Morgunblaðið - 27.06.2020, Side 42

Morgunblaðið - 27.06.2020, Side 42
VIÐTAL Magnús Guðmundsson magnusg@mbl.is „Það eru þrjú fín kaffihús í nágrenni við þar sem ég bý, þar sem áður var ekki neitt. Þannig að maður svo sem þakkað túristunum fyrir ýmislegt,“ segir ljóðskáldið Linda Vilhjálms- dóttir brosandi. Linda er ljóðaunn- endum að góðu kunn á liðnum árum en núna um helgina kom út hennar nýjasta bók Kyrralífsmyndir, en rétt eins og í fyrri ljóðabókum hennar er hún á persónulegum nótum. Hins vegar er því ekki að neita að umfjöll- unarefnið er einstaklega almennt og okkur öllum kunnuglegt að þessu sinni. „Ég er fyrir löngu búin að játa að allt sem ég skrifa er persónulegt. Auðvitað er maður í mismunandi stellingum en þessi er um kyrralífið í kófinu. Þar var maður meira og minna inni og því ekki af neinu öðru að taka en manni sjálfum og um- hverfinu sem hefur líka dregist sam- an í mjög lítið rými. Heimurinn minnkaði alveg rosalega á þessum tíma.“ Allsherjarhamfarir Áður en kófið kom til sögunnar var Linda í margmenninu á Indlandi og að koma heim í veröld sem var að breytast hlýtur því að hafa verið all- sérstök reynsla. „Já, þetta var óneit- anlega skrýtið. Ég kom heim um ára- mótin eftir tveggja mánaða dvöl á Indlandi og sá alveg rosalega eftir því að hafa komið heim því ég hefði alveg getað verið í einn mánuð í viðbót. Ég var ósköp drusluleg þegar heim var komið eftir sólarhringslangt ferðalag sem við tókum í einni bunu og mætt- um beint í áramótapartý hjá systur minni. Það næsta sem gerðist var að það skall á óveður, óveður, óveður og svo snjóflóð þannig að mér fannst ég vera að koma heim í einhverjar allsherjar hamfarir. Að þessu viðbættu fékk ég flensu sem ég hafði grunaða um að vera kórónuveiru því hún byrjaði sama dag og veiran fór að berast hingað í kringum 20. febrúar og svo átti ég í því í heilan mánuð. Alveg þangað til að ég fer að skrifa fyrstu ljóðin en þá er ég svona rétt að rísa upp úr flensunni.“ Ljóðræn dagbók Kyrralífsmyndum skiptir Linda upp eftir nokkrum mislöngum tíma- bilum en það fyrsta hefst 24. mars en því síðasta lýkur 26. maí. Linda segir að í bókinni sé öllum ljóðunum raðað eftir rauntíma. „Fyrsta ljóðið kom fyrst og síðasta ljóðið síðast. Stund- um komu tvö á dag og heima er ég með þetta allt nákvæmlega dagsett. Ég fékk meira að segja hringingu frá prófarkalesara vegna þess að stund- um líða dagar á milli kafla og viðkom- andi óttaðist að það vantaði kannski inn í þetta. Eftir því sem á líður verða tímabil- in lengri og ljóðin strjálli vegna þess að mér lá miklu meira á hjarta þegar ástandið var að grípa mig fyrstu dag- ana. En svo slakar maður á inn í þetta því allt venst á einhvern hátt og þá liggur manni ekki eins mikið á hjarta þegar frá líður.“ Linda tekur undir að það megi því vel skilgreina Kyrralífsmyndir sem ljóðræna dagbók fyrir þetta tímabil. „Já, það má segja það þar sem bókin fylgir í raun algjörlega upplifun minni af þessu ástandi. Ég var enn að jafna mig eftir þessa flensu og gerði eig- inlega ekkert annað en að fara út að ganga. Í þeim göngutúrum fór ég að taka ljósmyndir sem ég nýti í bókinni vegna þess að mér fannst það gefa þessum göngutúrum tilgang.