Hinsegin dagar í Reykjavík - Aug 2020, Page 56
EIPR, frá vorinu 2017, segir
að frá árslokum 2013 og
fram í mars 2017 hafi að
minnsta kosti 232 Egyptar
verið handteknir fyrir
meinta siðspillingu — fleiri
á tæpum þremur og hálfu
ári en síðustu þrettán árin
þar á undan. Í meirihluta
tilvika voru handtökurnar
afrakstur grimmilegrar
tækni sem siðferðisdeild
egypsku lögreglunnar
notar til að ná í hinsegin
fólk og byggist bókstaflega
á að veiða það í gildru.
Lögreglumenn fara þá huldu
höfði á samfélagsmiðlum
og stefnumótasíðum þar
sem karlar geta sóst eftir
kynnum við aðra karlmenn
eða trans konur. Lokka svo
fórnarlambið á stefnumót,
þar sem það er handtekið.
Þau sem verða uppvís um
slíka „siðspillingu“ geta átt
yfir höfði sér margra ára
fangelsisdóma.
Tugir handteknir
Egypskir fjölmiðar
loguðu. Myndin af
glöðu ungmennunum
með regnbogafánann á
tónleikunum fór út um allt.
Í frétta- og spjallþáttum í
útvarpi og sjónvarpi var þetta
uppátæki harðlega fordæmt.
Regnbogafáninn var,
samkvæmt álitsgjöfum þar,
tákn siðspillingar. Hinsegin
fólk var sagt almennt
hneigðara til glæpa en
aðrir sómakærir Egyptar —
eiturlyfjaneyslu og -sölu, rána,
morða. Hinsegin fólk væri jafn
hættulegt samfélaginu og
hryðjuverkamenn.
Stjórnvöld lögðu við hlustir
og sáu færi. Hljómsveitinni
Mashrou’ Leila var auðvitað
umsvifalaust bannað að
koma aftur fram í Egyptalandi
— tugþúsundum egypskra
aðdáenda til vonbrigða — en
öllu alvarlegra var að í hönd
fór einhver grimmilegasta
herferð stjórnvalda gegn
hinsegin fólki í landinu til
þessa. Á næstu dögum og
vikum voru að minnsta
kosti 75 ungar hinsegin
manneskjur handteknar
fyrir að hafa verið á hinum
alræmdu tónleikum Mashrou’
Leila eða tengst einhverjum
sem þar var. Eða eitthvað
svoleiðis — það þurfti
sjaldnast mikið tilefni.
Ahmed Alaa, sem hafði
upplifað bestu andartök
lífs síns þegar hann veifaði
regnbogafánanum yfir
mannfjöldanum, var
handtekinn 1. október,
rúmri viku eftir tónleikana.
Hann var í bíl með félaga
sínum þegar lögreglumenn
umkringdu bifreiðina, börðu
á húddið og skipuðu honum
að koma út. Svo var hann
fluttur í einangrunarklefa þar
sem hann var meira og minna
næstu þrjá mánuðina.
Vinkona Alaa, Sarah Hegazi,
28 ára forritari, var líka
handtekin. Þau höfðu kynnst
í samtökum sem börðust
gegn öðru samfélagsmeini í
Egyptalandi, heimilisofbeldi,
og deildu áhuga á að bæta
stöðu hinsegin fólks í
heimalandinu. Hegazi hafði
líka veifað regnbogafánanum
þetta kvöld. Annar
tónleikagestur náði mynd
af henni þar sem hún situr á
öxlunum á vini sínum með
fánann á lofti. Hún skælbrosir
— þetta var í fyrsta sinn á 28
ára ævi sem hún opinberaði
samkynhneigð sína fyrir
öðrum en sínum nánustu
ættingjum og vinum.
Óþefur og sársaukavein
Hegazi var handtekin heima
hjá sér. Lögreglumenn
bundu fyrir augun á henni
og fluttu hana á lögreglustöð
þar sem hún var pyntuð
með rafmagnslostum og
aðrir fangar hvattir til að
ráðast á hana, líkamlega og
kynferðislega. „Óþefur og
sársaukavein,“ skrifaði hún
síðar. „Ég sat í stól, hendurnar
á mér bundnar og tusku
troðið í munninn á mér af
einhverri ástæðu sem ég
skildi ekki. Ég sá engan og
enginn talaði við mig. Ekki
löngu síðar fékk ég krampa
og missti meðvitund, ég veit
ekki hvað lengi.“
Í fangelsinu var henni haldið
í einangrun dögum saman.
Fangaverðirnir vildu að hún
játaði að samkynhneigð
væri geðsjúkdómur.
Sökuðu hana um að tilheyra
ólöglegum samtökum. Eftir
þriggja mánaða varðhald
var hún loks látin laus gegn
tryggingu. Hún var heppin
— margir aðrir sem voru
handteknir þessa haustdaga
2017 fengu að endingu
áralanga fangelsisdóma.
En Sarah Hegazi var í raun alls
ekki heppin.
Áhrif arabíska vorsins
Í skýrslu Human Rights
Watch (HRW) frá 2018
um mannréttindabaráttu
hinsegin fólks í
Arabalöndunum vildu margir
aðspurðra ítreka að þó að
staðan væri víðast hvar slæm
væri mikilvægt að draga
56