Morgunblaðið - 04.07.2020, Blaðsíða 42

Morgunblaðið - 04.07.2020, Blaðsíða 42
VIÐTAL Magnús Guðmundsson magnusg@mbl.is „Níundi áratugurinn er svo skemmtilegt tímabil að ég er sérdeil- is kát og glöð í vinnunni alla daga,“ segir Unnur Ösp Stefánsdóttir, leik- kona, leikstjóri og handritshöfundur. Þessa dagana er hún í fyrstnefnda hlutverkinu þar sem hún fer með hlutverk í sjónvarpsþáttaseríunni Verbúðin sem Vesturport framleiðir. Þáttaröðin gerist að miklu leyti á ní- unda áratugnum og hlæjandi segir Unnur Ösp að það geri auðvitað heil- mikið fyrir geðheilsuna að skella sér í Don Cano-galla hverjum degi. „Við hlæjum svo mikið að við erum í vand- ræðum með okkur á köflum því þetta er auðvitað líka hádramatískt.“ Ástæðan fyrir því að Unnur Ösp er að spjalla við blaðamann er heldur ekkert aðhlátursefni og hefur ekkert að gera með sjónvarpsþættina Ver- búðin. Eins og hennar er von og vísa er hún með mörg járn í eldinum og þar á meðal er hún að vinna að leik- gerð eftir bókinni Vertu úlfur: war- gos esto, eftir Héðin Unnsteinsson sem kom út fyrir fimm árum og vakti verðskuldaða athygli. Bókin fjallar um áralanga baráttu Héðins við geð- hvörf og hvernig hann tekst á við sjálfan sig, sjúkdóminn og heil- brigðiskerfið. Innblástur fyrir marga Unnur segir að þegar hún las þessa bók fyrir fimm árum hafi hún strax orðið yfir sig hrifin. „Það er eitthvað við þetta tiltekna efni sem hefur alltaf heillað mig, af mörgum ástæðum. Bæði þekki ég, eins og allir Íslendingar, einhvern sem hefur tek- ist á við geðsjúkdóma og svo upplifi ég auðvitað hæðir og lægðir í lífinu. Mér fannst svo frábært að lesa bók um geðhvörf sem er svona mikil upp- risusaga og innblástursbomba, vegna þess að í menningu okkar höf- um við meira verið að lesa sögur af þessum toga sem fjalla um fólk sem fer ekki alltaf vel fyrir á endanum, endar gjarnan á stofnun eða jafnvel þaðan af verra. Margt af því er stór- kostleg listaverk, eins og Englar al- heimsins sem mótaði mig mikið sem ungling, en oft fer illa fyrir þessu fólki. Þess vegna fannst mér svo mikil vakning að lesa bók sem fjallar um mann sem nýtur velgengni og hefur ekki aðeins náð að brjótast út úr veikindum sínum og lifa með þeim, heldur gengið lengra og nýtt sér þau til þess að breyta heilbrigðiskerfinu til betri vegar. Í dag er Héðinn for- maður Geðhjálpar, einn þeirra sem sömdu geðorðin og er óþreytandi í hvetja okkur til þess að skoða heil- brigði fremur en að sjúkdómavæða allt og alla. Hann hvetur okkur til þess að einbeita okkur frekar að því hvernig okkur getur liðið vel. Héðinn er klár náungi og ég heill- aðist strax af þessu viðhorfi að leggj- ast ekki í kör og sjálfsvorkunn þegar áskoranir lífsins banka upp á heldur berjast áfram. Ég held að þetta við- horf geti verið innblástur fyrir marga og þar á meðal fjölda fólks sem er að takast á við geðhvörf.“ Ég er í vitlausu leikhúsi! Unnur segir að þegar hún hafi les- ið bókina í fyrsta sinn hafi hún ekk- ert þekkt til Héðins og starfa hans. „Ég hafði ekkert fylgst með baráttu hans fram að þessu en varð sam- stundis mjög uppnumin. Bókin gekk gríðarlega vel, fékk tilnefningu til Ís- lensku bókmenntaverðlaunanna og naut mikillar hylli og fljótlega frétti ég að Þjóðleikhúsið væri komið með réttinn. Þá var fyrsta hugsun mín bara – fjárinn, ég er í vitlausu leik- húsi! En þá var ég að vinna í Borgar- leikhúsinu og búin að vera að vinna þar meira og minna allan minn feril.“ Í vetur urðu sviptingar í leikhúslíf- inu sem Unnur segir að geti verið hollar og góðar fyrir alla og ekki síst áhorfendur. „Það er gott að fá nýja orku inn í húsin. Eftir að ég flutti mig í Þjóðleikhúsið var þetta það fyrsta sem ég nefndi við Magnús Geir, sem tók þessu ljómandi vel. Síðan þá hef ég verið að kynnast Héðni og vinna mikla rannsóknarvinnu og það hafa verið mikil forréttindi að eiga þetta samtal við hann. Leikgerðin byggir vissulega að langmestu leyti á bók- inni en líka á alls konar öðru efni frá Héðni, þar á meðal fyrirlestri sem hann hefur flutt víða á síðustu árum.