Morgunblaðið - 15.09.2020, Blaðsíða 15

Morgunblaðið - 15.09.2020, Blaðsíða 15
15 MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 15. SEPTEMBER 2020 Í miðri veiruumræðunni er það nokkur tilbreyting hérlendis að efnt verður til óvenjulegra kosn- inga á Austurlandi 19. september nk. þar sem stofna á nýtt og stærra sveitarfélag úr fjórum sem fyrir voru. Reglubundnar kosningar til sveitarstjórna fara næst fram vorið 2022, og boðað hefur verið að alþingiskosningar fari fram að ári liðnu í september 2021. Á næstunni má því búast við vaxandi umræðu og átökum á stjórnmálasviðinu, þar sem aðstæður eru um margt gjörbreyttar. Að þessu sinni verður hér fyrst og fremst vikið að ytri formgerð kosninga hérlendis sem tekið hefur miklum breytingum á einum mannsaldri og engan veginn alltaf til bóta. Athyglisvert ákvæði er hins vegar í ný- legri samþykkt stjórnvalda (nr. 190 frá 19. febrúar 2020) um nýja sveitarfélagið eystra, þess efnis að stofna skuli þar sérstaka heima- stjórn þriggja manna sem annast á tiltekin sér- verkefni í sveitarfélögunum sem fyrir voru, m.a. tengd skipulagi, náttúruvernd, búfjár- haldi og menningarmálum í heimabyggð. Sveitarstjórnarlögin 1986 afdrifarík Gildandi sveitarstjórnarlög eru frá árinu 2011 og tóku við af lögum frá 1998 sem aftur byggðust á lagasetningu 1986, en með þeim lögum voru lagðar niður sýslur landsins og kaupstaðir sem lengi höfðu verið við lýði sem stjórnsýslueiningar og mynduðu fram til árs- ins 1959 grunninn að kjördæmum til Alþingis. Stóra álitaefnið þá í aðdraganda nýrra sveit- arstjórnarlaga var hvort stjórnsýslustigin í landinu skyldu aðeins vera tvö, þ.e. Alþingi og sveitarfélög, eða hvort stofnað skyldi til þriðja stjórnsýslustigsins undir nafninu hérað eða fylki í líkingu við það sem verið hefur annars staðar á Norðurlöndum um langa hríð. Þáver- andi ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæð- isflokks lagðist gegn þeirri hugmynd sem naut hins vegar verulegs fylgis, m.a. innan Alþýðu- bandalagsins, og hafði fengið eindreginn stuðning frá byggðanefnd þingflokkanna undir forystu Lárusar Jónssonar fv. alþingismanns Sjálfstæðisflokksins. Sá sem þetta skrifar flutti þá heildstæða breytingartillögu (nr. 545/ 108. þing) við stjórnarfrumvarpið sem gerði ráð fyrir sjálfstæðu stjórnsýslustigi í formi héraða, í meginatriðum byggt á þáverandi kjördæmaskiptingu. Þessi tillaga mín var hins vegar felld. Ákvæði sem þá voru lögfest um héraðsnefndir eða annað form á samvinnu sveitarfélaga reyndust því miður gagnslítil. Kjördæmaskipanin frá 1999 afleit Með breyttri skipan á kosningum til Alþing- is sem samþykkt var 1999 og kosið var eftir í fyrsta sinn vorið 2003 varð grundvallarbreyt- ing á þeirri kjördæmaskipan sem gilt hafði frá árinu 1959 og byggðist í meginatriðum á sögu- legri skiptingu í landsfjórðunga. Til grundvall- ar stærð og fjölda kjördæma kynnti meirihluti Alþingis það sjónarmið að svipuð tala þing- manna, 10-11 talsins, yrði í hverju þeirra og þáverandi þingflokkar myndu eiga þar kjörna fulltrúa í. Með breyttum kjördæmamörkum var þarna riðlað skipan sem lengi hafði gilt, einnig um samstarf sveitarfélaga. Ljóst dæmi um þetta er Norðausturkjördæmi með útmörkum frá Djúpavogi til Siglufjarðar. Með þessu var Austfirðingafjórðungur sem söguleg eining horfinn. Undirrit- aður var í hópi örfárra þing- manna sem mæltu gegn þessari skipan mála. Ég gerði svofellda grein fyrir atkvæði mínu (25. mars 1999): „Virðulegur