Morgunblaðið - 10.12.2020, Blaðsíða 24
24 FRÉTTIR
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 10. DESEMBER 2020
Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
„Sturlungaöld var tími átaka sem eiga sér
enga hliðstæðu,“ segir Óttar Guðmundsson
læknir og rithöfundur „Þótt hálf áttunda öld
sé liðin frá þessu róstusama skeiði breytist
eðli mannsins ekki. Margir eru alla ævi að
glíma við áföll í æsku, svo sem skort á nánd,
afskiptaleysi og tilfinningalegan kulda. Slík
atriði og fleiri voru orsök margvíslegra átaka
og óhamingju á Sturlungatímanum og eru í
nútímanum.“
Hver sögupersóna Sturlungu á fætur ann-
arri er tekin til umfjöllunar í bókinni Sturl-
unga geðlæknisins sem Óttar sendi frá sér á
dögunum. Hann hefur skrifað nokkrar bækur
á svipuðum nótum, meðal annars um sálarlíf
og geðgreiningar í Íslendingasögum. Óttar
segist lesa milli lína og beita innsæi og kenn-
ingum geðsjúkdómafræði til þess að greina
fólkið, rétt eins og hann gerir í nýrri bók. Ís-
lendingasögur og Sturlunga séu þó um margt
ólíkar bókmenntir.
Algjört miskunnarleysi
„Í Íslendingasögum er persónuleika og lífi
fólks lýst af nákvæmni svo lesendur geta vel
greint og skilið þau viðbrögð sem einstaka
atburðir kalla fram. Sturlunga er aftur á
móti skrifuð í mun knappari stíl og er tyrfin
yfirferðar. Er saga mikilla átaka innan ætta
og meðal frænda og vina,“ segir Óttar og
heldur áfram:
„Miskunnarleysið er algjört, víg eru algeng
og svo er beitt refsingum eins og fót- og
handhöggum, geldingum og menn gerðir
blindir. Einnig tíðkuðust eiðrof og bræðravíg
í þessu stríði, þar sem allir verstu eiginleikar
manna spruttu fram. Þetta atferli var samt
bannað bæði í lögum manna og guðs á þess-
um tímum þegar kirkjan var mun sterkari
stofnun í þjóðfélaginu en síðar varð. Hin nor-
ræna siðfræði fyrri tíma er þarna að engu
höfð og ég velti fyrir mér hvað í rauninni
skóp þessa miklu siðblindu.“
Að jafnaði er talið að Sturlungaöld hefjist
með átökum kirkju og veraldlegra höfðingja í
upphafi 13. aldar þar sem mikið bar á Guð-
mundi góða Arasyni biskupi. Menn skiptust í
fylkingar og átökin stigmögnuðust. Í stríði
þessu voru Sturlungar framarlega, það er
ættbogi Hvamm-Sturlu á Vesturlandi, en
aðrar helstu ættir voru Haukdælir, Odda-
verjar, Svínfellingar og Ásbirningar svo
nokkrir séu nefndir. Að stærstum hluta er
sagan skráð af Sturlu Þórðarsyni (1214-
1284). Er því samtímaheimild sem gerir ritið
einstakt og trúverðugt, að mati Óttars sem
byrjaði bókarskrif sín fyrir tveimur til þrem-
ur árum.
Ofsóknarhyggja, siðblinda,
eiðrof og manndráp
Af mörgu er að taka í galleríi persóna
Sturlungu og sumar eru geðlækninum undr-
unarefni. Þar nefnir Óttar frændurna Kol-
bein unga og Gissur Þorvaldsson. Sá fyrr-
nefndi hafi klárlega verið siðblindur og
tilfinningalaus. Ofsóknarhyggja hafi einkennt
geð hans. Eiðrof og manndráp og frændvíg
hafi í hans vitund ekki verið tiltökumál. Svip-
að megi segja um Gissur, atferli hans hafi
gjörbreyst eftir Apavatnsför. Þar var Gissur
tekinn til fanga af Sturlu Sighvatssyni og eft-
ir það hafi „ófreskja losnað úr læðingi“ eins
og Óttar kemst að orði. Fram að því hafi
Gissur verið friðarins maður. Eftir það er
Gissur líka ein fyrirferðarmesta persóna sög-
unnar.
Óttar segist hafa hatað Gissur sem barn,
einkum fyrir morðið á Snorra Sturlusyni.
