Morgunblaðið - 03.10.2020, Blaðsíða 53

Morgunblaðið - 03.10.2020, Blaðsíða 53
MENNING 53 MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 3. OKTÓBER 2020 I’m also just a girl standing infront of a boy asking him tolove her“ eða „Ég er barastelpa sem stend fyrir framan strák og bið hann um að elska mig.“ Þessi orð Önnu Scott sem Julia Roberts lék í bandarísku rómantísku gamanmyndinni Notting Hill frá 1999 komu upp í hugann meðan horft var á breska leikritið Upphaf eftir David Eldridge sem nýlega var frumsýnt í Þjóðleikhúsinu. Í verki sínu, sem frumflutt var hjá Breska þjóðleikhúsinu fyrir þremur árum við góðar viðtökur, leiðir höfundur saman tvær einmana manneskjur sem á hálfum öðrum klukkutíma þurfa að komast að því hvort þær þori að opna sig hvor fyrir annarri og gefa sambandinu séns. Leikritið gerist í rauntíma eftir miðnætti í nýrri íbúð Guðrúnar (Kristín Þóra Haraldsdóttir) í Vesturbænum að loknu innflutnings- partíi. Allir gestirnir eru farnir nema Daníel (Hilmar Guðjónsson) og strax frá fyrstu stundu er skýrt að Guð- rúnu þykir það ekki leiðinlegt því hún fílar hann og langar að kynnast honum betur. Daníel er meira til baka, virkar feiminn og óöruggur auk þess sem það hjálpar honum ekki hversu drukkinn hann er. Þó þau séu bæði um fertugt virðast þau við fyrstu sýn ekki eiga ýkja margt sameiginlegt. Hún er fjárhagslega vel stæð, vinstrisinnuð, fram- kvæmdastjóri fyrirtækisins sem hún vinnur hjá og óhrædd við að tjá lang- anir sínar. Hann er svolítill stutt- buxnastrákur, fráskilinn faðir sem ekki hefur séð dóttur sína í fjögur ár, býr heima hjá mömmu sinni og hefur engan radar þegar kemur að hinu kyninu. Nennir hún manni sem lýsir konum sem kuntum, sýnir tiltekt meiri áhuga en henni og verður að- eins of fullur í partíum? Hefur hann áhuga á konu sem lætur þann litla mat sem í ísskápnum hennar er skemmast og er samtímis nógu frökk til að tjá kynþörf sína án þess að skammast sín? Eftir því sem líður á nóttina verður hins vegar ljóst að þau eiga það sameiginlegt að vera miklir einstæðingar sem láta sig dreyma um „venjulegt“ fjölskyldulíf og ekki líður á löngu áður en áhorfendur vona að leikritið endi vel í anda vellíð- unarkvikmyndanna frá Hollywood. Eldridge skrifar af næmi um þrá manneskjunnar eftir nánd og ótta við höfnun, en sagan ristir þó ekki sér- lega djúpt. Persónur hans fikra sig skemmtilega áfram í leit að teng- ingu; þau þreifa á húmor hvort ann- ars, reyna að finna sameiginlega snertifleti og komast á flug í hættu- lausum umræðuefnum, steyta skyndilega á skeri í erfiðari mál- efnum, draga sig inn í skelina, en þora svo aftur að opna sig og gera sig berskjölduð, reyna að slaka á og vera eðlileg á sama tíma og adrenalínið flæðir um líkamann og undir niðri ólgar óttinn við að standa ekki undir væntingum hins þegar upp í rúm er komið. Undir styrkri leikstjórn Maríu Reyndal draga Kristín Þóra og Hilm- ar upp skýrar myndir af persónum sínum, þó höfundur sé mun sparsam- ari á upplýsingar sínar um Daníel en Guðrúnu. Tengingin milli leikaranna er góð og hlustunin afbragð, þar sem vandræðalegar þagnir fá notið sín til fulls. Hápunkturinn