Börn og menning - 2018, Blaðsíða 5
5Saman í blíðu og stríðu
óvænt sjónarhorn sem þurfa ekki að vera neitt sérstak-
lega flókin. Ef köttur segir „já“ ætti til dæmis að vera
augljóst að hann hefur mismælt sig.“
Vogin prýðir einmitt kápu nýju barnaljóðabókarinnar,
auk þess að endurspegla þann leik að samstæðum og
andstæðum og nýjum sjónarhornum á veruleikann
sem leynist milli spjaldanna. En hvernig er það annars,
Sigrún – fæst þú ekkert við að yrkja?
„Ég hef aldrei fundið hjá mér neina þörf fyrir að yrkja
ljóð,“ segir Sigrún. „Ég hef þó þurft að yrkja ljóð fyrir
hönd persóna í sögum mínum. Það voru ljóð sem áttu
að vera dálítið hallærisleg og mér tókst það vel, þótt ég
segi sjálf frá. Svo gerði ég söngtexta fyrir leikrit sem sýnt
var í Þjóðleikhúsinu um Kugg og Málfríði og mömmu
hennar. Ég hélt að ég myndi eiga erfitt með það en viti
menn, textarnir runnu bara upp úr mér eins og ekkert
væri, með rími og höfuðstöfum og stuðlum og hvað-
eina. Þannig að hver veit hvað framtíðin ber í skauti
sér!“
Við bíðum spennt!
Þú ert hins vegar afkastamikið skáld, Þórarinn, og
sendir einmitt frá þér elleftu „fullorðins“-ljóðabók
um daginn, Vammfirringu. Er einhver munur á því að
yrkja fyrir börn og fullorðna? Leikurðu þér eins mikið
að orðum í fullorðinsljóðunum og þú gerir fyrir börn?
Hvort er skemmtilegra?
„Það er svo sem enginn verulegur munur þar á. Enda
sum ljóðin þannig að vandséð er hvort þau tilheyra ein-
hverju einu aldursskeiði fremur en öðru,“ segir Þórar-
inn og aftekur með öllu að fara nánar út í þá sálma.
xxxxx
Silfurlykillinn er nýjasta
bók Sigrúnar.
Nýtt samvinnuverkefni
systkinanna.
Sigrún og Þórarinn Eldjárn,
heiðursgestir Mýrarinnar í ár.
Ljósmynd: Marloes Robijn.