Morgunblaðið - 20.06.2020, Qupperneq 18
18 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 20. JÚNÍ 2020
SVIÐSLJÓS
Guðmundur Magnússon
gudmundur@mbl.is
Rakel Olsen, framkvæmdastjóri í
Stykkishólmi, og Hrefna Róberts-
dóttir þjóðskjalavörður undirrituðu
á fimmtudaginn samning um af-
hendingu og varðveislu á skjalasafni
Sigurðar Ágústssonar, alþingis-
manns og kaupmanns í Stykkishólmi
(1897-1976), hjá Þjóðskjalasafni Ís-
lands. Skjalasafnið er viðamikið, um
11 hillumetrar að stærð. Í samn-
ingnum segir að aðgang að skjöl-
unum hafi allur almenningur, fræði-
menn og aðrir aðilar sem eftir því
óska.
Skjalaskráin hefur verið gerð öll-
um aðgengileg á vef Þjóðskjalasafns.
Stólpi í sinni byggð
„Það er á vissan hátt tregablandið
fyrir mig að standa hér í dag og af-
henda íslensku þjóðinni skjalasafn
tengdaföður míns og um leið opna
öllum aðgang að lífsstarfi hans,“
sagði Rakel í ávarpi við undirrit-
unina. Rakel sagði að það hefði
löngum verið í senn styrkur og nauð-
syn fámennum byggðum eins og
Stykkishólmi að eiga fólk sem hefur
óbilandi trú á byggðinni sinni og
framtíð hennar og heldur tryggð við
hana alla tíð. „Ekki síst skiptir það
máli þegar í hlut eiga, á hverjum
tíma, athafnamenn og drifkraftar
því engan veginn er sjálfgefið að
menn staðsetji atvinnustarfsemi og
umsvif í fámennum byggðum sem sí-
fellt eiga undir högg að sækja,“
sagði hún.
Rakel sagði að Stykkishólmur
hefði verið heimavöllur Sigurðar
Ágústssonar. Enginn skyldi samt
halda að hann hafi aðeins hugsað og
unnið fyrir Stykkishólm, skjalasafn-
ið sýni ótrúlega baráttu hans fyrir
framförum um allt Snæfellsnes,
Breiðafjarðareyjar og inn í Dali.
„Hann var tengiliður manna og
fyrirtækja við stjórnvöldin fyrir
sunnan en allt var á þessum tíma háð
sérstökum leyfum. Það var ekki
sjálfgefið að vegarspotti væri lagður
heim á sveitabæi, rafmagn eða sími,
allt var þetta háð leyfum. Ef þú vild-
ir kaupa þér bíl, bát, vinnuvél eða
annað til að létta þér stritið þurfti að
ganga eftir leyfisbréfi,“ segir Rakel.
Sigurður hafi valist til fjölda trún-
aðarstarfa fyrir heimabyggð sína og
héraðið allt. Hann hafi verið í fyr-
irsvari fyrir framfarir og atvinnu-
uppbyggingu á Vesturlandi öllu.
Rakel sagði að Sigurður hefði alla
tíð verið reglumaður og passað vel
upp á bréf, skjöl og annað sem til-
heyrði honum sjálfum, rekstri hans
og samskiptum við þá sem til hans
leituðu. Hún nefndi að skjalasafnið
geymdi m.a. prófverkefni hans þeg-
ar hann stundaði verslunarnám í
Kaupmannahöfn 1916 til 1917, það
geymdi líka kladda yfir tekjur og
gjöld og dagbók um hvað hann var
að gera meðan hann dvaldi í borg-
inni. Einnig er þar að finna bréf frá
vinum og ættingjum frá sama tíma.
Sigurður hafði mjög fallega rithönd
sem er auðlesin.
Upphafið 1933
Stofnun Verslunar Sigurðar
Ágústssonar má rekja til febrúar
1933, þegar hann kaupir eignir
danska verslunarfyrirtækisins Tang
& Riis á uppboði í Stykkishólmi. Um
var að ræða síðustu leifar selstöðu-
verslunar Dana á Íslandi. Verslunar-
svæðið var víðfeðmt, bændaverslun
mikil og samhliða rekið sláturhús og
verkaður þurr- og saltfiskur sem
fluttur var út ásamt kjöti, gærum,
skinnum og æðardúni. Útibú og slát-
urhús voru starfrækt í Dölum og
víða um Snæfellsnes. Verslunin var
seld í árslok 1966.
Sigurður hafði um sína daga mörg
járn í eldinum, starfrækti
m.a. í áratugi stærsta refabú
landsins, rak netagerð,
brauðgerðarhús og bif-
reiðastöð í samvinnu við
aðra. Mikil umsvif voru í
saltfiskvinnslu á ár-
unum 1970 til 1990.