í samskiptum persónanna er dásamleg danssena þar sem orð eru óþörf. Húmorinn leikur stórt hlutverk í uppfærslunni allri og þar eru Kristín Þóra og Hilm- ar á heimavelli, enda hafa þau mjög góða tilfinningu fyrir kómískum tímasetningum. Íslensk þýðing Auð- ar Jónsdóttur fer vel í munni og stað- færslan heppnast vel þar sem vísað er til þjóðþekktra persóna með skemmtilegum hætti. Leikrýmið er vel nýtt og heimilið sem Finnur Arn- ar Arnarsson býr Guðrúnu gefur okkur góða tilfinningu fyrir að- stæðum hennar. Sama má segja um búninga Margrétar Einarsdóttur sem klæðir Guðrúnu í smekkleg og vönduð föt meðan Daníel er mun hversdagslegri og afslappaðri, enda datt hann óvænt inn í veisluna beint eftir vinnu. Framan af er Daníel aðeins of full- ur og vandræðalegur til að auðvelt sé að skilja hrifningu Guðrúnar á hon- um, en þegar á nóttina líður verður sífellt auðveldara að skilja þá „gut“ tilfinningu Guðrúnar að vilja kynnast Daníel nánar. En auðvitað er á end- anum ógerningur að kryfja eða skýra hvenær og hvers vegna neisti kvikn- ar milli fólks við tilteknar aðstæður. Áhorfendur munu samt örugglega eiga auðvelt með að setja sig í spor aðalpersónanna tveggja og vona að þessi snotra ástarsaga endi vel þrátt fyrir allt. Einu sinni á ágústkvöldi Ljósmynd/Hörður Sveinsson Snoturt „Áhorfendur munu samt örugglega eiga auðvelt með að setja sig í spor aðalpersónanna tveggja og vona að þessi snotra ástarsaga endi vel þrátt fyrir allt,“ segir í leikdómi um uppfærslu Þjóðleikhússins á Upphafi. Þjóðleikhúsið Upphaf bbbmn Eftir David Eldridge. Íslensk þýðing: Auður Jónsdóttir. Leikstjórn: María Reyndal. Leikmynd: Finnur Arnar Arnarson. Búningar: Margrét Einars- dóttir. Lýsing: Jóhann Bjarni Pálmason. Tónlist: Úlfur Eldjárn. Hljóðmynd: Elvar Geir Sævarsson og Úlfur Eldjárn. Leik- arar: Hilmar Guðjónsson og Kristín Þóra Haraldsdóttir. Frumsýning í Kassanum í Þjóðleikhúsinu laugardaginn 19. sept- ember 2020. SILJA BJÖRK HULDUDÓTTIR LEIKLIST Sinfóníuhljómsveit Íslands kynnti í gær nýja tónleikadagskrá til ára- móta. Vegna kórónuveirufaraldurs- ins verður ekki unnt að halda í fyrri áform um tónleikahald sveitarinnar en þar var gert ráð fyrir fjölda er- lendra hljómsveitarstjóra og einleik- ara. Þess í stað mun Sinfóníu- hljómsveitin halda ellefu tónleika sem verða um klukkustundar langir án hlés og spannar efnisskráin vítt svið tónlistar, allt frá Vivaldi, Moz- art, Beethoven og Schubert til nýrra og nýlegra verka, meðal annars eftir Kaiju Saariaho, Hauk Tómasson og Önnu Þorvaldsdóttur. Á næstu mánuðum munu sextán einleikarar úr röðum hljómsveitar- meðlima leika einleik með hljóm- sveitinni og í tilkynningu segir að aldrei hafi svo margir liðsmenn hljómsveitarinnar verið í einleiks- hlutverkinu á einu starfsári, hvað þá enn skemmri tíma. Meðal þeirra eru Áshildur Haraldsdóttir flautuleikari og Una Sveinbjarnardóttir fiðluleik- ari, en einnig verða í forgrunni hljóð- færi sem sjaldnar sjást í einleiks- hlutverki, til dæmis víóla, kontrabassi, óbó og bassabásúna, auk þess sem fjórir hornleikarar munu flytja konsert fyrir fjögur horn eftir Robert Schumann. Kunnur