Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2017, Page 26
25GENGIÐ Á REKA – FORNLEIFAFRÆÐI MANNALDAR
Þá drífur að úr ókunnum áttum og þeir vitna ekki um menningarlegar
aðstæður á fundarstað. Hugtök eins og uppruni, tegund, og gerðfræði, verða
því beinlínis fjarstæðukennd andspænis stöðugu reki, niðurbroti, volki, og
nýsköpun þessara hluta. Þeir neita því að láta fella sig við eina skilgreiningu
eða tjóðra sig við einn uppruna.
Hreyfanleiki, dreifing, árekstrar og samblöndun menningarstrauma hafa
reyndar lengi verið viðfangsefni fornleifarannsókna, ekki síst undir áhrifum
kenningaramma síðnýlendustefnu (e. post-colonialism). Slíkur hreyfanleiki
orsakast hins vegar iðulega fyrir beint tilstilli manna. Hann getur vissulega
verið valinn eða þvingaður, en hann má engu síður rekja til vísvitandi
gjörða og athafna manna, og það er þangað sem við sækjum merkingu.
Með öðrum orðum, hlutir ferðast ekki á eigin vegum. Ef þeir gera það, líkt
og í tilviki hafreks, er það gjarnan álitið vera fyrir mistök, og ferðir þeirra
breytast í glötun, afvegaleiðingu, mengun o.s.frv. Þetta á raunar ekki bara
við um hluti. Ferðir fólks í nútímasamfélagi eiga helst að falla að ákveðnum
reglum, þar sem uppruni og áfangastaður eru skýrt skilgreindir.44 Að
vera á f lakki er beinlínis neikvætt og tortryggilegt að f lestu leyti, en þess
verður ekki síst vart í umræðu um Sígauna og Rómafólk. Það má vera að
söluskrifstofur slái um sig með slagorðum á borð við, „it’s the journey, not
the destination“ – en raunin er önnur. Að vera á stöðugu f lakki, hvorki að
koma eða fara, án uppruna eða áfangastaðar, er litið hornauga, ef það er
ekki benlínis ólíðandi, í nútímasamfélagi.
Flakk og rek, tilviljunakenndir árekstrar og samblöndun, óljós uppruni
og óræðir áfangastaðir eru „vandamál“ sem hlutgerast í rekafjörunni
og áskoranir sem fornleifafræði mannaldar þarf að takast á við. Ekki þó
einungis í þeim tilgangi að leysa úr þeim, leiðrétta „afvegaleiðingu“, rekja
uppruna og koma hlutum á réttar brautir, heldur einmitt til þess að leita á
nýjar brautir þar sem rek og f lakk hafa tilgang og merkingu. Með því að taka
alvarlega hvernig hlutir ferðast á eigin vegum, með fulltingi hafstrauma,
sólarjóss og vinda, annarra hluta og dýra, má leitast við að skilja hvernig
ómennsk sambönd, eru mikilvæg og merkingarbær í sjálfu sér. Og í kjölfar
þess fylgir líka að skoða hvernig snyrtileg og skipulögð framvinda tímans
er kannski sjónarspil fremur en púsluspil. Það er, að óreiða rekafjörunnar
sé ef til vill ekki aðeins til vitnis um afvegaleiðingu og glötun, heldur um
upplifun og framvindu tímans á öllum tímum.45
44 Þetta á raunar ekki bara við um nútímann, samanber viðhorf til utangarðsfólks og flakkara fyrr á
tímum.
45 Þ.e. þótt þetta verði svo bersýnilegt í efnisheimi fjörunnar eru tímaflakk og rek fyrirbæri sem geta
ekki síður átt við um önnur og hefðbundnari fornleifafræðileg samhengi.