Hraðfrystihús reisti Sig-
urður 1941 og var unninn
þar bolfiskur í hálfa öld,
samhliða var síldar-
söltun, salt- og
skreiðarverkun.
Fiskimjölsverksmiðja var reist 1948,
en þar var Sigurður stærsti eigandi.
Ágúst, sonur Sigurðar, kom að
fyrirtækinu 1958, en árið 1969 voru
að hans frumkvæði hafnar veiðar og
vinnsla hörpudisks við Breiðafjörð,
brautryðjandastarf sem hefur skap-
að mikil verðmæti víða og var í rúma
þrjá áratugi burðarásinn í rekstri
fyrirtækisins. Vegna sýkingar
hrundi hörpudisksstofninn árið 2003
og hafa veiðar og vinnsla legið niðri
síðan. Árið 1986 var kavíarvinnslan
Björg stofnuð í Stykkishólmi með
þátttöku fyrirtækisins sem eignaðist
hana að fullu 1998. Fullkomin
rækjuvinnsla var síðan tekin í notk-
un 1993 og samhliða henni var reist
pökkunarverksmiðja með áherslu á
neytendapakkningar. Það sama ár
lést Ágúst og tók Rakel, ekkja hans,
við rekstrinum ásamt börnum
þeirra. Það er nú rekið undir nafninu
Agustson ehf.
Mörg spor til heilla
„Sigurður Ágústsson markaði
mörg sporin til heilla fyrir Stykk-
ishólm, Snæfellinga og nágrenni,“
sagði Rakel við athöfnina í Þjóð-
skjalasafninu. „Hann var mjög
vinnusamur og þótti vera fyrir-
greiðslupólitíkus og var hann stoltur
af því. Við skulum líka hafa í huga að
á starfsævi Sigurðar var enginn
tölvupóstur, áratugir í GSM-síma og
hringt var lengst af í gegnum mið-
stöð. Ég bjó í sambýli við tengdafor-
eldra mína í 11 ár meðan Sigurður
var enn lifandi, Við bjuggum þá í
Clausenhúsinu, sem byggt var 1874.
Í þessu gamla húsi var mjög hljóð-
bært á milli hæða. Minnist ég þess
að ósjaldan sofnuðum við út frá
hljóðinu í gömlu Remington-
ritvélinni á efri hæðinni þar sem
tengdafaðir minn var enn að slá á
lyklaborðið með tveimur fingrum, að
svara eða sinna áríðandi erindum
fyrir umbjóðendur sína.“
Skjöl athafnamanns afhent
Viðamikið skjalasafn Sigurðar Ágústssonar, kaupmanns í Stykkishólmi, varðveitt í Þjóðskjalasafni
Safnið er 11 hillumetrar að umfangi Skrá yfir skjölin er öllum aðgengileg á vef safnsins
Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Tengsl Rakel Olsen, athafnakona í Stykkishólmi, er tengdadóttir Sigurðar Ágústssonar sem um langt árabil var burðarásinn í atvinnulífi kaupstaðarins.
Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Afhending Samningur um afhendingu skjalasafns Sigurðar Ágústssonar
handsalaður. Hrefna Róbertsdóttir þjóðskjalavörður t.v. og Rakel Olsen.
Sigurður Ágústsson fæddist í
Stykkishólmi 1897, sonur Ás-
gerðar Arnfinnsdóttur og
Ágústs Þórarinssonar sem
lengst af var verslunarstjóri við
danska verslun í bænum. Árið
1923 kvæntist Sigurður Ingi-
björgu Helgadóttur, einkasonur
þeirra var Ágúst, fæddur 1934,
látinn 1993. Sigurður lauk versl-
unarprófi Danmörku 1917. Hann
var síðan fulltrúi við verslun
Tang & Riis í Stykkishólmi til
1931, en keypti verslunina
1932 og rak hana til 1966
ásamt útgerð, reisti hrað-
frystihús í Stykkishólmi
1941 og rak það síðan.
Hann var þingmaður
Snæfellinga og síðar
Vesturlands samfellt í 19
ár, frá 1949 til 1967.
Öflugur at-
hafnamaður
SIGURÐUR ÁGÚSTSSON
Sigurður
Ágústsson
Höfuðstöðvar Agustson ehf. í Stykkishólmi er til húsa í hinu gamla pakk-
húsi Tang & Riis sem reist var 1890 en hefur síðan verið endurbyggt.
Ljósmynd/Sigurður Ágústsson.
Stykkishólmur Myndina tók Sigurður Ágústsson um 1930, en þá voru að-
eins örfá hús í kaupstaðnum. Mikið safn ljósmynda hans hefur varðveist.