Morgunblaðið - 01.07.2021, Page 21
FRÉTTIR 21Innlent
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 1. JÚLÍ 2021
+ + + = 19.990 kr.
A L LT ÓTA K M A R K A Ð
ekki vanar því að þurfa að binda
fjármagn í jafn langan tíma og fisk-
eldið krefst. Stundum hafi verið
hægt að borga bátinn upp á einni
vertíð. Það sé meiri skuldbinding að
fara inn í fyrirtæki sem sé að fjár-
festa í ígildi eins tugs togara.
Málin þróðust þannig hjá Arctic
Fish að fyrst kom viðskiptafélagi
Novo Food, pólski fjárfestirinn
Jerzy Malek, inn í fyrirtækið með
stofnendunum og fimm árum síðar
norska fiskeldisfyrirtækið Norway
Royal Salmon (NRS) sem við skrán-
ingu á hlutabréfamarkað eignaðist
meirihluta hlutafjár.
Með fjárfestunum kom ekki að-
eins fjármagn til uppbyggingar
heldur einnig reynsla og þekking á
laxeldi. Nefnir Sigurður að Jerzy
hafi fjárfest í eldisfyrirtækjum víða
um heim og komið upp tæknibúnaði
fyrir fiskeldi og byggt upp vinnslur.
NRS hafi komið inn með þekkingu á
laxeldi á köldum svæðum. Það hafi
hjálpað fyrirtækinu í sinni sókn.
Sigurður fullyrðir að ef erlendir
fjárfestar hefðu ekki komið að fyr-
irtækjunum væri þessi atvinnugrein
ekki svipur hjá sjón. Hann viður-
kennir þó að vissulega sé það eftir-
sjá að hafa ekki getað fengið inn-
lenda fjárfesta meira að félaginu.
Nú sé félagið á hlutabréfamarkaði
og því möguleikar til dreifðara eign-
arhalds og meiri þátttöku innlendra
fjárfesta.
Tímamót í leyfamálum
Starfslok Sigurðar hjá Arctic
Fish eru að hans eigin frumkvæði.
Hann segir að því fylgi vissulegar
blendnar tilfinningar enda fyrir-
tækið næstum því eins og barnið
hans. Í upphafi hafi það verið rekið
frá heimili hans og öll fjölskyldan
tekið þátt. Velgengni þess sé því
persónulegt mál hjá honum og mik-
ilvægt að hafa með stuðningi sam-
félagsins á Vestfjörðum átt þátt í
eflingu atvinnulífs á æskuslóðum
hans.
Sigurður var framkvæmdastjóri
Arctic Fish í mörg ár og seinni árin
framkvæmdastjóri viðskiptaþróun-
ar. Hann hefur öll tíu árin haft
leyfamál á sinni könnu. Nú eru að
verða tímamót í þeim efnum. Leyfi
til eldis í Ísafjarðardjúpi sem fyrst
var sótt um fyrir áratug verða
væntanlega í höfn á næstu vikum
eða mánuðum og stefnt að því að
hefja lífrænt laxeldi þar næsta vor.
„Ég ætla að taka mér fyrsta sum-
arleyfið í tíu ár þar sem ekki liggja
fyrir einhverjir fundir eða verkefni
sem ekki þola bið. Ég mun samt
hefja fríið á því að vera sjálfboðaliði
með flokk í sumarbúðum KFUM og
KFUK í Vatnaskógi, eins og ég hef
gert í þrjátíu ár,“ segir Sigurður
þegar hann er spurður að því hvað
taki við.
Hann segist ætla að fylgja eftir
verkefninu um fræðslumiðstöð fisk-
eldis og vonar að hægt verði að gera
þann rekstur fljótt að sjálfstæðu
verkefni sem geti með dyggum
stuðningi félaga sem eru í fiskeldis-
tengdum rekstri orðið sjálfbært.
Sigurður neitar því ákveðið þegar
hann er spurður að því hvort hann
hafi hug á því að starfa við sjókvía-
eldi hjá öðrum félögum eða að fara
aftur inn í gamla fyrirtækið, Novo
Food. Hann segir að Novo Food sé
stórt fyrirtæki, enn stærra en Arc-
tic Fish, og því vegni vel undir
stjórn Guðmundar. Arctic Fish sé
einnig að komast á lygnari sjó.
Eignarhaldsfélag þess, Novo ehf., á
4% hlut í Arctic Fish og er þriðji
stærsti hluthafinn. Sigurður segir
að eigendur Novo hafi trú á fjárfest-
ingunni og hafi engin önnur áform
en að halda þeirri eign.
„Ég er í eðli mínu frumkvöðull.
Það eru ótalmörg tækifæri sem
liggja í að nýta auðlindir hafsins
betur og rækta í vatni á landi, með
nýtingu auðlinda Íslands í jarð-
varma og grænni orku. Mig langar
að skoða frekari nýsköpun og tæki-
færi á því sviði,“ segir Sigurður.