“ Fuglar og fólk Myndirnar og ljóðin eiga það sam- merkt að þar koma fuglar talsvert við sögu og Linda segir að seinni árin hafi hún verið talsvert heilluð af fugl- um. „Þetta byrjaði eiginlega þegar ég var að ganga með pabba eftir að hann fékk Alzheimer. Síðustu fimm árin sem hann lifði fórum við alltaf í göngutúr tvisvar í viku. Hann var á Hrafnistu þannig að við gengum mik- ið í Laugardalnum og svo fórum við út á Gróttu, því ég er alin upp úti á Nesi og pabbi átti líka sitt æsku- heimili þar. Og umræðuefnið hjá okkur var alltaf fuglarnir.“ Í Kyrralífsmyndum vinnur Linda mikið með andstæður; líf og dauða, einveru og fjölmenni, Ísland og Ind- land og þannig mætti áfram telja. Við lestur ljóðanna sækir það svo að manni að fuglarnir séu settir fram sem andstæða okkar mannfólksins. „Já, ég fann sterkt fyrir þessu í kóf- inu þegar ég var að mynda fugla á flugi. Fannst að þar lægi frelsið á meðan við hefðum óvenjulega lítið at- hafnarými. En svo er það líka hrafn- inn sem manni finnst alltaf vera ein- hvers konar váboði og það var óvenjulega mikið af honum úti á Nesi um páskana. Hrafninn er heillandi fugl og oftar en ekki var ansi hvasst og þá nutu þeir þess greinilega vel að láta sig berast með vindinum. Að auki voru farfuglarnir að koma og það var svo gaman að sjá tjaldinn, lóuna og meira að segja kríuna á koma á end- anum á meðan við mannfólkið mátt- um vart hreyfa okkur.“ Spurð um hvort þetta sé hennar ljóðræna nálgun á að hvað sem á okk- ur mannfólkinu dynur haldi veröldin áfram, segir Linda að það sé einmitt svo áþreifanlegt. „Þó að mannkynið hafi aldrei lent í öðru eins heldur heimurinn áfram. Og í þessu er fólgið tækifæri fyrir okkur til þess að tengja okkur við þann ryþma. Alveg sér- stakt tækifæri til þess að finna aftur þennan takt sem við vorum soldið bú- in að týna en maður sér meira á ferðalögum í fjarlægum löndum inn- an samfélaga þar sem fólk er ekki al- veg jafn mikið að flýta sér. Er ekki al- veg jafn upptekið af lífsgæðakapphlaupinu og við.“ Rými til þess að breyta Þegar kófinu er farið að slota og lengra tekur að líða á milli ljóða er eftirtektarvekt að tónninn verður samfélagslegri og jafnvel pólitískari, samanber línurnar: „vonandi / berum við gæfu til / að þeir sem veikir voru fyrir / lendi ekki aftur í ruslflokki // þegar upp verður staðið“. (Kyrralífs- myndir, bls. 47) Linda segir að hún hafi alltaf geng- ist við pólitíkinni í verkum sínum. „Í kófinu birtist allt í einu umhyggja og ræktarsemi gagnvart gömlu og veiku fólki í öllu samfélaginu. Eitthvað sem er auðvitað til á meðal einstaklinga en þarna virtist allt vinna saman, kerfið og fólkið lagðist á eitt. Það var verið að syngja fyrir utan elliheimilin, sjálf- boðaliðar að hringja í fólk sem var eitt heima og þannig mætti áfram telja. Það var margt rosalega gott við þennan tíma og lærdómsríkt, ef við getum haldið í það.“ Linda bætir við að því miður séum við oft ansi fljótt að leita aftur í það far sem við þekkjum. „Þannig að mér finnst gott að við þurfum enn um stund að vera í þessum hægagangi því það gefur okkur meira rými til þess að breyta. Ég bý hérna í mið- bænum og vissulega finn ég muninn af því að barir eru bara opnir til ell- efu. Helgarnar eru allt öðruvísi og það er miklu meiri ró yfir öllu. Allt of lengi hefur það verið þannig að um leið og sólin lætur sjá sig þá gengur hér á með öskrum um helgar, upp og niður Laugaveginn, næstum því allan sólarhringinn. Það er í okkur einhver tryllingur. Við ætlum sko aldeilis að njóta þessa eina sumardags og það verða allir brjálaðir, en núna er fólk í betra jafnvægi. Þær veislur sem eru haldnar, eru haldnar í meiri gleði og innileika en ekki þessum tryllingi. Við erum að gleðjast í þakklæti yfir því sem við höfum.