Þjóðmál - 01.06.2019, Page 93

Þjóðmál - 01.06.2019, Page 93
ÞJÓÐMÁL Sumar 2019 91 Hvað gerist næst? Sem betur fer hefur vaxandi ferðamanna- straumur til Íslands vakið áhuga flugfélaga víðs vegar að og því hafa aldrei verið fleiri kostir í boði fyrir ferðamenn en núna til að komast til og frá landinu. WOW air ýtti undir þá þróun og kynnti til leiks innlent lágfargjalda- félag en hélt sig ekki við formúluna sem gefist hefur vel. Hingað fljúga þó mörg félög sem eru byggð á þeim grunni s.s. Easy Jet, Wizz Air, Norwegian og Transavia. Fram hefur komið á síðustu dögum að til standi að endurvekja WOW air, með dýrkeyptan lærdóm mistaka í farteskinu og skýrari sýn á hvernig félagið verður byggt upp. Ljóst er að tími lággjaldafélaga er kominn til að vera enda hafa mörg þeirra sýnt fram á mjög traustan rekstur þótt fargjöldin séu lág. Ryanair fer þar fremst en rekstur Easy Jet og Wizz Air gengur vel, svo dæmi séu tekin. Í flugrekstrinum eru fram- kvæmdar samanburðarrannsóknir á milli flugfélaga sem leiða fram innbyrðis stöðu þeirra gagnvart öðrum félögum og gefa til kynna getu þeirra til að standast samkeppni í náinni framtíð. CASK (Cost pr. available seat kilometers) er viðurkennd mælieining í þessum tilgangi, enda er það staðreynd að félögin hafa betri tækifæri til að ráða við kostnað en tekjur. Gömlu félögin svokölluðu, sem Icelandair fellur undir, eiga í erfiðleikum með að mæta breyttum tímum og lækka kostnaðinn við reksturinn svo að félagið verði arðbært og eftirsóknarvert fyrir fjárfesta. Í sambærilegri stöðu eru félög eins og Air France, KLM og Lufthansa. Í þessu samhengi er oft rætt um stutta leggi, millileggi og langa leggi (e. short-medium- long haul). Ef við horfum bara á okkur Íslendinga erum við meira og minna að fljúga stutta leggi, 3-5 klukkustundir. Það sem hefur breyst í neyslumynstrinu er að farþegar vilja ferðast á milli tveggja staða, A og B, með sem minnstum kostnaði, þar sem þjónustan skiptir ekki öllu. Þetta er viðskiptalíkan Ryanair og Easy Jet í hnotskurn. Mun Icelandair til að mynda geta lagað sig að þessum veruleika? Að síðustu veldur vaxandi framboð af flugi frá Íslandi því að farþegar þurfa að skoða alla kosti og nota leitarvélar á netinu til að finna hvaða kostur er bestur fyrir næsta stutta legg, sem er meginþorri þess sem við fljúgum. Við erum hvert og eitt orðið eigin ferðaskrifstofur ef svo smá segja og Dohop. com, Kiwi.com, Kayak.com og fleiri leitarvélar leiða mann áfram við valið og selja jafnframt farmiða og aðra þjónustu. Og samkeppnin svíkur sjaldan. Það er ólíku saman að jafna að fljúga til London eða til dæmis Óslóar eða Amsterdam. Við leit blasir við að Easy Jet er fyrsti kosturinn án mikillar umhugsunar til að fljúga til London og þá með áframflugi, ef vill til Evrópu eða annað. Þar sem samkeppnin er minni er valið ekki eins augljóst og inn í spilar hvað menn gefa mikið fyrir beint flug. Að lokum, varðandi bókina og þá þætti sem leiða af henni, má fullyrða að það eru spennandi og krefjandi tímar fram undan í flugrekstri og hagur farþeganna er betri en nokkru sinni fyrr. WOW air hafði áhrif á verð hérlendis og sem betur fer mun sú þróun halda áfram óháð því hvort WOW 2.0 verður að veruleika. Höfundur er hagfræðingur, MBA að mennt og fjármálastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins.

x

Þjóðmál

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Þjóðmál
https://timarit.is/publication/1175

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.