Strandapósturinn - 01.06.1985, Page 55
báðum tilvikum. Hér verður ekki fjallað meira um Fróðárundur,
enda eru þau flókin og þar blandast saman sagnir af fleira en einu
tagi, t.d. um sjódrauga og landdrauga. Á hitt skal bent, að Selkollu-
sagan kann að geyma lykilinn að þessari gátu að hluta til.
Sturla Þórðarson getur viðskipta Guðmundar biskups við Sel-
kollu í Islendingasögu sinni (Sturlunga, I. bls. 254 — 255) og í
tengslum við atburði, sem gerðust veturinn 1210—1211. Sturla er
talinn hafa samið þetta verk á efri árum, en hann andaðist árið
1284. Þá hefur Selkolla verið nafnkunn. Þess skal ennfremur getið,
að skv. skrá yfir eignir Daða Guðmundssonar í Snóksdal frá árun-
um 1563—1564 fylgdi krosshúskúgildi Hafnarhólmi, og tóku fátæk-
ir þá leigu af því (ísl. fornbréfas., XIV. bls. 206). Kemur því til álita,
að hús hafi verið byggt yfir einhvern krossa Guðmundar biskups,
e.t.v. þann sem stóð við lækinn milli bæjanna og mest helgi var á.
Þar var Selkolla færð niður í síðara skiptið. Selkollutóttir er örnefni
á þessum slóðum. Til álita kemur, að þar sé um að ræða tóttir af
húsi þessu, en úr því verður væntanlega aðeins skorið með forn-
leifarannsókn. Hún væri þó ekki hættulaus, ef tekið er mið af
fornri þjóðtrú.
Hér verður haft fyrir satt, að einhverjir þeir viðburðir hafi átt
sér stað við Steingrímsfjörð veturinn 1210—1211, sem samtíma-
menn töldu yfirnáttúrulega og leituðu skýringa í samræmi við
það. Fátt bendir til, að hér hafi verið um dulbúna morðtilraun að
ræða, en allmargar draugasögur frá síðari öldum virðast vera
morðsögur og ekki sízt af Austurlandi (Bjarna Dísa, Óvætturinn
Gunnlaugsbani, Parthúsa-Jón). Þó má líklegt telja, að skötuhjúin úr
Eyjum hafi í raun borið barnið út, enda er meðferðin á líki þess
með ólíkindum. Það var að vísu óskírt og átti því ekki leg í vígðri
mold, en ósennilegt virðist þó, að slík barnslík hafi verið skilin eft-
ir til handa refum og vargfugli. Voru þetta foreldrar barnsins?
Sagan gefur aftur á móti enga vísbendingu um tengsl milli hjú-
anna frá Eyjum og heimilisfólksins á Gautshamri. Þar er máttur
Guðmundar Arasonar á hinn bóginn undirstrikaður með því að
láta hann fást við jafnvoldungan andstæðing og Selkollu (Lilith?)
og hafa sigur. Tveir staðir í Kaldrananeshreppi gera tilkall til að
53