“ Unnur tiltekur að henni finnist mikilvægt að leikhúsfólk taki ákveðna afstöðu þegar verið er að gera leikgerð upp úr bók. „Mér finnst sjálfri sem áhorfanda ekki áhugavert að fara í leikhúsið og sjá einhvers konar útdrátt úr skáldsögu. Það tók mig því tíma að átta mig á því hvaða afstöðu ég sem leikhús- manneskja vildi taka til þessa verks og það er svona að mótast núna. Í því ferli hefur verið meiriháttar að hafa Héðin innan handar og Hrafnhildi Hagalín sem dramatúrg.“ Leið leikhússins Leikgerðin sem Unnur vinnur að verður einleikur og því á mikið eftir að mæða á leikaranum sem tekst á við þetta flókna og tilfinninga- þrungna verkefni. Mikið af hinni dramatísku togstreitu sem er til staðar í verkinu er innra með þessari einu persónu og spurð hvernig hún sjái fyrir sér að miðla þessu til áhorf- enda segir Unnur að það sé áskorun. „Þessi saga er áhrifarík, sársauka- full, mögnuð og meira að segja fyndin. Það er allt í þessu efni. Textinn er stórbrotinn á köflum og Héðinn er frábært skáld. Vissulega væri hægt að fara hundrað leiðir að því að miðla öllu þessu til áhorfenda. Það væri hægt að gera tíu þátta sjón- varpsseríu, bíómynd eða sýningu á stóra sviðinu með 25 manns. En ég hef mikið verið að velta fyrir mér sjónarhornum í lífinu, spurning- unni um hvernig við upplifum al- mennt það sem á daga okkar drífur í lífinu. Sömu atburðir geta falið í sér gjörólíka upplifun fyrir ekki nema tvær manneskjur og þá skiptir öllu máli við hvern þú talar. Við höfum einmitt farið í gegnum þessa hluti í leikhúsinu út frá metoo-umræðunni þar sem ein sagan er svona en hinn aðilinn hefur svo allt aðra sögu að segja. Sömu atburðir en ólík upp- lifun. Þess vegna fannst mér í þessu verki felast ótrúlega mikið frelsi í því að standa frammi fyrir einni mann- eskju sem er að takast á við geð- hvörf. Hann er öðru hverju í maníu innan sýningarinnar og það er óskap- lega leikbært og spennandi að vera með persónu sem er í einhvers konar geðástandi að reyna að sannfæra áhorfendur um eitthvað. Þess vegna valdi ég að vinna með þetta sjónarhorn eins manns á eigin lífsreynslu. Svo er það verkefni áhorfendanna að mynda sér afstöðu og vonandi verður sýningin til þess að hrista aðeins upp í fólki og fá það til þess að hugsa aðeins um það sem þarna er tekist á við frá ólíkum hliðum. Sagan er öll sögð í gegnum þessa brennandi ástríðu manns sem er að reyna að breyta heiminum og bylta kerfinu. Svo á æfingatímanum mun- um við finna leiðina á sviðinu en þar er ég með frábæran hóp listamanna sem munu feta þá slóð með mér. Elín Hansdóttir er leikmynda- hönnuður sýningarinnar, Valgeir Sigurðsson sér um tónlistina ásamt Emilíönu Torrini, Filippía Elísdóttir er búningahönnuður og Björn Berg- steinn og Halldór Örn Óskarsson munu lýsa.“ Áskorun á alla kanta Það leynir sér ekki að það skiptir Unni miklu máli að vera ekki að pre- dika um málefni sýningarinnar yfir áhorfendum. „Ég er leikhús- listamaður og þar af leiðandi verð ég að einblína á dramatíska sögu af manni og reyna að opna efnið. Reyna að fjalla meira almennt um geðhvörf og hvað þau fela í sér, bæði persónu- lega og samfélagslega. Fjalla um rússíbanann sem fylgir því að fara í gegnum þetta ástand og afleiðing- arnar af lífsreynslunni. Og ég hef þá einlægu trú að allir áhorfendur eigi að geta sett sig í spor persónunnar á einhverjum tímapunkti með því að halda þessu svona opnu.