myndi
þá koma á vinnustaðinn, taka út
vinnuaðstöðuna og veita fólki ráð-
leggingar um líkamsbeitingu,“ seg-
ir Rakel og bætir því við að þetta
gæti skipt sköpum fyrir fólk. „Þetta
er eitthvað sem er mjög auðvelt
fyrir mig að sjá þegar ég kem inn á
vinnustaði en fólk áttar sig kannski
ekki á því sjálft. Margir eru bara
fastir í ákveðinni rútínu sem er
kannski bara alls ekki góð fyrir lík-
amann,“ segir Rakel.
arg
Sjúkraþjálfari opnar heilsueflingarsetur í Borgarnesi
Rakel Dögg opnar heilsueflingarsetur í Borgarnesi.
Ljósm. Gunnhildur Lind Photography.
Skagamaðurinn Anton Elí Ingason er nú á leið á Ólympíukeppni í matreiðslu.
Heldur út til Indlands að keppa í matreiðslu