Bæjarins besta


Bæjarins besta - 20.12.2001, Blaðsíða 21

Bæjarins besta - 20.12.2001, Blaðsíða 21
FIMMTUDAGUR 20. DESEMBER 2001 21 Með ömmu á Þingeyri. neinu sérstöku hægindi! Það má ekki rugla því saman. Og satt að segja hefur það farið mjög vaxandi, að óskað er eftir þátttöku forsetans í fjöl- þættum atburðum, málþing- um og samkomum; að hann leggi margvíslegum málefn- um lið; ávarpi fundi, þing og ráðstefnur. Og þá er betra að forsetinn hafi eitthvað til mál- anna að leggja!“ Margir leita til forsetans „Ég held að það sé í raun og veru ógerlegt að gegna þessu embætti án þess að fram komi áherslur forsetans á ýmsum sviðum. Þær eru kannski ekki tengdar hinni daglegu baráttu á vettvangi þjóðmálanna. Þær snerta hins vegar hvernig við metum framtíð okkar sem þjóðar, hvað við teljum mikil- vægt, hvernig málum er raðað; umhverfismálum, málefnum fjölskyldunnar, hag lands- byggðar, þróun atvinnulífsins, svo ég nefni fáein atriði. Í tíð fyrstu forsetanna var þjóðlífið með öðrum brag. Þá skiptist samfélagið upp í harð- ar pólitískar blokkir. Þar hefur orðið gjörbreyting á síðustu tveimur áratugum eða svo. Mikill fjöldi nýrra samtaka hefur komið til sögunnar. Mörg þeirra málefna sem þjóðin lætur sig miklu varða snerta ekki beint starfsemi stjórnmálaflokkanna. Margir leita til forsetans. Þess vegna hef ég stundum orðað það svo, að þótt forsetinn taki ekki þátt í hinni daglegu önn á vettvangi stjórnmálanna, þá er ætlast er til að hann sé virkur þátttak- andi í hinni breiðu umræðu um vegferð og framtíð ís- lenskrar þjóðar, um þau mál- efni sem fólkið í landinu telur mikilvæg. Ef forsetinn kæmi á vettvang ár eftir ár og hefði ekkert að segja, þá er ég hræddur um að mörgum myndi fljótt finnast embættið vera innantómt. Ég er sannfærður um að allur þorri þjóðarinnar vill vita af því hvað forsetinn er að hugsa og hvaða áherslur hann telur mikilvægar. Þess vegna er meðal annars leitað eftir því að hann leggi orð í belg. Ég hef ekki slegið tölu á þau ávörp og ræður sem ég hef flutt á umliðnum árum, en það er oft í hverjum mánuði, stundum oft í hverri viku. Ef þessi texti er grandskoð- aður, þá kemur í ljós, að þar er að finna margvíslegar áhersl- ur. Ég hef til dæmis í ferðum mínum um landið, þegar ég hef heimsótt byggðarlögin, reynt að víkja að vanda lands- byggðarinnar, stöðu atvinnu- lífs og menntamála og ýmsum öðrum hagsmunamálum land- sbyggðarinnar, á þann hátt að reyna að greina hvað er mikil- vægt og koma því áleiðis hvernig fólkið í byggðarlög- unum getur sameinast um það að treysta sína framtíð. Þetta hefur mér fundist ögrandi verkefni. Mér hefur líka fund- ist það mjög hollt að hverfa af þessum vettvangi daglegra stjórnmála og fá tækifæri til að horfa á það sem þar gerist af öðrum sjónarhóli, að skynja hve stór hluti af því sem verið er að gera í okkar þjóðfélagi og hefur mikil áhrif á framtíð þess fer fram utan við ákvarðanir eða umfjöllun í hinum formlegu stofnunum stjórnmálanna, hvort sem það er á Alþingi, í sveitarstjórnum eða stjórnmálaflokkum. Satt að segja hefur það kom- ið mér nokkuð á óvart, að átta mig á því hve hratt þessi breyt- ing hefur orðið á allra síðustu árum, hve fjölþætt samfélagið er orðið og hve öflugir ger- endur það eru, bæði í menn- ingarlífi, velferðarmálum, umhverfismálum, atvinnulífi, sem hafa áhrif á framtíðar- þróun íslensks samfélags án þess að það komi nokkurn tímann á borð hinna formlegu ákvarðanastofnana stjórnkerf- isins. Þótt forsetinn eigi með réttu ekki að efna til ófriðar og sitji í þeim skilningi á frið- arstóli, þá held ég að það sé mikilvægt að hann sé virkur þátttakandi með opinn huga, hógværð og yfirsýn, í því sem brennur á þjóðinni þegar hugs- að er til framtíðarinnar.