Strandapósturinn - 01.06.1985, Side 94
og Drangaskörð sem gnæfðu tíguleg í fjarska í norðvestri. Við
gengum á ská eftir götutroðningum niður á Grímsnesið, en þar
voru beitarhús Guðjóns á Eyri. Svo gengum við undir brattri
Geitahlíðinni inn með sjónum. Við höfðum farið þessa leið áður
með foreldrum okkar, líklega oftar en einu sinni, og þekktum því
leiðina og helstu örnefni. Við komum inn að Hesthömrum. Það
eru allhrikalegir klettar, sem ganga í sjó íram á flæði, en allbreið
fjara er undir þeim, þegar lágsjávað er. Og áffam héldum við inn
með sjónum, fórum yfir Hvalhamar, sem gengur í sjó fram. Þang-
að niður lá þá hestavegurinn yfir Eyrarháls. Við komum á Bæjar-
hamar, sem er lág klettaborg, rétt utan við túnið á Eyri. Á þessari
hæð sáum við smáhús og girðingar, sem börnin á Eyri höfðu búið
sér til, og þótti okkur mikið til koma. Þarna hefur lengi verið leik-
vangur barnanna á Eyri, líklega um margar kynslóðir. Að minnsta
kosti var svo, þegar móðir mín (fædd 1889) var að alast upp á Eyri,
að hennar sögn. Þá hafði hún barnagullin sín, leggi, skeljar o.fl.
hér á þessum lága, grasigróna hamri.
Við gengum heim að bænum, og vorum ósköp feimnir, er við
heilsuðum fólkinu. Guðrún Jónsdóttir, afasystir okkar, gaf okkur
mat og drykk, sem við neyttum þakksamlega, eftir þessa löngu
göngu.
En mest fannst okkur gaman að hitta þá frændur okkar, Gunn-
ar og Ingólf. Þeir sýndu okkur allt sem þeir áttu heima við bæinn.
Svo fóru þeir með okkur inn fyrir tún, niður undir sjó. Þar rennur
Eyrará nálægt túngarði. Þarna var tjörn, sem lítil spræna úr ánni
rann í. Þarna sýndu þeir bræður okkur skipakost sinn. Guðjón,
faðir þeirra, var nýbúinn að smíða handa þeim tvö skip. Þetta
voru hin fegurstu fley, að okkar mati, hvort þeirra gert úr einum
kubbi, fagurlega telgd og holuð innan, með þilfari, lestaropi, siglu-
trjám og öllu tilheyrandi, enda var Guðjón hagleiksmaður mikill.
Bátarnir voru og málaðir og jók það enn á fegurð þeirra. Svo fög-
ur leikföng höfðum við bræður ekki átt.
Og nú hófst hjá okkur dásamlegur leikur með skipin þeirra. Við
ýttum þeim frá einum tjarnarbakkanum til annars. Við hlóðum
þau allskonar varningi (steinum, spýtum o.fl.), og sendum þau yfir
höfin blá milli framandi landa. Þau voru losuð og hlaðin á ný og
92