Börn og menning - 2018, Blaðsíða 6
Börn og menning6
Barnalegir fullorðnir og fullorðinsleg börn
Eru einhverjar af barnaljóðabókunum ykkar í meira
uppáhaldi en aðrar?
„Mér er mjög hlýtt til allra barnaljóðabókanna. En ef ég
á að tiltaka einhverjar sérstaklega þá myndi ég kannski
nefna þá fyrstu, Óðflugu og svo þá nýjustu því hún er
enn svo mikið í huganum,“ segir Sigrún. „Grannmeti og
átvextir (2001) er líka uppáhalds. Þar setti Þórarinn sér
það mark að hafa 100 ljóð í bókinni og ég ákvað strax
að gera myndir við þau öll. Ekki skilja neitt út undan.
Það var heilmikil og skemmtileg áskorun.“
„Jú, ég hef alltaf verið stoltur af Grannmeti og átvöxt-
um. Sú bók var unnin á erfiðum tímum í lífi okkar. Svo
er hún svo stór. Ég hef alltaf verið meira fyrir magn en
gæði,“ segir Þórarinn.
Í framhaldi af þessu er kannski rétt að spyrja hver
„ósýnilegi lesandinn“ ykkar sé: Eruð þið að skrifa fyrir
barnið í ykkur sjálfum, börnin ykkar og barnabörnin
eða kannski bókagleypinn Guðmund á Mýrum sem
fannst „best að borða ljóð, en bara reyndar þau sem
eru góð“?
„Ég hef stundum sagt að „fullorðins“-ljóðin mín séu
fyrir barnalegt fullorðið fólk en barnaljóðin ætluð full-
orðinslegum börnum,“ segir Þórarinn.
„Ég skrifa nú aðallega fyrir mig sjálfa og mitt innra
barn. En auðvitað líka þá sem í kringum mann eru,
börn, barnabörn,“ svarar Sigrún. „Ég skrifa fyrir öll
börn, lítil og stór, gömul og ung.“
Á verkum ykkar sést vel að þið hafið bæði næma sýn á
það sem er absúrd eða skringilegt í tilverunni. Er það
meðfæddur eiginleiki?
„Já, ætli það sé ekki meðfæddur hæfileiki (eða galli)
að sjá hlutina auðveldlega í absúrd eða skringilegu
ljósi,“ segir Sigrún.
„Mesta vitleysan er oft óvitlaus ef að er gáð,“ segir
Þórarinn. „Samt er hún ekki öll eins, sem betur fer.“
Þau vilja hvorugt segja meira um þetta en gæti hugs-
ast að dálæti þeirra á absúrd hliðum tilverunnar stafi af
mataræðinu?
xxxxxx
Þórður gamli fékk flugu í hausinn
og fiðrildi í magann. Úr Ljóðpundara.
„Mesta vitleysan er oft
óvitlaus ef að er gáð,“ segir
Þórarinn. „Samt er hún ekki
öll eins, sem betur fer.“