Lögmannablaðið - 2020, Page 29

Lögmannablaðið - 2020, Page 29
LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 04/20 29 Ef lögmaður kann málið vel og þekkir lögin þá ætti vel að ganga. Svo lengi sem hann hefur gott mál að flytja. Saga úr Hæstarétti Þann 14. október sl. flutti ég mál í Hæstarétti nr. 19/2020; þb. EK1923 ehf. gegn Sjöstjörnunni ehf. og gagnsök. Hafði skjólstæðingur minn tapað málinu í héraðsdómi Reykjavíkur en unnið í Landsrétti. Áfrýjunarleyfi var veitt og málið var flutt í þriðja sinn fyrir æðsta dómstóli landsins, Hæstarétti Íslands. Var ég þar til varnar. Í málflutningi í Hæstarétti vék lögmaður gagnaðila ekki einu orði að aðal- eða varakröfu sinni en þær kröfur snéru að því hvort hægt væri að rifta tilteknum ráðstöfunum vegna skiptingar á fasteign út úr félagi á árinu 2014. Vék lögmaðurinn ekki að þeim kröfum einu orði eða málatilbúnaði að baki þeim. Allur málflutningur gagnaðila fór í þrautarvarakröfu sem var í stuttu máli innheimta meintrar skuldar en það var sú krafa sem héraðsdómur hafði fallist á en Landsréttur snúið við. Ég flutti málið til varnar og svaraði því til sem gagnaðili hafði fram að færa, enda snýst munnlegur málflutningur um það að svara því sem málið fjallar um. Fékk ég fáeinar spurningar sem ég átti í engum vandræðum með að svara en þær snéru ekki að því sem málið var dæmt á enda ekkert á þær kröfur minnst. Var ég reyndar stoppaður í málflutningi en forseti réttarins hafði, fyrir mistök, dregið verulega framúrkeyrslu gagnaðila frá mínum málflutningstíma, en bakkaði síðar með það. Það er á sama tíma umhugsunarvert að kollegi minn hafi farið verulega framyfir sinn tíma án þess að hann hafi fengið athugasemdir eða verið stoppaður. Ég viðurkenni að ég var virkilega ánægður með dagsverkið að loknum málflutningi. Var nokkuð sigurviss. En það er ekki gott að vera dómari í eigin sök. Dómur féll í málinu þann 29. október sl. Þar var niðurstöðu Landsréttar snúið við. Dómurinn féllst á varakröfu áfrýjanda, þótt ekki hafi verið einu orði að henni vikið í munnlegum málflutningi og málið því ekki að neinu leyti flutt um þá kröfu að efni til. Niðurstaðan var að tiltekin ráðstöfun á árinu 2014 hafi falið í sér gjafagerning í skilningi 131. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 þar sem gefandinn hafi verið ógjaldfær þegar hún átti sér stað. Þessu var aldrei haldið fram í munnlegum málflutningi og skriflegum rökum þar að lútandi var ítarlega svarað. Mun ég fara nánar yfir efnisatriði dómsins á öðrum vettvangi síðar, hvernig túlkun á hugtakinu gjaldfærni hefur breyst og hvernig sönnunarkröfur eru orðnar í þessum málaflokki að mati Hæstaréttar. Það sem er erfitt að skilja Það sem er sérstaklega erfitt að skilja fyrir lögmanninn er að þessi álitamál komu aldrei fram í málflutningi í Hæstarétti. Um þessi atriði var aldrei spurt á vinnufundinum og var ekkert við þeim hreyft af hálfu gagnaðila. Er þetta sérstaklega bagalegt í ljósi nýrrar stöðu Hæstaréttar þar sem málum fyrir þeim dómstóli hefur fækkað mjög. En þau mál sem tekin eru til meðferðar eiga að veita dómurum hans svigrúm til að kveða upp vandaða og fordæmisgefandi dóma. Að mati þess sem þetta ritar er það ansi fjarri lagi hvað varðar umræddan dóm. Það hefði verið gott að nýta vinnufundinn til þess að fara yfir þessi atriði sem Hæstiréttur telur eftir á að hafi skipt höfuðmáli en áfrýjandi sleppti að nefna, líkt og það hvort félagið hafi verið gjaldfært þegar hinar umþrættu ráðstafanir áttu sér stað. Það er afar sérstakt að afgreiða mál í kjölfar vinnufundar á atriði sem hvorki var borið upp á fundinum og því síður rætt. Nú þekki ég ekki hvernig það var á tímum forn-Grikkja en það má velta því fyrir sér hvort það samræmist 3. mgr. 186. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 að dæma mál á atriði sem aldrei er vikið að í málflutningi. Það hlýtur að vera – eða í öllu falli ætti að vera – megintilgangur vinnufundarins að ná fram rökræðum og sjónarmiðum beggja aðila um stærstu álitaefnin fyrir úrlausn málsins og það ætti að vera mikilvægur hlekkur í því að tryggja vandaða málsmeðferð. Auk þess sem ekki var vikið einu orði í málflutningi að ásökunum um gjafagerning, sem Hæstiréttur byggir niðurstöðu sína alfarið á, þá var þeim alfarið hafnað á fyrri dómstigum af samtals sex dómurum en á báðum lægri dómstigum var ítarlegur málflutningur um þau atriði af hálfu beggja aðila. Ef vinnufundurinn á að ná markmiði sínu þá verða allir að taka þátt í honum. Dómararnir í Hæstarétti líka og þeir eru ekki yfir það hafnir. Kannski endurspeglar þetta viðhorf ákveðið virðingarleysi dómara Hæstaréttar fyrir starfi lögmanna? Mögulega fer virðing í garð þeirra þverrandi á móti. Við sem störfum á þessum vettvangi verðum að vinna að því að slíkt gerist ekki enda þarf að tryggja undirstöður réttarríkisins eins vel og hægt er. Ber að lesa þetta greinarkorn mitt í því ljósi. Það eina sem ég get huggað mig við í lokin er að ég get í fullri einlægni sagt og sannað að málið tapaðist allavega ekki í málflutningi.

x

Lögmannablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.