Morgunblaðið - 23.07.2020, Blaðsíða 18
18 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 23. JÚLÍ 2020
Gróska hefur verið með eindæmum
góð í Surtsey í sumar. Það kom í ljós
í árlegum leiðangri til eyjarinnar
13.-17. júlí. Aldrei fyrr höfðu fundist
jafn margar æðplöntutegundir og
þar af tvær nýjar. Auk þess komu
fram tvær nýjar smádýrategundir,
samkvæmt frétt Náttúrufræðistofn-
unar Íslands (ni.is).
„Ofsaköst vetrarveðra síðastliðinn
vetur höfðu sett mark sitt á eyna,
brotið vel úr björgum og grafið
hvelfingar inn í þau. Sjór hafði geng-
ið yfir norðurtangann úr austri, bor-
ið grjót úr kambinum inn á flötina,
grafið djúpa farvegi í hana og flætt
áfram yfir austan megin. Tangaflöt-
in hafði fengið nýja ásýnd,“ segir í
fréttinni.
Metfjöldi æðplantna
Gróður var mældur í föstum rann-
sóknareitum víða á eynni. Ljós-
tillífun plantna og virkni í jarðvegi
var einnig mæld og jarðvegssýni
tekin til efnamælinga. Niðurbrots-
pokar voru grafnir upp og nýir settir
í alla reiti. Einnig var gróskustuðull
mældur í öllum föstum reitum og í
mælireitum við mastur en hann er
mælikvarði á blaðgrænu og grósku
gróðurs. Alls fundust 67 tegundir
æðplantna á lífi, en það er met á einu
sumri. Af þeim voru tvær nýjar teg-
undir, mýrastör og vætudúnurt. Auk
þess fannst aftur hvítmaðra en hún
sást síðast árið 1998. Engin tegund
hafði horfið síðan árið 2019. Nú hafa
alls 78 tegundir æðplantna verið
skráðar í Surtsey frá upphafi.
Svartbakur var áberandi
Máfavarpið var með seinna móti í
sumar. Svartbakur var mest áber-
andi en hann er stöðugt að taka
meira af varplendum sílamáfs og
bola honum út á minna gróið hraun.
Silfurmáfar voru með færra móti.
Lítið bar á ungum máfanna.
„Sumir sílamáfar voru enn á eggj-
um. Fýlum fer fjölgandi í graslend-
inu inni á eynni. Teistur voru alls
staðar með ströndum og allnokkrir
lundar sátu uppi í björgunum á suð-
vestanverðri eynni. Ekki tókst að
staðfesta varp þeirra. Hrafnar höfðu
gert laup syðst í Surtungi og sáust
mest þrír fuglar saman, þar af var
ungahljóð í einum. Þúfutittlings-
hreiður með eggjum fannst í gamla
máfavarpinu og sennilega voru tvö
eða þrjú pör í varpi. Maríuerlur með
fleyga unga sáust bæði á suðureynni
og á Tanga, að minnsta kosti þrjú
pör. Snjótittlingar voru eins og jafn-
an nokkur pör, minnst fimm. Á
Tanga sáust nokkrir sendlingar,
sandlóa og steindepill. Æðarkolla
hefur haldið sig á eynni undanfarin
sumur. Eitt sumarið leiddi hún unga
til sjávar. Nú sást henni rétt bregða
fyrir þegar hún flaug norður yfir
eynni. Nýlegur gæsaskítur sást í
gamla varpinu en á hraunklöppum
suðaustan á eynni var eldri og fín-
gerðari skítur, sennilega frá mar-
gæsum sem hafa tyllt sér þar í vor.“
Nýjar tegundir smádýra
Þá voru smádýr skoðuð á hefð-
bundinn hátt með fallgildrum í flest-
um mælireitum og tjaldgildru í
máfavarpi. Einnig var smádýrum
safnað undan steinum í hraunum og
rekaviði á tanganum. Nú þegar eru
tvær tegundir komnar fram; hús-
humla og smáfluga sem ber heiti
eyjarinnar, Limnellia surturi, þótt
hún hafi ekki áður fundist í Surtsey.
Sjö líffræðingar Náttúru-
fræðistofnunar tóku þátt í leiðangr-
inum, auk sérfræðings frá
Landbúnaðarháskóla Íslands og
landvarðar Umhverfisstofnunar.
Landvörðurinn hreinsaði fjörur af
drasli sem rekið hafði á land. Rusl
hefur verið hreinsað úr fjörum
Surtseyjar og af tanganum á hverju
sumri frá 2016.
Veður var ágætt í byrjun en sner-
ist síðan í suðaustan strekking og
úrhellisrigningu. Til stóð að yfirgefa
eyna 16. júlí en það frestaðist til 17.
júlí vegna veðurs. Þyrla Landhelgis-
gæslunnar flutti leiðangursmennina
til og frá eynni. gudni@mbl.is
Óvenjumikil
gróska í
Surtsey
Ljósmynd/Sigurður H. Magnússon
Gróskan Holurt hefur aukist mikið í Surtsey á síðustu árum og setur svip
sinn á eyna. Hún er nú víða eins og blómagarður yfir að líta.
Ljósmynd/Erling Ólafsson
Landbreytingar Mikil ummerki sáust um stórviðri vetrarins og atgang sjávar. Sjór hafði gengið yfir grjótgarðinn
austan megin, fært hann innar og djúpir farvegir grafist í flötina. Eftir stóðu háir melgrashólar og ógróinn sandur.
Ljósmynd/Erling Ólafsson
Fyrsti fundur Húshumla var í fyrsta sinn staðfest í Surtsey. Fyrir nokkrum
árum sást þar humla en tegund varð ekki staðfest. Landnám er ólíklegt.
Ljósmynd/Erling Ólafsson
Ný tegund Vætudúnurt fannst í
fyrsta skipti í Surtsey.
Ljósmynd/Erling Ólafsson
Silfurmáfar Þeim virðist hafa heldur fækkað í máfavarpinu. Þetta par var
með tvo unga. Annar fuglinn bar augljós merki blöndunar við hvítmáf.
Fleiri plöntutegundir en áður hafa
fundist Miklar breytingar á eynni