forseti. Með þeirri stjórnarskrárbreyt- ingu sem hér er verið að lögleiða og breyttri kjördæmaskipan í kjölfarið er verið að stíga afleitt og afdrifaríkt skref. Búin verða til þrjú risastór landsbyggðarkjördæmi þvert á hefðbundin samvinnuform fólks og byggð- arlaga. Norðurland verður skorið í tvennt, Austurland svipt stöðu sem það hefur haft frá þjóðveldisöld og höfuðborgin bútuð sundur í tvö kjördæmi. Þessi breyting verður til að sundra en ekki sameina og mun veikja fé- lagslega stöðu landsbyggðarinnar. Nær hefði verið að koma á fjórðungaskipan með lýðræð- islegu heimavaldi og gera síðan landið að einu kjördæmi til Alþingis.“ Handahófsleg dreifing stjórnsýslunnar Ein afleiðing þess ástands sem nú ríkir í stjórnsýslu landsins og varðar ekki síst sam- skipti ríkis og sveitarfélaga er handahóf í verk- skiptingu og dreifingu stjórnsýslunnar. Skýr ákvæði vantar um hlutverk Reykjavíkur sem höfuðborgar og skipulega valddreifingu til annarra svæða. Grunnur fyrir slíkt hefði feng- ist með skýrri afmörkun héraða innan þriðja stjórnsýslustigsins þar sem miðstöðvar hafa þróast með eðlilegum hætti. Núverandi handa- hóf með tilfærslu einstakra ríkisstofnana hing- að og þangað með ráðherraákvörðunum gerir aðeins illt verra. Nafn á nýja sveitarfélagið eystra Í aðdraganda ákvarðana um sameiningu sveitarfélaganna fjögurra eystra var gerð skoðanakönnun íbúa 16 ára og eldri á fylgi við sex tilteknar hugmyndir samhliða forsetakosn- ingum 27. júní sl. Valið stóð um Austurþing og Austurþinghá, Drekabyggð, Múlabyggð, Múlaþing og Múlaþinghá. Vinninginn hafði Múlaþing og í öðru sæti varð nafnið Dreka- byggð. Nýlega hefur Sigurjón Bjarnason for- maður Sögufélags Austurlands gert skýra at- hugasemd við nafngiftina Múlaþing, þar eð hugtakið nái frá fornu fari yfir Múlasýslur báð- ar og þar með svæði sem tekur einnig til sveit- arfélaganna Vopnafjarðar og Fjarðabyggðar. Ég er sammála Sigurjóni og vona að annað heiti finnist fyrir hið nýja sveitarfélag sem ég óska velfarnaðar í bráð og lengd. Eftir Hjörleif Guttormsson »Núverandi handahóf með tilfærslu einstakra rík- isstofnana hingað og þangað með ráðherraákvörðunum gerir aðeins illt verra. Hjörleifur Guttormsson Höfundur er náttúrufræðingur. Álitamál fyrr og síðar um sveitarstjórnarstigið og kjördæmaskipanina Satt og logið um Sundabraut Fréttamiðillinn Kjarninn komst ekki að kjarnanum í frétt sinni sem birtist í netheimum fimmtudaginn 10. september 2020. Höfundur fréttarinnar virðist hvorki hafa aflað fullnægjandi gagna né byggt á gögnum sem Vegagerðin og aðr- ir hafa unnið hingað til varðandi Sunda- braut. Yfirskrift fréttarinnar er: „Frið- lýsingaráform Minjastofnunar setja lagningu Sundabrautar í uppnám“. Fyrirsögn Kjarnans er ekki aðeins villandi heldur einnig ósönn þrátt fyrir að vísað sé í erindi Vegagerðarinnar til Minjastofnunar. Um er að ræða minjar frá 13. öld sem m.a. Kristján Eldjárn, fyrrverandi forseti Íslands, vildi ótvírætt vernda á Álfs- nesi. Höfundur fréttar Kjarnans virðist bíta höf- uðið af skömminni þegar hann leggur upp með að Minjastofnun, sem lítið sem ekkert hefur verið hlustað á í öllu skipulagsferlinu hjá Reykjavíkurborg, sé líklega sökudólgurinn og vilji stöðva byggingu Sundabrautar. Ekkert er fjær sannleikanum sé litið til gagna máls- ins. Sundabraut getur legið þannig í landinu að lega hennar muni einmitt ekki ógna forn- minjum á Álfsnesi. Hins vegar horfir öðruvísi við um áform Reykjavíkur á svæðinu þegar