Strandapósturinn - 01.06.2003, Side 53
kl. 0300 nóttina eftir. Til Norðurfjarðar kom skipið kl. 1415,
4. nóvember og hafði þá verið níu sólarhringa á leiðinni frá
Reykjavík. Kl. 1800 var búið að afgreiða skipið og settur vörður
á þilfar. Með birtingu morguninn eftir hélt Gullfoss síðan af stað
til Hólmavíkur og annarra áætlunarhafna. Frá Djúpavogi sigldi
skipið til Kaupmannahafnar.
Astæðan fyrir því að Gullfoss var sendur þessa ferð sem hér
var sagt frá, var sú, að Goðafoss, sem venjulega sigldi þessa leið,
var í siglingu til Ameríku. Þegar skipið kom úr þeirri ferð fór
hann í þá strandferð, sem varð hans síðasta. Svo hörmulega vildi
til að hann strandaði og eyðilagðist við Straumnes á leiðinni frá
Isafirði til Norðurfjarðar, 30. nóvember 1916, eins og síðar mun
getið. Ekki er að efa að tíðindum hefir sætt í sveitinni, þegar
þetta skip „óskabarn þjóðarinnar,“ og talandi tákn um sigur í
miklu baráttumáli, á sinni tíð, lagði Ieið sín á þessar slóðir. Það
er líka nokkur frétt nú, í sögulegu ljósi, að Gullfoss hafi komið
til Norðurfjarðar. Því er þessa sérstaklega getið hér.
1963 kom Skjaldbreið til Norðurfjarðar í vestan stormi. Á
mörkunum var að fært væri að afgreiða skipið vegna hvassviðris-
ins sem stóð út fjörðinn. Við uppskipunina var Njörður notaður
og var hann dreginn milli bryggju og skips af trillu í eigu Gísla
á Steinstúni og stjórnaði Ágúst á Steinstúni henni en í bátnum
voru þeir Eyjólfur á Krossnesi og Þórarinn [Tóti] á Finnboga-
stöðum. I einni ferðinni vildi svo óheppileg til að dráttartaugin
fór yflr stýrið á trillunni og braut það. Urðu nú báðir bátarnir
stjórnlausir og góð ráð dýr. Með snarræði tókst þeim Eyjólfi og
Þórarni að grípa til áranna og gátu þeir snúið bátnum þannig
að hann lensaði undan veðrinu og stýrði Eyjólfur honum með
ár og hleypti uppí sandinn í Bergisvíkinni milli Thorshústanga
og Bolakletts. Af Ágústi og trillunni er það að segja að honum
tókst að ná upp að hliðinni á Skjaldbreið. Var trillan síðan hífð
um borð í Skjaldbreið sem sigldi síðan til Ingólfsfjarðar þar sem
trillan, vörurnar sem eftir voru og Ágúst voru sett í land. Trill-
unni og vörunum var svo skilaði til Norðurfjarðar í næstu ferð.
51