Smám saman hafi sér lærst að bera meiri
virðingu fyrir honum. Hafi þó á engan hátt
fyrirgefið Gissuri.
Vill Þórð kakala á peningaseðil
„Sömuleiðis er Þórður kakali eftirtektar-
verð persóna. Um margt heillandi maður en
breyskur. Hann gekk ungur í þjónustu Nor-
egskonungs en náði litlum frama innan hirð-
arinnar og lagðist í fyllerí úr tómum leið-
indum. Hann kom sér alls staðar í ónáð eins
og drykkfelldir ofbeldismenn gera jafnan.
Tilfinningalífið einkennist af flatneskju þar
sem ekkert skiptir máli nema næsti sjúss.
Þórður kakali er samt ein mesta hetja Ís-
landssögunnar og mynd af honum ætti að
prýða peningaseðil,“ segir Óttar Guðmunds-
son að síðustu.
Geðveikur tími
án hliðstæðna
Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Rithöfundur Óttar Guðmundsson nálgast mál frá nýrri hlið í bók sinni, sem hann skrifar af
þekkingu geðlæknisins. Í bakgrunni hér er málverk af fjallasýn Sturlungu en þetta er jafnframt
kápa bókarinnar. Þessa fallegu mynd málaði Jóhanna V. Þórhallsdóttir, eiginkona hans.
Sálgreindar söguhetjur Óttar og Sturlunga
Ný bók læknisins
Áberandi er í Sturlungu geðlækn-
isins hve margir sem þar greinir frá
eru brenndir af tengslaröskun í
æsku. Það brýst síðan út sem
minnimáttarkennd og stærilæti, en
oft er beint samhengi þar á milli.
„Snorri Sturluson er gott dæmi um
þetta,“ segir Óttar. Hann bendir á
að Snorri hafi ungur verið sendur
frá foreldrum sínum í Hvammi í
Dölum til vandalausra að Odda á
Rangárvöllum og alist þar upp. Af
þeim sökum hafi Snorri farið út í
lífið með kalsár á sálinni, sjálfmið-
aður í leit að viðurkenningu sem
hann hafi að eigin mati aldrei feng-
ið. Lýsingar Sturlungu bendi ótví-
rætt til þess, svo sem samskipti
Snorra við börnin sín. Þau hafi
hann notað sem peð í valdatafli og
þeim farnaðist öllum illa, þó sér-
staklega dætrunum.
„Guðmundur biskup Arason hinn
góði er hins vegar sönn trúarhetja í
Sturlungu samanber að enn finnast
víða um land uppsprettulindir sem
hann blessaði svo þær þrytu ekki.
Ég sakna alltaf manns eins og Guð-
mundar í trúarlífi þjóðarinnar í
dag,“ segir Óttar og heldur áfram:
„Sturlunga er mjög karlmiðuð.
Feðraveldið allsráðandi og konur
jafnan í aukahlutverkum, eins og
raunin var hvarvetna langt fram á
síðustu öld. Þó eru nokkrar kven-
hetjur í bókinni eins og Guðný
Böðvarsdóttir, Þórdís Snorradóttir
og Steinvör Sighvatsdóttir og fleiri.
Þær gáfu köllunum ekkert eftir. Að
því leyti er sagan lærdómsrík og á
erindi við nútímann.“
Óttar segist hlakka til þess að
geta fylgt bók sinni eftir með
mannamótum þegar samkomu-
takmörkunum linnir. Víða megi
hitta fólk vel lesið í fornum bókum
Íslendinga sem þekki sögupersón-
urnar sem samtíðarfólk og hafi á
þeim sterkar skoðanir. Slík samtöl
séu áhugaverð og gefandi.
Sögupersónurnar eru brennd-
ar af tengslaröskun í æsku
KARLMIÐUÐ SAGA OG FEÐRAVELDIÐ ALLSRÁÐANDI
Borgarfjörður Stytta Snorra Sturlu-
sonar í Reykholti, gerð af hinum norska
myndhöggvara Gustav Vigeland.
SPURT &
SVARAÐ
BEINT
o p i n n f u n d u r m e ð
Þ ó r d í s i K o l b r ú n u
Á f a c e b o o k - s í ð u
S j á l f s t æ ð i s f l o k k s i n s
í d a g k l . 1 2 . 0 0
f a c e b o o k . c o m / s j a l f s t a e d i s x d . i s