“ Umrætt hlutverk í sýningu verður í höndunum á margreyndum leikara sem er flestum kunnur, en Björn Thors, eiginmaður Unnar, ætlar að takast á við verkið. Spurð hvort hún óttist ekki að Björn standi henni of nálægt sem manneskja til þess að þau geti tekist á við þetta í samein- ingu stendur ekki á svari. „Jú, guð minn góður. Auðvitað er ég skít- hrædd um það. Við höfum oft unnið saman en við höfum aldrei leikstýrt hvort öðru en maður verður að skora sjálfan sig á hólm. Ég er að stíga út úr þæginda- rammanum að svo mörgu leyti. Ég er að skipta um vinnustað, skrifa leiðgerð, leikstýra eiginmanni mín- um og vinna náið með manneskju sem er að gefa okkur söguna sína eins og Héðinn hefur gert. Það er al- veg ótrúlega margt að óttast í þessu öllu en á sama tíma brenn ég fyrir efninu og sá engan annan fyrir mér í þessu hlutverki en Bjössa. Við munum þurfa að kafa djúpt til þess að þetta skili sér en hann er þannig listamaður að ég get treyst honum til þess að gefa allt sitt í verk- efnið. Við erum nú búin að búa sam- an í 24 ár og eignast saman börn og standa frammi fyrir ýmsu á lífsleið- inni, þannig að ég óttast ekki að einn einleikur verði okkur ofraun,“ segir Unnur og hlær áður en hún bætir við. „En auðvitað verður þetta áskor- un á alla kanta.“ Krafa samfélagins Unnur hefur á orði að löngum hafi það verið mikið tabú að tala um að manni líði illa. Þess vegna vonist hún til þess að sýningin geti verið ákveðinn vettvangur fyrir þá um- ræðu. „En við erum að þokast í rétta átt. Eitt stórkostlegt skref er til að mynda að sálfræðikostnaður heyrir nú undir Sjúkratryggingar ríkisins. Vegna þess að andleg veik- indi eða segjum til að mynda erfiður missir á borð við að missa barn er auðvitað ekki þannig að það jafni sig bara á þremur mánuðum. Langt frá því. En því miður hefur það löngum verið krafa samfélagsins að við bara jöfnum okkur og séum ekkert að tala um þetta. Það auðvitað gengur ekki. En ég held að lífið yrði betra ef við mættum tala um þetta eins og hver önnur veikindi og það ótta- laust. Þess vegna er ég að fara að skoða þetta út frá okkur öllum og því sem við öll þekkjum með einum eða öðrum hætti. Skapa einhvers konar samupplifun með áhorf- endum sem einstaklingar tengja við eftir því sem við á.“ Við getum öll lent þarna Unnur hefur áður tekist á við verkefni þar sem fjallað er um fólk sem stendur á jaðri samfélagsins, en hún er á meðal höfunda að sjón- varpsþáttunum Fangar sem nutu mikilla vinsælda og gengu vel. Svo vel að rétturinn til endurgerðar var seldur til Bandaríkjanna og Unnur segir að þar sé kominn framleið- andi, leikstjóri og aðalleikkona, allt stór nöfn, en hún megi ekki greina frá meiru að svo stöddu. Spurð hvort hún finni fyrir sam- tali á milli Fanga og þessa nýja verkefnis segist hún vissulega gera það. „Ég hef mikinn áhuga á þess- um samfélagslegu málum og þá ekki síst því sem við setum á jaðarinn vegna þess að það er óþægilegt. Það er svo magnað hvernig við hræð- umst og hvað við getum verið for- dómafull. Hvað við óttumst allt sem er öðruvísi. Fólk með geðrænar áskoranir, fangar og innflytjendur eru dæmi um þetta og ég held að við sem sam- félag verðum að geta komið til móts við þá sem af einhverjum ástæðum lenda „utan hringsins“ í stað þess að ýta þeim út úr samfélaginu eins og úlfum. Þetta er ekki samfélag sem ég vil vera hluti af og þess vegna brenn ég fyrir þessum sögum. Við getum öll lent þarna, við getum öll elskað ein- hvern sem lendir þarna og við verð- um að breyta þessu.“ Morgunblaðið/Eggert Áskorun „Ég er skipta um vinnustað, skrifa leiðgerð, leikstýra eiginmanni mínum og vinna náið með manneskju sem er að gefa okkur söguna sína,“ segir Unnur Ösp um þær mörgu áskoranir sem hún stendur frammi fyrir. Ég brenn fyrir þessum sögum  Unnur Ösp Stefánsdóttir vinnur að leikgerð á skáldsögu sem hún heillaðist af fyrir fimm árum  Henni finnst mikilvægt að leikhúsfólk taki afstöðu fremur en að sviðsetja útdrætti á skáldsögum 42 MENNING MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 4. JÚLÍ 2020 BROTINN SKJÁR? Sanngjörn verð og hröð þjónusta Bolholti 4, 105 • Reykjavík • S 534 1400 • www.smartfix.is s n j a l l t æ k j a þ j ó n u s t a

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.