“ Heimsmyndin og samfélagið breytast – Hvernig mætti draga sam- an þær breytingar sem hafa orðið á embætti forsetans frá því að Sveinn Björnsson mót- aði það í öndverðu og þar til nú og hvernig hinar miklu samfélagsbreytingar hafa ásamt handhöfum embættis- ins tekið þátt í þeim breyting- um? „Það er erfitt að lýsa því í stuttu máli. Hins vegar var hlutur Sveins Björnssonar mjög mikilvægur í því að móta embættið. Í raun og veru á eftir að skrá þá sögu eins og þarf. Hann fékk það verkefni að fylgja þeim bókstaf sem stjórnskipun landsins bauð og klæða embættið í þann búning sem sæmdi nýfrjálsri þjóð. Hins vegar var íslenskt þjóðfélag og eðli alþjóðamála í tíð Sveins Björnssonar, Ás- geirs Ásgeirssonar og Krist- jáns Eldjárns með allt öðrum hætti en við þekkjum á okkar tíð. Íslenskt þjóðfélag var miklu fábrotnara, stjórnmála- baráttan var harðari og ein- kenndist af skýrum víglínum sem settu svip sinn á at- vinnulífið; fyrirtækin voru tengd pólitískum flokkum og verkalýðsfélögin líka. Þessi blokkaskipting setti nánast svip sinn á allt þjóðfélagið. Kalda stríðið var í algleymingi og alþjóðleg samskipti við aðra en nágranna okkar í Evr- ópu eða Bandaríkin voru til- tölulega fábrotin og sjaldgæf. Í tíð Vigdísar Finnbogadótt- ur breyttist þessi heimsmynd og íslenskt þjóðfélag einnig. Þær breytingar hafa haldið áfram í minni tíð og setja nú forsetaembættinu allt annan starfsramma en var á fyrstu áratugum lýðveldisins. Nú er í þjóðfélaginu, eins og ég nefndi, mikill fjöldi samtaka almennings og áhugamanna sem óskar eftir þátttöku for- setans í starfsemi sinni með margvíslegum hætti. Við höf- um sem þjóð samskipti við aðrar þjóðir bæði tíðar, nánar og víðar en á fyrstu áratugum lýðveldisins. Kalda stríðinu er lokið og það hefur haft í för með sér, að sá sess, sem litlar þjóðir fengu sjálfkrafa vegna þess hvar þær skipuðu sér í fylkingu, er horfinn. Mér finnst það vera mjög áberandi, að í upphafi 21. ald- ar er staðan orðin sú, að fá- mennar og meðalstórar þjóðir þurfa að hafa mikið fyrir því að halda sínum hlut, minna á sig og koma sínum málum áfram. Í þeim efnum hefur forsetaembættið orðið virkur þátttakandi – að tryggja og styrkja stöðu og hagsmuni Íslands í samfélagi þjóðanna, bæði með framgöngu á er- lendum vettvangi og eins með viðræðum við þann mikla fjölda fólks sem hingað kem- ur. Hin daglega önn forsetans er orðin allt önnur á okkar tíð en var á fyrstu áratugum lýð- veldisins. Það sést mjög ræki- lega þegar embættið er skoðað og verkefnin sem það sinnir nú borin saman við hina fyrri tíð. Vandinn er hins vegar sá, að það er engin forskriftarbók að því hvernig þetta skuli gert. Hver og einn forseti hefur orð- ið að treysta á sína dómgreind í þessum verkum, sitt eigið mat, feta sig áfram.