Morgunblaðið - 30.06.2020, Blaðsíða 6
KÓRÓNUVEIRUFARALDUR6
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 30. JÚNÍ 2020
Veronika S. Magnúsdóttir
veronika@mbl.is
„Þetta er allt annað líf hérna. Í Hollandi
er fólk með grímur á hverjum degi og
talar allan daginn um kórónuveiruna,
ég var orðinn hundleiður á því. En hér
er eins og hún sé ekki til,“ segir hol-
lenski ferðamaðurinn Carlos Zeegers.
Hann kom hingað til lands 19. júní til
þess að ferðast og sinna sjálfboðastarfi í
senn, hjá umhverfisverndarsamtökum.
Örfáir ferðamenn leyndust í mann-
fjöldanum á sólríkum degi í miðbæ
Reykjavíkur í gær þegar blaðamaður
arkaði ásamt ljósmyndara í von um að
taka einhvern tali.
„Þetta er búið að vera frábært frí, við
gistum í Hafnarfirði og sigldum á dög-
unum til Vestmannaeyja,“ segir hann.
Sleppti faraldrinum
Félagi Carlosar, Sebastian, hefur
verið á Íslandi og sinnt sjálfboðastörf-
um í þágu sömu samtaka frá því í febr-
úar. Hann kemur frá Ítalíu og ákvað að
vera hér enn, eftir að faraldurinn
braust út.
„Ég sleppti bara kórónuveirufaraldr-
inum. Kærasta mín er enn á Ítalíu og
samkomubannið hefur verið heima-
mönnum mjög erfitt. Ísland hefur verið
frábært, ég hef náð að fara Gullna
hringinn og séð margt fallegt.
Ég kom í byrjun febrúar og ákvað að
vera lengur og vinna fyrir samtökin. Þá
gat ég farið Gullna hringinn, svo að ég
hef fengið tækifæri til að kynnast Ís-
landi. Mig langar að fara suður og
austur.“
Þau Yann og Anita, sem stödd voru
við Hallgrímskirkju, kunna einkum vel
við að ferðast á Íslandi þegar lítið er um
ferðamenn. Samkomu- og fjarlægðar-
takmarkanir eru mun meiri í heima-
landi þeirra, Hollandi, um þessar mund-
ir, og því tilbreyting að vera á Íslandi.
„Þetta hefur verið indælt, ferða-
mennirnir eru ekki enn komnir svo það
er mjög friðsælt að ferðast. Fossarnir
og jöklarnir eru alveg ótrúlega fallegir
og þetta hefur verið frábært,“ segir
Anita.
„Skrýtið að verslanir séu lokaðar“
Agust Kaaw Merved frá Danmörku
er ánægður með Íslandsdvölina enn
sem komið er og hyggur á ferðalag
austur.
„Ég sá reyndar að sumar búðir eru
lokaðar og ég er nokkuð hissa á því, þar
sem dagleg smit eru orðin fá á Íslandi,“
segir hann.
Agust er í fyrstu Íslandsför sinni og
segir að ástandið eftir kórónuveiru-
faraldurinn sé ekki ósvipað því sem er í
Danmörku. „Miðað við mitt land er
þetta meira og minna eins, eini munur-
inn er sýnatakan á flugvellinum, sem
okkur er skylt að fara í. Það er ekki
nauðsynlegt í Danmörku,“ segir hann.
Cindy og Thomas frá Suður-
Frakklandi lögðu af stað í heimsreisu í
september og hafa síðan þá komið við í
Asíu, Nýja-Sjálandi og Ástralíu.
Stefnan var síðan sett á Suður-Ameríku
en þar sem landamæri þar lokuðust fyr-
ir ferðamönnum varð að finna nýtt land
og varð Ísland fyrir valinu.
„Það var erfitt að halda áfram að
ferðast en sem betur fer voru íslensk
landamæri opin. Ætlunin er að fara
hringinn í kringum landið og sjá Jökuls-
árlón,“ segir Cindy.
Þau eru nýkomin til landsins og segja
komuna hafa verið sérstaka – þau hafi
farið í rútu sem síðast var notuð fyrir
tveimur mánuðum. Umhverfið á Íslandi
er ólíkt því sem er nú í Frakklandi:
„Í Frakklandi voru allir með andlits-
grímur og það er passað upp á fjar-
lægðina. Á flugvellinum fórum við í
sýnatöku og síðan gátum við haldið för
okkar áfram,“ sagði Thomas.
Morgunblaðið/Eggert
Sáttir Félagarnir Sebastian og Carlos segja
gott að taka frí á Íslandi frá kórónuveirunni.
Morgunblaðið/Eggert
Ferðast Þau Yann og Anita frá Hollandi eru
heilluð af jöklum og fossum landsins.
Frí frá kórónuveirufaraldri á Íslandi
Erlendir ferðamenn fegnir að geta heimsótt Ísland Friðsælla að ferðast um landið í fámenni
Morgunblaðið/Eggert
Ferðalangur Agust fer bráðum austur en
rölti um Laugaveginn á sólríkum degi í gær.
Morgunblaðið/Eggert
Heimsreisa Cindy og Thomas frá Frakklandi
voru fegin yfir opnun íslenskra landamæra.
„Þetta er búið að vera frábært. Við vorum 18 talsins
á 200 manna hóteli og við höfum aðallega séð Ís-
lendinga á ferðalagi, svo þetta hefur líka verið mjög
sérstakt,“ segir Michaela Grötecke frá Þýskalandi.
Hún ferðaðist hringinn um landið nýverið og er
sannfærð um að upplifun ferðahóps hennar hafi
verið ólík því sem aðrir ferðamenn hafa kynnst á Ís-
landi.
Ég held að þetta sé yfirleitt öðruvísi, það var í það
minnsta okkar tilfinning. Í Þýskalandi þurfum við
öll að bera grímur en raunin er ekki sú sama hér,“
segir hún.
Þegar á flugvöllinn var komið voru sýni tekin en
enginn í hópnum reyndist smitaður. „Okkur var
mjög létt,“ segir hún.
Aðspurð segist hún ekki geta gert upp á milli
staðanna sem hún heimsótti á Íslandi.
„Allt heillaði okkur upp úr skónum,“ segir hún.
Ljósmynd/Aðsend
Jökulsárlón Michaela (lengst til vinstri) segist ekki geta gert upp á milli staðanna, en Jökulsárlón heillaði þó.
Voru 18 á 200 manna hóteli