tenór syngur Wagner Ástralski tenórsöngvarinn Stuart Skelton, sem er í hópi virtustu tenórsöngvara samtímans, mun flytja með hljómsveitinni hina frægu Wesendonck-söngva eftir Richard Wagner. Þá mun Álfheiður Erla Guðmundsdóttir sópran koma fram með hljómsveitinni í fyrsta sinn. Að- ventutónleikar með hátíðlegri bar- okktónlist og hinir sívinsælu jóla- tónleikar verða á sínum stað í dagskránni og þá mun Maxímús Músíkús einnig gleðja yngstu áheyr- endurna á fjölskyldutónleikum. Stjórnendur verða Eva Ollikainen aðalstjórnandi hljómsveitarinnar, Bjarni Frímann Bjarnason stað- arhljómsveitarstjóri og Daníel Bjarnason aðalgestastjórnandi. Ánægð með ferska dagskrá Í tilkynningu hljómsveitarinnar er haft eftir Evu Ollikainen, aðal- hljómsveitarstjóra og listrænum stjórnanda sveitarinnar, að hún sé hæstánægð með nýja og ferska haustdagskrá „með styttri tón- leikum, fjölmörgum einleikurum úr hópi hljóðfæraleikara sveitarinnar, og sem spannar afar breitt svið í stíl og tjáningu. Ég get ekki lagt næga áherslu á að okkur hefði aldrei tekist að búa til nýja áætlun á svo skömm- um tíma ef ekki væri fyrir ótrúlega atorku og gífurlega jákvæðan stuðn- ing og sveigjanleika frá öllu starfs- liði og tónlistarfólki í Sinfóníu- hljómsveit Íslands.“ Og Lára Sóley Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri SÍ segir það hafa verið áskorun að koma saman nýrri tónleikadagskrá síðustu daga. „En við erum afar ánægð með útkomuna og bjóðum upp á nýja glæsilega og spennandi dagskrá til áramóta.“ Í samræmi við sóttvarnalög verð- ur sætaframboð á tónleika takmark- að og eitt autt sæti milli allra pant- ana til að tryggja nálægðarmörk. Einleikarar úr sveitinni og fastir stjórnendur  Sinfónían kynnir nýja og mjög breytta tónleikadagskrá Morgunblaðið/Eggert Hljómsveitin Í stað erlendra gesta sem von var á sér Sinfóníuhljómsveitin nú um að leika einleik í tónleikaverkefnum næstu mánuði. Margmiðlunarsýningin Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur, samsýning Landverndar og Ólafs Sveinssonar, er nú á hringferð um landið en hún var fyrst sett upp í samstarfi við Norræna húsið í fyrrahaust. Í dag verður hún opnuð í Sláturhúsinu á Egils- stöðum, Menningarmiðstöð Fljóts- dalshéraðs. Á sýningunni má m.a. sjá yfir 30 ljósmyndir af svæðum sem er ýmist búið að eyðileggja með virkjanaframkvæmdum eða eru í nýtingar- eða biðflokki rammaáætlunar. Sýningin er umfangsmikil með yfir 100 ljósmyndum, kvikmyndum sem voru sérstaklega búnar til fyrir hana og snertiskjá með Náttúrukorti Framtíðarlandsins þar sem hægt er að leita ítarlegra upplýsinga um þau svæði sem þeg- ar hafa verið nýtt til orkuvinnslu eða eru á válista vegna mögu- legrar nýtingar, segir í tilkynn- ingu en dagskrá með umræðu- fundum í tengslum við sýninguna verður auglýst síðar. Náttúruvernd Ólafur Sveinsson á sýning- unni í Norræna húsinu í fyrra. Margmiðlunarsýn- ing í Sláturhúsinu Morgunblaðið/Hari Dalvegi 16c | 201 Kópavogur | Sími 568 6411 | rafvorur@rafvorur.is Amerísk heimilistæki rafvorur.isRAFVÖRUR ehf Þvottavélar og þurrkarar sem taka 10-17 kg
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.