Morgunblaðið - 23.07.2020, Qupperneq 48
48 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 23. JÚLÍ 2020
ESTRO Model 3042
L 164 cm Leður ct. 10 Verð 339.000,-
L 198 cm Leður ct. 10 Verð 379.000,-
ítölsk hönnun – ítölsk framleiðsla
Skeifunni 8 | Sími 588 0640 | casa.is
CASA býður upp á vaxtalausar raðgreiðslur (meðVisa / Euro) í allt að 6 mánuði.
Ragnheiður Birgisdóttir
ragnheidurb@mbl.is
Feðgarnir Kristinn Sigmundsson
bassi og Jóhann Kristinsson barítón
munu syngja á opnunartónleikum
Reykholtshátíðar á föstudagskvöld,
24. júlí, kl. 20. Þetta er í fyrsta sinn
sem þeir koma fram saman á tón-
leikum. Jóhann segir þá hingað til
ekki hafa haft tækifæri til þess. „Við
höfum alltaf verið hvor í sínu lagi,
hvor í sínu landinu,“ segir Kristinn.
Í fyrri hluta tónleikanna syngja
þeir feðgar þýsk ljóðalög eftir
Beethoven, Schubert, Schumann og
Strauss. Eftir hlé munu þeir flytja
brot úr óperunni Don Carlo eftir
Verdi. Þeir munu syngja hvor sína
aríuna auk þess sem þeir syngja sam-
an dúett.
Þeir voru ekki lengi að koma sér
saman um efnisskrána. „Við tölum
saman á hverjum degi og vorum fljót-
ir að setja hana saman,“ segir Krist-
inn og Jóhann bætir við: „Ég held við
höfum ákveðið þessa dagskrá á svona
tíu mínútum.“
Ákveðinn óperuskóli
Þeir eru báðir vanir ljóðasöng og
þekkja þessi lög vel. „Við höfum báðir
sungið mikið af ljóðum og engin þess-
ara eru ný fyrir mér,“ segir Jóhann.
Þetta verður hins vegar frumraun
hans við Don Carlo. „Ég læri svo
mikið á því, þetta er ákveðinn óperu-
skóli fyrir mig,“ segir hann. Kristinn
hefur hins vegar sungið í óperunni
áður og segist þekkja stykkið vel.
Uppselt er á opnunartónleikana en
þeir feðgar munu einnig koma fram á
lokatónleikum Reykholtshátíðar,
sunnudaginn 26. júlí, ásamt ýmsu
öðru góðu tónlistarfólki. Þar munu
þeir flytja ellefu lög eftir Hauk Tóm-
asson við ljóð eftir Þórarin Eldjárn,
ásamt kvintett. Ljóð Þórarins bera
heitið Grannmetislög og eru úr bók-
inni Grannmeti og átvextir. Þeir
segja lögin mjög skemmtileg og að
þeir séu spenntir að flytja þau.
Kristinn bætir við að það sé ein-
staklega gott fólk sem spili með þeim.
Anna Guðný Guðmundsdóttir mun
spila á píanó á feðgakonsertinum og
hrósa þeir henni í hástert. „Það þarf
ekkert að segja henni, hún skynjar
allt undir eins og veitir líka inn-
blástur,“ segir Jóhann.
„Hvor ykkar var þetta?“
Spurður að því hvort heyra megi á
röddum þeirra að þeir séu skyldir
segir Kristinn: „Ég held það megi al-
veg segja það,“ og Jóhann bætir við
að það eigi að minnsta kosti við um þá
sem þekki þá feðga.
„Ég var einu sinni aðeins að segja
Jóhanni til heima þegar hann var að
byrja. Ég var að sýna honum hvernig
ég myndi syngja og svo syngur hann.
Þetta gengur svona á víxl. Mamma
hans var á efri hæðinni og hún kall-
aði: „Hvor ykkar var þetta núna?“
Þannig að mamma hans heyrir ekki
alltaf muninn svo við erum líklega
mjög líkir,“ segir Kristinn og hlær.
Jóhann er búsettur í Hamborg og
hefur verið sjálfstætt starfandi síð-
astliðið ár. Þar áður var hann á samn-
ingi við Óperuna í Hamborg í tvö ár.
„Það fór auðvitað allt í rúst þegar
veiran fór á stjá. Það er búið að aflýsa
rosalega miklu hjá okkur báðum en
núna er þetta að fara af stað aftur.
