Hinsegin dagar í Reykjavík - ágú. 2020, Blaðsíða 55
Föstudagskvöldið 22.
september 2017 var spenna
og eftirvænting í loftinu í
úthverfi Kaíró, höfuðborgar
Egyptalands, þar sem 35
þúsund manns höfðu safnast
saman undir berum himni
til að berja augum eina
frægustu rokkhljómsveit
Arabaheimsins:
Mashrou’ Leila. Líbönsku
fjórmenningarnir í Mashrou’
Leila hafa starfað saman
frá 2008 og á síðustu árum
vakið eftirtekt um gervallan
Arabaheiminn sem og utan
hans fyrir grípandi, dansvæna
tónlist sem sker sig úr í annars
nokkuð einsleitum heimi
arabískrar dægurtónlistar.
Þeir þykja fremstir í nýrri öldu
arabískra rokkara.
En sveitin hefur einnig
vakið athygli — jákvæða og
neikvæða — fyrir beinskeytta
texta sem taka á erfiðum
samfélagsmálum: spillingu,
fátækt, ofríki yfirvalda
og réttindum kvenna og
hinsegin fólks. Söngvara
Mashrou’ Leila, Hamed
Sinno, hafa einhverjir líkt við
Freddie Mercury, ekki aðeins
vegna sönghæfileika hans og
þess að hann skartar jafnan
yfirvaraskeggi — heldur
er Sinno hinsegin og talar
opinskátt um það, einn
sárafárra frægðarmenna í
Arabaheiminum sem gerist
svo djarfur. Það hefur ekki
verið bandinu átakalaust. Þeir
eru umdeildir víðast hvar í
íhaldssömum samfélögum
Arabaheimsins. Árið 2016
var Mashrou’ Leila til að
mynda meinað að koma
fram í Jórdaníu, þar sem
þeir eiga skara aðdáenda,
vegna andstöðu jórdanskra
þingmanna við kynhneigð
Sinnos. Fyrirhuguðum
tónleikum á menningarhátíð
í heimalandi þeirra Líbanon
í ágúst 2019 var aflýst
eftir mótmæli kristinna
trúarleiðtoga. Á síðari árum
hefur sveitin mest komið
fram í Evrópu og Norður-
Ameríku, þótt aðdáendurnir
séu eftir sem áður flestir í
Miðausturlöndum.
Litadýrð og regnbogafánar
Þetta föstudagskvöld í
Kaíró 2017 voru tvö ár síðan
Mashrou’ Leila spilaði síðast
í Egyptalandi og aðdáendur
tóku vel undir við frægustu
lög sveitarinnar. Risaskjáir
blikkuðu og útisviðið glitraði
í litum og ljósum. Svo juku
nokkrir ungir aðdáendur
enn á litadýrðina —
drógu upp regnbogafána
hinsegin fólks og veifuðu
yfir mannskaranum. „Þetta
kvöld var töfrum líkast,“
sagði söngvarinn Sinno
síðar. Tónleikunum lauk og
áhorfendur héldu heim á leið,
margir í gleðivímu — ekki
aðeins yfir tónlistinni, heldur
vegna þess að þetta var í
fyrsta sinn sem þau höfðu
séð regnbogafánanum veifað
opinberlega í Egyptalandi.
„Enginn var hræddur.
Við upplifðum frelsi í eitt
andartak. Við vorum að gera
eitthvað sem við höfðum
haldið að við gætum aldrei
gert,“ sagði einn ungu
fánaberanna, Ahmed Alaa, í
viðtali síðar meir. Hann lýsti
þessu sem einhverjum bestu
mínútum lífs síns. „Við vorum
eins og keisarar í okkar eigin
keisaradæmi. Við vorum
að sigrast á hatri. Eins og
enginn gæti stöðvað okkur.“
Eflaust fór hann svo sáttur til
sængur en morguninn eftir
vaknaði Alaa við að myndir
af honum og félögum hans
með fánann á tónleikunum
voru alls staðar í egypskum
fjölmiðlum. Og það kom ekki
til af góðu.
Hundruð fangelsuð fyrir
„siðspillingu“
Ólíkt ýmsum öðrum ríkjum
í þessum heimshluta er
samkynhneigð ekki beinlínis
bönnuð með lögum í
Egyptalandi. Það hefur þó
aldrei reynst egypskum
stjórnvöldum erfitt að
ofsækja samkynhneigða,
trans fólk og annað hinsegin
fólk með ýmsum öðrum
lagalegum leiðum. Yfirleitt
bera yfirvöld fyrir sig
áratuga gömul lög gegn
„siðspillingu“, sem einnig
hafa verið notuð til að
ofsækja fólk í kynlífsvinnu.
Samkvæmt skýrslu egypsku
mannréttindasamtakanna
Egyptian Initiative for
Personal Rights (EIPR) voru
185 handtekin þar í landi og
sökuð um „siðspillingu“ eða
að „hvetja til siðspillingar“
á árunum 2000 til
2013 — langflest þeirra
samkynhneigðir karlmenn og
trans konur.
Árið 2013 steypti egypski
herinn, með herforingjann
Abdel Fattah Al-Sisi í broddi
fylkingar, fyrsta og eina
lýðræðislega kjörna forseta
Egyptalands, íslamistanum
Mohamed Morsi, af stóli. Æ
síðan hafa Al-Sisi, sem nú
er forseti, og stjórn hans
unnið að því að herða tök
sín á egypsku samfélagi
og reynt að slökkva alveg
þær vonarglætur lýðræðis
og mannréttinda sem
kviknuðu í arabíska vorinu
og mótmælunum á Tahrir-
torginu í Kaíró 2011. Meðal
annars hefur Al-Sisi ofsótt
hinsegin fólk af auknum
krafti, líklega í von um að
ganga þannig í augun á
íhaldssömum trúaröflum í
egypsku samfélagi, sem enn
syrgja fall Morsis.
Í sömu skýrslu
mannréttindasamtakanna
55