“ Fyrir utan Túngötu 3 á Ísafirði. Myndin í fjölmiðlum er takmörkuð „Sumir fyrirrennara minna, eins og Sveinn og Ásgeir og Kristján, glímdu við mikla erf- iðleika í stjórnmálalífi þjóð- arinnar, tíð stjórnarslit, erfiðar ríkisstjórnarmyndanir, jafnvel að þurfa sjálfir að mynda rík- isstjórnir eins og Sveinn Björnsson þurfti að gera; eða hóta því að mynda utanþings- stjórn innan viku eins og Kristján Eldjárn varð að gera 1980; eða eins og Ásgeir að beita áhrifum sínum og sam- böndum við forystumenn stjórnmálaflokkanna til að stuðla að myndun varanlegrar ríkisstjórnar þegar landið hafði glímt við stjórnarkreppu í langan tíma. Nú hefur Alþingi blessun- arlega tekist á síðari árum að mynda ríkisstjórnir með far- sælli hætti, þannig að þessi þáttur í starfi forsetans hefur vikið til hliðar, hvort sem hann á svo eftir að koma aftur á dagskrá síðar meir. Tíminn leiðir það í ljós. Önnur verkefni sprottin úr því fjölþætta samfélagi sem við búum í, sem og alþjóðleg, hafa bæst við verkaskrá for- setans. Mér hefur fundist það vera stundum dálítið erfitt en afar spennandi verkefni, að feta sig áfram eftir þessari braut, reyna að leggja þeim lið sem leita eftir aðstoð. Margt í störfum forseta Ís- lands kemur hvergi fram í fjöl- miðlum. Sú mynd sem birtist af forsetaembættinu í gegnum fjölmiðlana er mjög takmörk- uð enda viðfangsefnin af þeim toga að fjölmiðlar eru ekki á vettvangi – trúnaðarsamtöl við innlenda og erlenda ráða- menn, samtöl við einstaklinga og fulltrúa samtaka, sem koma á fund forsetans; stund- um fólk með miklar áhyggjur og persónulega erfiðleika. Ekkert af þessu er til frá- sagnar í fjölmiðlum. Mynd fjölmiðla sýnir aðeins yfir- borðið; oft er það meira bund- ið við hátíðleg tækifæri eða hina formlegri atburði. Þannig verður þetta auðvitað áfram. Ef ætti að draga svarið sam- an í stuttu máli, þá býr for- setaembættið annars vegar að þeirri kjölfestu sem er í stjórn- skipun landsins og þeim hefð- um sem myndast hafa – þessi kjölfesta er afar mikilvæg og hana ber að varðveita – og hins vegar er embættið í sam- felldri þróun og tekur breyt- ingum í takt við þróun íslensks samfélags og umheimsins. Vandi hvers forseta er að finna jafnvægið milli þess að kjöl- festan sé áfram traust og vera virkur þátttakandi í örlögum þjóðarinnar og glímunni við að treysta hag Íslendinga í samfélagi þjóðanna.“ Tómstundir og friðhelgi einkalífsins – Ef við víkjum að persónu- legri hlutum – hvernig er tómstundum forsetans helst varið. Gefast honum yfirleitt einhverjar tómstundir að ráði? Gefst honum tími til einkalífs? Getur hann notið friðar og frí- tíma utan við embættið og skyldur þess? „Tómstundir eru strjálar í þessu starfi, vinnan samfelld þótt hún sé mjög ólík frá ein- um degi til annars, frá einni dagstund til annarrar. Auk þeirra verka sem ég sinni þarf ég að lesa mjög mikið, ekki aðeins blöð og tímarit og ann- að sem veitir fróðleik um það sem er að gerast í samfélag- inu, heldur líka bækur sem út koma, bæði hérlendis og er- lendis, til þess að geta fylgst með, bæði í menningarlífi, fræðilegri umræðu og í heims- málunum. Hver stund dagsins er bundin við eitt og annað sem starfinu tengist og vinnu- dagurinn oft ærið langur, allt frá því snemma morguns og langt fram á kvöld, og oft alla daga vikunnar. Margt af því sem ég þarf að sinna er um helgar. 51.PM5 19.4.2017, 09:5221

x

Bæjarins besta

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bæjarins besta
https://timarit.is/publication/1104

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.