Ég var að syngja á tónleikum í
Austurríki um síðustu helgi,“ segir
Jóhann.
„Ég segi alveg það sama. Lang-
mest af minni vinnu hefur verið
erlendis og það verður ekkert á þessu
ári,“ segir Kristinn. „Ég átti að
syngja í Atlanta í apríl og maí á
næsta ári en þar er búið að aflýsa öllu
starfsárinu og ég spurður hvort ég
væri laus á sama tíma árið 2022.
Þannig er þetta víðast hvar, a.m.k. í
Bandaríkjunum.“ Reykholtshátíð var
líka í hættu vegna samkomubannsins
á tímabili en þeir feðgar eru ánægðir
með að hún fari fram. „Þetta er með
því skemmtilegra sem maður gerir,
þetta er svo gott fólk og skemmtilegt
sem spilar með okkur. Við hlökkum
ofboðslega til, þetta verða alveg
geggjaðir tónleikar og við eigum
ábyggilega eftir að endurtaka þetta,“
segir Kristinn. „Já, ég held þetta sé
byrjunin á farsælu samstarfi,“ segir
Jóhann og svo hlæja þeir í kór.
Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
Söngvarar Feðgarnir Kristinn Sigmundsson og Jóhann Kristinsson ásamt kvintettinum sem spilar með þeim á lokatónleikum Reykholtshátíðar.
„Við hlökkum ofboðslega til“
Feðgarnir Kristinn Sigmundsson og Jóhann Kristinsson koma fram saman í fyrsta sinn Syngja
á opnunartónleikum og lokakonsert Reykholtshátíðar Þýsk ljóðalög, Don Carlo og Grannmetislög
Reykholtshátíð fer fram 24. til
26. júlí og á dagskránni eru
fernir tónleikar en fyrirlestur
sem halda átti á vegum Snorra-
stofu fellur niður.
Feðgarnir Kristinn Sigmunds-
son og Jóhann Kristinsson koma
í fyrsta sinn saman á tónleikum
sem lesa má um hér fyrir ofan,
annað kvöld kl. 20. Á laugardag-
inn, 25. júlí kl. 16, verða kór-
tónleikar með Söngflokknum
Hljómeyki. Á efnisskránni verða
kórlög eftir Jón Nordal, Þorkel
Sigurbjörnsson, Atla Heimi
Sveinsson, Báru Grímsdóttur,
Jórunni Viðar, Huga Guðmunds-
son og Hildigunni Rúnarsdóttur.
Stjórnandi er Þorvaldur Örn Dav-
íðsson.
Um kvöldið kl. 20 verða
kammertónleikar og flutt verk
eftir Frank Bridge, W.A. Mozart,
Sergei Rachmaninoff og Ludwig
van Beethoven. Hljóðfæraleik-
arar eru fiðluleikararnir Auður
Hafsteinsdóttir og Pétur Björns-
son, víóluleikararnir Þórunn Ósk
Marínósdóttir og Ásdís
Valdimarsdóttir, Berglind Stef-
ánsdóttir flautuleikari og selló-
leikararnir Mick Stirling og Sig-
urgeir Agnarsson en Sigurgeir er
listrænn stjórnandi hátíðarinnar.
Á lokatónleikum hátíðarinnar,
26. júlí kl. 16, munu allir lista-
menn hennar koma fram. Tón-
leikarnir hefjast á strengjasex-
tett eftir J. Brahms en eftir hlé
er efnisskráin byggð upp af ís-
lenskum verkum. „Lítill kvartett
leikur sér“ eftir Þorkel Sig-
urbjörnsson er fyrstur á efnis-
skrá en síðan flytur Sigurgeir
Agnarsson verk eftir Huga Guð-
mundsson, „Veris“, og er þar um
Íslandsfrumflutning að ræða.
Reykholtshátíð lýkur með því
að Jóhann og Kristinn flytja
ásamt hljóðfæraleikurum hátíð-
arinnar lagaflokkinn „Grannmet-
islög“ eftir Hauk Tómasson sem
hann samdi við ljóð Þórarins
Eldjárn.
Guðni Tómasson, listsagn-
fræðingur og útvarpsmaður,
mun annast kynningar á tónleik-
unum.
Allir tónleikarnir fara fram í
Reykholtskirkju og miðasala fer
fram á tix.is.
Fernir tónleikar á dagskrá
REYKHOLTSHÁTÍÐ 24.-26. JÚLÍ
Sigurgeir
Agnarsson
Bára
Grímsdóttir