“ Allt gott hjá ykkur? Við lestur Kyrralífsmynda er vel greinanlegt að þrátt fyrir þá ein- angrun sem var fólgin í kófinu hefur samkennd og samlíðan fólks sjaldan eða aldrei verið meiri. Linda tekur undir þetta og hefur á orði að þetta sé auðvitað stórmerkilegt. „Ekki síst í ljósi þess að maður hitti varla sálu dag eftir dag. Ég fór í búðina og reyndi að spotta út þann tíma sem hvað fæstir væru á ferli, en á sama tíma þótti mér vænt um að hitta af- greiðslukonuna mína í Bónus og spurði hvernig hún hefði það. Eins var það með fólkið í húsinu þar sem ég bý, það eru sjö íbúðir og alla jafna hafði fólk átt í litlum samskiptum, að þar fóru allir að tala saman og spyrja „er allt gott hjá ykkur?“ Þessi samkennd og umhyggja er falleg. Við verðum að endingu komin í sæluvímu yfir kórónuveirutímanum eftir því sem lengra líður og við tölum meira,“ bætir Linda við og hlær við tilhugsunina. „En þetta hefur verið þroskandi ferli eins og erfileikar og áskoranir eru oftar en ekki, þótt við reynum að forðast slíkt í lengstu lög.“ Betur vakandi og meira lifandi Í þessum efnum sem öðrum höfum við tækifæri til þess að læra af sög- unni. Linda segir að amma hennar hafi talað mikið um það síðustu árin sem hún lifði hvernig hún upplifði að fjölskyldan væri stimpluð fyrir að hafa verið sett í sóttkví árið 1918. „En ég held að þetta hafi á einhvern hátt verið uppsafnað vegna þess að mamma hennar fann fyrir einhverju gömlu sem lagðist ofan á þetta og þegar það er aldrei talað um málin og unnið úr þeim þá hlaðast þau upp. Lag fyrir lag og byrðin þyngist stöð- ugt og getur jafnvel sligað okkur að endingu. Þess vegna þurfum við að tala opinskátt um þetta.“ Spurð um það hvernig hún haldi að við eigum eftir að líta til baka vísar Linda til síðasta ljóðsins í bókinni „Ég held að við eigum eftir að muna þetta mjög vel og þá sérstaklega þeir sem urðu veikir, enda eru þetta erfið veik- indi. En við hin sem sluppum með skrekkinn, ég held að við eigum eftir að hugsa um þetta sem góðan tíma. Að tilfinningin og lærdómurinn verði að við höfum verið betur vakandi, meira lifandi og kunnað betur að meta lífið og tilveruna.“ Morgunblaðið/Arnþór Birkisson Kyrralífsmyndir úr kófinu Linda Vilhjálmsdóttir ljóðskáld segir að það sé fegurð í samkenndinni og umhyggjunni sem myndaðist í vetur. Lærðum að meta lífið og tilveruna  „Heimurinn minnkaði alveg rosalega á þessum tíma,“ segir skáldið Linda Vilhjálmsdóttir sem þessa dagana sendir frá sér ljóðabókina Kyrralífsmyndir þar sem skáldið tekst á við kófið frá degi til dags 42 MENNING MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 27. JÚNÍ 2020 Fermingar- myndatökur Einstök minning Ljósmyndir Rutar og Silju Skipholti 31 | 105 Reykjavík | Sími 568 0150 | www.rut.is | Opið alla virka daga kl. 10-17 Úr lokahluta Kyrralífsmynda, 4. maí til 26. maí eins víst að við sem sluppum með skrekkinn minnumst þess alla okkar tíð hvernig blóðið varð heitara og loftið tærara í samkomubanninu á tímum kórónuveirunnar og eins víst að um þessa vá verði samin angurvær sönglög sem óma í eyrum komandi kynslóða meðan heimurinn endist þeim

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.