kemur að áformum borgarinnar um iðn- aðarhöfn við sundin blá og steinsnar frá Mos- fellsbæ. Áform Reykjavíkurborgar að koma fyrir iðnaðarhöfn í næsta nágrenni Mosfellsbæjar og ofan í afar viðkvæmar fornminjar frá 13. öld eru ekki í samræmi við lög og reglur um minjavernd. Skipulagsferlið virðist einnig hafa verið vanrækt af hálfu meirihlutans í Reykja- vík og það vísvitandi. Hver þekkir ekki til þess þegar talibanar í Afganistan sprengdu fornminjar í stjórnartíð sinni þar í landi? ISIS eyðilagði menningararf Palmyra í Sýrlandi og henti gaman að í fornu rómversku hringleikahúsi í sama mund og það var sprengt í loft upp. Nýlega varð forstjóri iðnaðarrisans Rio Tinto, sem rekur m.a. álver- ið í Straumsvík, rekinn eftir að hafa sprengt forna hella frumbyggja í Ástralíu í loft upp. Þetta reynast allt alþjóðlegar stórfréttir. Nú virðist sem ófáir borgarfulltrúar Reykjavíkur, undir leiðsögn Pírata, ætli sér að bakka tals- vert aftur í þróunarsögunni enda virðist þroskinn talsvert takmarkaður sé litið til af- greiðslu þessa máls og allrar umfjöllunar um minjavernd, lög og reglur. Til að svara fremur óvandaðri frétt Kjarn- ans um málið má benda á lokaeintak umhverf- ismatsskýrslu Vegagerðarinnar varðandi 1. áfanga Sundabrautar í maí 2004 en þar segir m.a. um minjavernd: „Engar friðlýstar forn- leifar eru á svæðinu, en garður úr grjóti mun fara undir framkvæmdir Sundabrautar verði ákveðið að fara leið I.“ Í ítarlegri skýrslu Minjasafns Reykjavíkur nr. 139 varðandi 2. áfanga Sundabrautar, sem unnin var 2008, segir að í ljósi rannsókna: „…munu framkvæmdir Sundabrautar 2. áfanga ekki hafa mikil bein áhrif á fornleifar, miðað við það sem áður stóð til“. Þar er lagt til að lega brautarinnar verði fremur suðaustan í Álfsnesi en ekki í því suðvestan megin þar sem iðnaðarhöfn er hins vegar nú áformuð af hálfu meirihlutans í Reykjavík. Þessu til viðbótar má minnast á skýrslu Borgarminjasafns Reykjavíkur nr. 191 frá árinu 2018 sem unnin var að beiðni umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkur. Þar segir: „Minjasvæði Sundakots og búðasvæði versl- unarstaðarins við Þerneyjarsund eru ein- stakar minjar og engar líkar í Reykjavík, bæði hvað varðar aldur minjanna og menningarlegt gildi þeirra og eru fiskibyrgin hluti af því.“ En í þessari skýrslu er sérstaklega litið til áforma um margra hektara iðnaðarhöfn ofan í minjar frá 13. öld. Þarna horfði þetta því öðruvísi við. Það að blanda saman legu Sundabrautar í umræður um að reisa á Álfsnesi iðnaðarhöfn ofan í minjaheild frá 13. öld er rangt og vill- andi. Einnig er um er að ræða ómálefnalegt framlag meirihlutans í Reykjavíkurborg til iðnaðaruppbyggingar sem virðist að Sjálf- stæðisflokkurinn ætli að styðja. Þar heggur sá er hlífa skyldi. Iðnaður er mikilvægur en hann verður að byggjast upp í samræmi við lög og reglur. Í sama mund og lögmannafjöld er nú í her- för gegn fámennri stofnun eins og Minja- stofnun virðist standa eftir einbeittur pólitísk- ur brotavilji með því að fara gegn lögum um minjavernd, fara gegn sögu þjóðar, tilvist minja og þannig sögu Reykjavíkur. Það kem- ur því spánskt fyrir sjónir að formaður skipu- lags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar hafi nýlega kvartað sáran í fjölmiðlum undan niðurrifi hverfisverndaðs húss við Skólavörðu- stíg sem byggt var í upphafi síðustu aldar en reka samhliða erindi borgarinnar um að verð- mætar minjar um upphaf Reykjavíkur frá 13. öld verði „sprengdar í loft upp“. Sundabraut er sögð ekki ógna minjum á Álfsnesi svo nokkru nemi að mati fornleifa- fræðinga en það mun fleiri hektara iðn- aðarhöfn við Þerneyjarsund gera. Við þurfum iðnað og hafnir en verðum að fylgja lögum og reglum sem gilda í landinu. Fyrir greinarhöfunda er það svo sem engin nýlunda að Píratar vilji leggja eitt hringleik- arhús í rúst til að byggja sér annað nýrra er fellur betur að sögu þeirra og uppruna. Ekki styðja það. Eftir Svein Óskar Sigurðsson og Vigdísi Hauksdóttur » Sundabraut er sögð ekki ógna minjum á Álfsnesi svo nokkru nemi að mati fornleifafræðinga en það mun fleiri hektara iðnaðarhöfn við Þerneyjarsund gera. Vigdís Hauksdóttir Höfundar eru bæjarfulltrúi Mosfellsbæjar og borgarfulltrúi Reykjavíkurborgar. Sveinn Óskar Sigurðsson Icelandair stendur nú fyrir mikilli herferð vegna hluta- fjárútboðsins sem hefst á morgun þar sem framtíð fé- lagsins ákvarðast. Ný andlit kynna fyrirtækið, ytri þættir sem valda rekstrarvanda Ice- landair og annarra flugfélaga eru tíundaðir og dregin fram löng saga þessa flugfélags. Þetta er skiljanlegt, enda mikið í húfi fyrir félagið og þar með hluthafa þess og stjórnendur. Samfélagið á mikið undir traustum flugsamgöngum og endurspegl- ast það í ríkri fyrirgreiðslu sem Icelandair hefur notið í formi hlutabóta, greiðslu launa á uppsagnarfresti og nú síðast með heimild til ríkisábyrgðar á lán- um. Í grein í Morgunblaðinu í gær kveður við áhugaverðan tón í þessari herferð Icelandair. Þar er látið að því liggja að hlutafjárútboðið snúi öðru fremur að því að verja hag launafólks og sérstaklega tekið fram hversu margir félagsmenn í aðildarfélögum ASÍ starfa hjá fyrirtækinu. Ekki er ljóst hvaða tilgangi þessi upptalning þjónar, en væntanlega að krefja ASÍ um samstöðu með stjórnendum Icelandair í gegnum ólgusjó dagsins. Slíka samstöðu er erfitt að krefja samtök launafólks um örskömmu eftir að Icelandair stóð fyrir einni grófustu aðför að réttindum vinnandi fólks hér á landi á síðari tímum, aðför sem er þegar skráð á spjöld sögunnar. Ákvörðun Icelandair að afhenda flugfreyjum og -þjónum uppsagnarbréf í miðri kjaradeilu og hóta því að ganga til samninga við annað stéttarfélag að eigin vali var ekki aðeins aðför að öllu launafólki, heldur gekk hún á svig við leikreglur á ís- lenskum vinnumarkaði. Undanfari þessa var ótrúleg framkoma við stéttarfélag flug- freyja og -þjóna þar sem einn daginn lá lífið á að semja en svo liðu margar vikur án samtals. Skömm þeirra sem sitja við stjórn slíks félags er mikil og þá er til lítils að hreykja sér af því að vera stór vinnustaður, eða með öðrum orðum reiða sig á vinnuafl fjölda fólks og að standa í skilum á greiðslum í stéttarfélög og lífeyrissjóði, svo sem lögbundið er. Í stað þess að reyna að skapa nýja ásýnd félagsins í miðju hlutafjárútboði til að tæla til sín eftirlaunasjóði vinnandi fólks væri nær að félagið gengist við mistökum sínum og bæði launafólk allt afsökunar á fram- komunni. Samhliða mætti félagið lýsa því yfir að héðan í frá virði það starfsfólk sitt, samningsrétt þess og aðild að stétt- arfélögum. Fyrr mun Icelandair ekki end- urvinna það traust sem félagið naut áður. Aðförin sem ekki gleymist Eftir Drífu Snædal »Ekki er ljóst hvaða tilgangi þessi upptalning þjónar, en væntanlega að krefja ASÍ um samstöðu með stjórnendum Icelandair í gegnum ólgusjó dagsins. Drífa Snædal Höfundur er forseti ASÍ.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.