Morgunblaðið - 24.12.2021, Blaðsíða 23

Morgunblaðið - 24.12.2021, Blaðsíða 23
UMRÆÐAN 23 MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 24. DESEMBER 2021 S njókornin féllu tignarlega til jarðar. Ari Þór Arason stóð aleinn við gluggann í stofunni, fylgdist með og hlustaði á gamla plötu með sígildri jólatónlist. Það styttist í hátíðarmessuna í útvarpinu, klukkutími eða svo, og hann vildi ekki byrja að borða fyrr en á slaginu sex. Þannig hafði það alltaf verið á aðfangadagskvöld, alveg frá því að hann var bara lítill drengur. Hann hafði eldað hamborgarhrygg, önnur hefð frá æskuárunum. Það hafði reynst erfitt að finna nógu lítinn hrygg fyrir einn, en hann ætti þá afgang yfir hátíðarnar. Nú gat hann í öllu falli tekið sér frí á jólunum, orðinn varðstjóri á Siglufirði og kominn með mannaforráð, en hann yrði þó einn yfir hátíðarnar. Kristín var flutt til Svíþjóðar með son þeirra, Stefni, sem átti einmitt þriggja ára afmæli í dag. Ari saknaði hans svo mikið, og hafði raunar stungið upp á því við Kristínu að hann kæmi í heimsókn til þeirra til Svíþjóðar yfir jólin. Hún hafði hugsað málið en loks afþakkað það boð. „Við erum rétt að koma okkur fyrir, og þetta gæti verið ruglingslegt fyrir hann, hann er svo lítill. Við komum til Siglufjarðar um páskana og svo getur þú komið næstu jól, ég lofa því. Tök- um eitt skref í einu. Er það ekki í lagi?“ Auðvit- að var það ekki í lagi, en hann hafði ekki viljað stofna til rifrildis við Kristínu í símanum. Farsíminn hringdi, hávaðinn yfirgnæfði fal- lega jólatónlistina. Ögmundur lögreglufulltrúi var í símanum. „Já?“ svaraði Ari, stuttur í spuna. Hvers vegna í óskpunum myndi Ögmundur vilja ónáða hann á aðfangadagskvöld? „Ari, það er einhver kona að reyna að ná í þig,“ sagði Ögmundur, kom sér beint að efninu. „Hvaða kona?“ „Eldri kona sem býr á Hólaveginum.“ „Einhver sem ég þekki?“ „Það held ég ekki. Hún heitir Halla, um átt- rætt.“ „Þarf ég að heyra í henni núna? Liggur eitt- hvað á?“ spurði Ari, fremur pirraður. „Ég veit það bara ekki. Hún vildi tala við þig.“ „Reyndir þú ekki að leysa úr þessu sjálfur?“ Ögmundur svaraði ekki strax. „Nei, ég vissi að þú værir einn, hefðir ekkert að gera. Viltu númerið hennar?“ Ari andvarpaði. „Ætli það ekki …“ Tíu mínútum síðar sat hann í stofunni hjá umræddri Höllu. Hann hafði skilið hrygginn eftir í ofninum og hugsað með sér að hann gæti tekið hálftíma frá til að hitta konuna, að hann yrði kominn aftur heim í tæka tíð fyrir jóla- messuna. Það hafði svo sem reynst ágætt að fara í gönguferð í snjónum, það var jólakyrrð yfir bænum og uppi í fjallinu mátti sjá uppljóm- að ártalið, í tilefni áramótanna, en á miðnætti á gamlárskvöld myndi ártalið svo breytast. Hann hafði aldrei hitt Höllu áður en hún vissi augljóslega hver hann væri. Hún var fremur lágvaxin, bar aldurinn vel, með glampa í augum, spariklædd á jólunum. „Fallegt af þér að gefa þér tíma, Ari,“ sagði hún hlýlega. „Mér fannst ég þurfa að hringja í þig, þetta var nefnilega svo skrýtið bréf.“ Svo bætti hún við: „Þú varst líka að læra guðfræði, svo þú skilur svona lagað.“ Hann spurði ekki hvað hún ætti við með „svona löguðu“, bað hana þess í stað að segja sér betur frá bréfinu, sem hún hafði aðeins minnst á í spjalli þeirra í símanum. Hún stóð upp og gekk hægum skrefum út úr stofunni. Þegar hún kom til baka hélt hún á bréfi. „Þetta er ekki eina bréfið, bara það nýjasta.“ Hún rétti Ara það. Bréfið var stutt, ein síða, handskrifað, skrift- in býsna ólæsileg. Kæra Halla, stóð þar efst og undir ritaði maður að nafni Einar. Ekkert dul- arfullt eða sérkennilegt við efni bréfsins, gaml- ar minningar rifjaðar upp, ósk um gleðileg jól. „Þekkirðu þennan Einar?“ Hún kinkaði kolli. „Og hefurðu fengið fleiri bréf frá honum?“ „Já, um hver jól. Á ég að sýna þér?