Morgunblaðið/Guðlaugur Albertsson
Grunneining Seiðastöð Arctic Fish í Tálknafirði er eina seiðaeldisstöðin hér
á landi sem er með endurnýtingarkerfi vatns (RAS). Ákveðið hefur verið að
stækka stöðina og með framkvæmdinni tvöfaldast framleiðslugeta hennar.
„Í stað þess að vera alltaf að gagn-
rýna þá sem búa í 101 Reykjavík og
kynna sér ekki fiskeldi sem fyrst og
fremst fer fram á landsbyggðinni
en telja sig sérfræðinga í því ákvað
ég að koma upp fræðslumiðstöð í
því póstnúmeri. Tilgangurinn er að
kynna fiskeldið og segja hvað það
snýst um, allt frá hrogni til tilbú-
inna afurða,“ segir Sigurður Pét-
ursson um verkefni sitt, Lax-Inn,
fræðslumiðstöð fiskeldis.
Fræðslumiðstöðin er einka-
framtak Sigurðar. Hann hefur ver-
ið að ræða hugmyndina í mörg ár
og leita eftir styrkjum, en án ár-
angurs. Hann ákvað því að kaupa
húsnæði sem stóð til boða á Mýrar-
götu í Reykjavík og ýta verkefninu
úr vör. Hann vonast til þess að önn-
ur fiskeldisfyrirtæki og fleiri
hagsmunaaðilar komi að því með
honum og starfsemin verði sjálfbær
áður en allt of langur tími líður.
Fiskeldisfyrirtækin á Austfjörðum
hafa þegar lýst yfir vilja sínum til
að verða bakhjarlar. Ætlunin er að
fræðslumiðstöðin verði opnuð í
haust.
Geti leitað á einn stað
Margmiðlunartækni verður not-
uð, auk samfélagsmiðla, til að
kynna fiskeldið. Ætlunin er að
miðla á skjám starfsemi fiskeldis
víða á landsbyggðinni.
Sigurður segir að fræðslan muni
byggjast á þekkingu og reynslu
þeirra sem starfa í greininni. „Fá-
fræðin er víðar en á kaffihúsum í
101, hún er líka í stjórnkerfinu og
víðar um samfélagið.“ Hann segir
mikilvægt að fólk sem vilji fræðast
um greinina geti leitað á ákveðinn
stað. Hann reiknar með að skóla-
hópar nýti sér aðstöðuna og ýmsir
aðrir hópar. Bætir Sigurður því við
að hátt í þúsund bein störf séu við
fiskeldið og annar eins fjöldi
óbeinna starfa. Þetta fólk þurfi á
fræðslu að halda. Fræðslu-
miðstöðin verður vettvangur til
þess og að kynna hvað fer fram í
ólíkum fyrirtækjum og á mismun-
andi lausnum til aðlögunar um-
hverfisins hér við land.
„Umræðan er stundum eins og
fiskeldi sé að hefjast á Íslandi en
það hefur í raun verið stundað frá
landnámi. Ísland er stærsti fram-
leiðandi á bleikju í heiminum og í
matfiskeldi á laxi í landeldi og á
síðustu tveimur árum hefur sjóeldi
vaxið hraðar hér en annars stað-
ar.“
Sigurður sækir hugmyndir sínar
meðal annars til Noregs þar sem
finna má fræðslumiðstöðvar um
fiskeldi. Ein slík stöð, The Salmon,
er nærri miðborg Óslóar. Hún er
styrkt af stjórnvöldum og er í rúm-
góðu húsnæði fyrir fræðslustarf
ásamt einhverjum besta sushi-
veitingastað Noregs.
Gagnrýnendur leiða umræðuna
Sigurður er ekki sáttur við
hvernig umræðan um fiskeldið hef-
ur þróast. „Við fiskeldisbændur
höfum ekki verið að standa okkur í
því efni, hefur ekki tekist að koma
á framfæri upplýsingum um það
hvernig fiskeldið raunverulega er.
Við höfum leyft andstæðingum
fiskeldis að leiða umræðuna. Til
dæmis hefur hugtakið „opnar
sjókvíar“ orðið málvenja og mætti
halda að þaðan streymi út stroku-
fiskur. Þá er fullyrt að undir kvíun-
um séu skítafjöll. Engin af þessum
fullyrðingum stenst skoðun. Við er-
um með vottaða framleiðslu. Arctic
Fish hefur til dæmis verið með
ASC-vottun á eldissvæðum sínum í
fimm ár og nú hefur bæst við lífræn
vottun, græna laufblaðið, frá Evr-
ópusambandinu. Það eru fáar af-
urðir matvæla á heimsvísu sem
hafa slíka vottun. Írar standa
fremst í lífrænu laxeldi en Íslend-
ingar ættu að vera þar í forystu,“
segir Sigurður.
Lax-Inn verður fræðslumiðstöð fiskeldis
Morgunblaðið/Eggert
Lax-Inn Starfsemi fiskeldis verða gerð skil með margmiðlunartækni í fræðslumiðstöðinni við Mýrargötu.
Fáfræðin er víðar
en á kaffihúsum í 101