Gisp! - 12.03.2005, Blaðsíða 11
í augum margra fullorðinna eru myndasögur
lítið annað en löngu gleymd æskuskemmtun eða tilefni smá hláturs yfir dagblöðunum.
En víða um heim er viðhorfið annað, þar sem myndasögur hafa orðið að bókum sem eru prentaðar á gæðapappír og í öllum
litum, líkt og hefðbundnar skáldsögur; Hér á landi höfum við kynnst þessu lítillega í gegnum bækur um ævintýri Tinna og
Ástríks, og til vitnis um breytt viðhorf má einnig nefna fjölda af amerískum myndasöguhetjum, sem hafa orðið
að vinsælum kvikmyndum á síðustu árum.
Frakkar hafa lagt í vana sinn að draga fram
vitsmunalegu hliðina á dægurmenningu og viðurkenna þá snilld sem liggur að baki, og það er einkum
fyrir menningarumræðu í Frakklandi sem myndasagan hefur á síðustu áratugum notið vaxandi athygli sem viðurkennt listform
undir heitinu bande dessinée (þýtt beint: röð teikninga) eða B.D. í styttingu
- og sem hefur orðið að ástríðu meðal frönsku þjóðarinnar.
Eftir maí 1968 snéru vinstrisinnaðir menningarvitar Frakklands
á vinstri bakkanum í París menningunni á haus, og í þessu magnþrungna andrúmslofti nutu myndasögusmiðir frelsis til
að kynna afar fjölbreytt viðfangsefni og stíla inn í form myndasögunnar. Gagnrýnendur fjölluðu um myndasöguna sem
fullgildan og sjálfstæðan listmiðil, hlaðinn möguleikum, og nefndu hana ‘níundu listina'.
Myndasöguhöfundar og listamenn urðu stjörnur sem var hampað í fjölmiðlum
og voru heiðraðir í listheiminum.
Á þessum grunni urðu til fjölmargar háþróaðar og áreitnar myndasögur í ýmsum löndum heims,
gerðar af frábærum listamönnum og frumlegum höfundum, og sem ekki voru aðeins ætlaðar æskufólki heldur einnig
gagnrýnum lesendum. í höndum þessara listamanna urðu myndasögur óvænt að öflugum miðli ímyndunarinnar, sem tengir
saman andríki og blæbrigði vandlega valins texta við mikilfenglegar og örvandi myndir, og blandar þannig saman hinu besta
úr hinu myndræna og talaða máli í lifandi, margslungnar sögur,
þar sem orka ritmáls og myndar margfaldast.
Myndasögur hafa á síðustu áratugum notið hljóðlátrar en vaxandi athygli á íslandi,
og heil kynslóð listamanna hefur helgað sig þessum listmiðli, ‘níundu listinni’, og unnið í alþjóðlegu samhengi miðilsins.
í þessari alþjóðlegu sýningu í Listasafni Reykjavíkur fögnum við myndasögunni sem listgrein, og kynnum til sögunnar sumt
af því besta og mest ögrandi sem er verið að gera á þessu sviði. Við rannsökum einnig hvaða áhrif myndasögur hafa haft á
aðra myndlist, einkum í gegnum verk Erró, sem er einn af fjölmörgum listamönnum sem hafa sótt innblástur og myndrænar
tilvísanir í ‘níundu listina'.
Njótið vel.
EIRÍKUR ÞORLÁKSSON
forstöðumaður
Listasafns Reykjavíkur