Hinsegin dagar í Reykjavík - aug. 2020, Síða 73
Guðrún Ögmundsdóttir, sem lést síðastliðinn gamlársdag, var þekktust
fyrir að vera baráttukona fyrir mannréttindum í störfum sínum sem
félagsráðgjafi, þingkona og borgarfulltrúi auk þess sem hún vann fyrir fjölmörg
mannréttindasamtök eins og UNICEF og Alnæmissamtökin (HIV-Ísland). Hennar
helstu málaflokkar voru kvenréttindabarátta og réttindi barna og fatlaðra en þar
að auki barðist hún fyrir hinsegin réttindum áratugum saman. Guðrún hlaut ótal
viður kenn ing ar fyr ir brautryðjanda störf í þágu mann rétt inda, m.a. riddarakross
Hinnar íslensku fálkaorðu 17. júní 2019 fyr ir fram lag í þágu mannúðar og jafn rétt-
is bar áttu hinseg in fólks. Hún talaði alltaf frá hjartanu og lagði allt sitt í það sem
hún trúði á.
Sumt fólk er þannig gert að nærvera þess lýsir allt upp. Gunna var ein af þeim.
Einstök og einlæg hugsjónamanneskja. Enginn gat staðist dillandi hláturinn, rámu
röddina og blikið í augunum. Þvert á pólitískar línur heillaðist fólk af henni og hún
gat fengið alla með sér í lið. Allir mátu heiðarleikann, töffaraskapinn, kærleikann
og mennskuna. Hún sá fólk, lét það skipta sig máli og heyrði í því, alveg sama
hvert það var eða hvaðan það kom.
Hún notaði þessa krafta alla tíð til að búa til betra samfélag. Henni fannst
ósanngjarnt að fólk fengi ekki sömu tækifæri í lífinu og barðist fyrir breytingum.
Hún sá fólk þegar enginn annar sá það. Fólk sem þurfti á breytingum að halda og
viðurkenningu á sínu lífi. Uppgjöf var ekki í boði af því að hún trúði því að allt væri
hægt með viljann að vopni. Gunna var algerlega óhrædd við að tjá skoðanir sínar
og barðist fyrir því sem hún brann fyrir, jafnvel þótt þær skoðanir væru ekki alltaf
vinsælar þegar hún tjáði þær. Það er af því að hún hlustaði, meðtók, dró sínar
eigin ályktanir og barðist fyrir þeim.
Gunna er þekktust fyrir það í hinsegin samfélaginu að hafa verið fremst í flokki
þegar kom að staðfestri samvist. Hún sá hverju þyrfti að breyta í lögunum, vann
skýrslur og keyrði málin í gegn í þinginu. Allra magnaðast var hins vegar hvernig
hún breytti hugarfari fólks með því að vera alltaf til staðar. Mæta á Hinsegin daga
og viðburði Samtakanna ’78. Ræða við fólk um málefni hinsegin fólks. Kerfi fyrir
fólk, ekki fólk fyrir kerfi, var mantra sem hún endurtók allt til síðasta dags. Guðrún
Ögmundsdóttir var ein okkar helsta stuðningskona og fyrirmynd í því hvernig
aðrir geta stutt hinsegin baráttu.
Á einum af okkar síðustu kaffifundum, þá þrotin að kröftum, spurði hún mig hvað
væri fram undan í baráttu hinsegin fólks. Ég útskýrði í stuttu máli hvað væri að
gerast og hverju við vildum breyta.
„Tótla mín, við bara gerum þetta. Við skulum alveg endilega bóka fund með
ráðherra á næstu dögum og bara keyra þetta í gegn. Þetta er bara ein eða tvær
reglugerðir. Ekkert mál elskan.“
Takk fyrir baráttuna og vináttuna!
Tótla I. Sæmundsdóttir
Í minningu
Guðrúnar
Ögmundsdóttu
r