Hinsegin dagar í Reykjavík - Aug 2020, Page 61

Hinsegin dagar í Reykjavík - Aug 2020, Page 61
Ástir miðaldra kvenna Hljómsveitina skipa þrettán konur: Anna Jóhannsdóttir, Elísabet Thoroddsen, Eva Lind Weywadt Oliversdóttir, Guðrún Jarþrúður Baldvinsdóttir, Hanna María Karlsdóttir, Helga Margrét Marzellíusardóttir, Herdís Eiríksdóttir, Hugrún Ósk Bjarnadóttir, Margrét Ágústa Þorvaldsdóttir, Margrét Grétarsdóttir og Þóra Björk Smith, ásamt þeim Hildi og Ragnhildi. Allar eru þær kórsystur úr Hinsegin kórnum en Helga Margrét er reyndar stjórnandi hans. Það var einmitt í einni örlagaríkri kórferð sem grunnurinn að hljómsveitinni var lagður. „Ukulellur voru góð hugmynd og enn betri framkvæmd og skemmtilegt hvað þetta varð metnaðarfull hljómsveit frá fyrstu stundu. Við vorum búnar að vera til í tvær vikur þegar við vorum á því að við værum svona hljómsveit sem semdi sjálf sína texta,“ útskýrir Hildur. „Það vantaði ekki kokhreystina,“ segir Ragnhildur. „Nei, en það má segja að það geri það svolítið skemmtilegt og maður er bara kátur á æfingum og það er alltaf gaman og allar stútfullar af orku. En líka bara stútfullar af metnaði, við erum virkilega að vinna á æfingum,“ segir Hildur. Það er erfitt að segja hver það var sem kom með hið lesbíska ukulele-æði til landsins en það hefur ekki farið framhjá mani á hinum ýmsu samfélagsmiðlum að ukuleleið er hinn nýi kassagítar. Það er því eðlilegt að velta því fyrir sér hvort ekki sé mikil ásókn nýliða í hljómsveitina. „Þetta er kallað að vera trendsetters,“ segir Hildur af miklu sjálfsöryggi og Ragnhildur stenst ekki mátið að leggja aukaáherslu á það: „Já, við erum áhrifavaldar.“ Þær segjast þó ekki vera að taka við nýjum meðlimum. „Ukulellur eru bara hljómsveit sem var búin til og þannig er hún. Það þarf ekki að breyta því sem gott er,“ segir Hildur og bætir spennt við: „Við hvetjum absalút til að stofnaðar verði fleiri ukulele- hljómsveitir og þá verður haldin lesbísk ukulele-hátíð.“ Það finnst þeim báðum frábær hugmynd og nokkur umræða skapast um málið. Það er engin leið að hafa hemil á þessu viðtali. „En sannarlega hvetjum við konur til að spila saman á ukulele því að það er gaman,“ segir Hildur og Ragnhildur heldur áfram: „Já, og mannbætandi. Ég hef skánað töluvert síðan við fórum að spila.“ Hildur kinkar kolli: „Ég get nú alveg vottað það. Ég hef reyndar líka skánað.“ Fylla í gat á markaðnum Síðustu tvö ár hefur hátt á fjórða tug texta orðið til en Hildur og Ragnhildur eru helstu textahöfundar hljómsveitarinnar, þótt Elísabet sé mjög að sækja í sig veðrið. Þegar ég spyr þær hvort mikil þörf sé á textum eins og þeirra, sem fjalla gjarnan um hluti eins og búkonuhár og hrukkótta rassa, svarar Ragnhildur að bragði: „Já, það er algjört gat á markaðnum. Þú hefur örugglega ekki orðið vör við margar hljómsveitir sem að syngja um þetta og þó er þetta eitthvað sem að þjakar helming mannkyns.“ Hildur bætir við: „Ég hef tekið eftir því að textinn um lesgleraugun hefur virkilega slegið í gegn. Sama hvar við höfum flutt hann kemur á daginn að fólk saknar þess að geta sungið um að það vilji ekki horfast í augu við hrörnun sína og aldurstengda fjarsýni.“ Þær segja að þetta séu þó ekki vinsælustu textarnir þeirra heldur séu það textar um miðaldra lesbíur. „Þar er líka gat í markaðnum, það er engin að syngja um vandamál miðaldra lesbía.“ “Vinsælustu textarnir okkar eru þessi sérhönnuðu lesbíutextar, eins og sagan af því hvernig lífið var á skemmtistaðnum 22 í gamla daga þegar við vorum ungar. Og textinn um dótakassa lesbíunnar sem fjallar um ást lesbíunnar á handverkfærunum sínum,“ Það er trúlega ekki verk fyrir mjög stjórnsamt fólk að taka viðtal við þær Hildi Heimisdóttur og Ragnhildi Sverrisdóttur en þær eru hluti af hljómsveitinni Ukulellur sem stofnuð var árið 2018. Þær kunna svo sannarlega að segja frá og það er vel skiljanlegt af hverju þær eru, eins og þær segja sjálfar, „málpípur hljómsveitarinnar“. Það erfiðasta við að taka viðtal við þær er að muna að þetta er viðtal og að það eru spurningar sem þarf að spyrja en gleyma sér ekki í húmorískum frásögnum þeirra. Aðspurðar um allt þetta grín og glens og hvort að það sé einhver alvara í textagerð þeirra segir Ragnhildur: „Það er engin alvara ef við mögulega komumst hjá því, það er andskotans nóg af henni í heiminum. En sannleikskorn, það er allt annað. Það er sannleikskorn en engin alvara.“ Hildur samsinnir þessu hlæjandi og segir: „Það er bara svo gaman að vera lesbía.“ Því mótmælir engin.

x

Hinsegin dagar í Reykjavík

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Hinsegin dagar í Reykjavík
https://timarit.is/publication/1512

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.