“ Hún beið ekki eftir svari, lét sig hverfa og birtist svo aftur með litla viðaröskju. Hún lagði hana á borðið og opnaði hana. Askjan var full af bréfum. Ari blaðaði í gegnum bunkann. Alltaf sama skriftin. Öll bréfin til Höllu, frá Einari. „Fyrirgefðu, en ég átta mig ekki alveg á vandamálinu, Halla. Þessi Einar …“ Hann valdi orðin gaumgæfilega. „Er þessi Einar að áreita þig með einhverjum hætti?“ „Alls ekki, alls ekki.“ Hún hristi höfuðið ákaft. „Við vorum gift, sjáðu til.“ „Voruð þið gift? Ekki lengur, sem sagt?“ „Nei, við giftum okkur skömmu eftir stríð. Ég var mjög ung, hann var töluvert eldri en ég.“ „Bjugguð þið alltaf á Siglufirði?“ „Já, við vorum bæði fædd hérna.“ „Og svo skilduð þið?“ Hún þagði um stund en sagði svo: „Nei. Hann dó.“ „Dó hann?“ Ari hafði sannarlega ekki búist við þessu svari, þótt það hefði svo sem legið í augum uppi. Hún var um áttrætt, hafði Ögmundur sagt, og maðurinn hennar hafði ver- ið nokkuð eldri en hún. „Hvenær dó hann?“ „Fyrir þrjátíu árum,“ svaraði hún. „Svo fóru þessi bréf að berast.“ Ari fann fyrir ónotahrolli. „Dó hann, eða … hvarf hann?“ Ari leiddi hugann að föður sínum, sem hafði einmitt horfið sporlaust þegar Ari var ungur drengur. Aftur beið hún með að svara. „Hann dó, það lék enginn vafi á því.“ „Hefur sem sagt einhver verið að senda þér bréf í hans nafni í þrjá áratugi?“ Hún starði á hann, virtist ekki ætla að taka undir þessa skýringu. Kannski trúði hún því einlæglega að bréfin hefðu borist að handan. „Geturðu ímyndað þér hver myndi vilja koma þér í uppnám með svona bréfum?“ „Nei.“ „Hefur þú rætt þetta við lögregluna áður?“ „Nei,“ sagði hún aftur. „Ég veit satt að segja ekki hvað ég get gert,“ sagði hann vingjarnlega. „Við getum skoðað þetta á nýju ári. Ertu nokkuð hrædd um að ein- hver ætli að vinna þér mein …?“ „Alls ekki,“ svaraði hún og brosti. „Ég er allt of gömul til að vera hrædd. Ég á ekki langt eft- ir.“ „Treystirðu þér til að vera ein hérna um jól- in?“ „Auðvitað. Ég þurfti bara að ræða við ein- hvern. Takk fyrir komuna.“ Hún stóð upp. „Á ég ekki að skrifa niður númerið mitt?“ spurði hún svo og rauk af stað áður en Ari náði að segja henni að hann væri þegar með símanúm- erið hennar. Hún kom til baka að vörmu spori með miða handa Ara. Hann leit ekki á miðann fyrr en hann var kominn út á tröppur og var að kveðja gömlu konuna. Þarna hafði hún skrifað nafnið sitt og síma- númer. Hann þekkti skriftina strax. Þau voru sest aftur inn í stofu. Standklukkan sló sex högg. „Engar áhyggjur,“ sagði Halla. „Þessi klukka er of fljót, þú kemst heim í tæka tíð, áður en jól- in ganga í garð. Býrðu ekki hérna nálægt?“ „Jú, í fimm mínútna fjarlægð.“ „Ég veit. Í svona bæ vita allir allt um alla.“ Hún hafði boðið honum aftur inn þegar hann hafði bent henni á að skriftin á miðanum væri sú sama og á bréfunum. „Ég var eiginlega að vona að þú myndir átta þig á þessu,“ sagði hún. „Hann Einar var ekki góður maður. Samt hef ég skrifað eitt bréf á ári, í desember. Rifjað upp góðu minningarnar.“ „Áttuð þið börn?“ „Já, þau búa erlendis, bæði tvö. Eru alltaf önnum kafin, komust ekki heim um jólin.“ „Það er þó varla neitt lögreglumál að skrifa sjálfri sér bréf í nafni látins manns …“ „Mig langaði að segja þér sannleikann, þess vegna hringdi ég. Ég er fegin að þú lagðir sam- an tvo og tvo. Ég á ekki langt eftir, eins og ég nefndi áðan.“ Hún þagði um stund. Ari leit sem snöggvast út um gluggann, það kyngdi niður sjó. „Ég drap manninn minn. Fyrir þrjátíu árum. Engan grunaði neitt. Hann var mjög … Ja, hann beitti mig sem sagt ofbeldi.“ Ari var furðu lostinn. „Sagðistu hafa drepið hann?“ Hún kinkaði kolli. „Ég þurfti bara að játa þennan glæp á mig, áður en ég dey. Ég veit að ég braut af mér, og hef alltaf vitað það, en ég sé samt ekki eftir neinu. Ég er viss um að hann hefði annars geng- ið af mér dauðri, fyrr eða síðar.“ Það hvarflaði að Ara að spyrja hana hvernig hún hefði drepið hann, en satt best að segja vildi hann ekki vita of mikið. Kannski myndi hann fletta upp í gömlum málsgögnum einn góðan veðurdag, þegar Halla væri látin. „Mér er eiginlega alveg sama hvað gerist núna,“ sagði hún. „Það gerist ekkert núna,“ sagði hann og stóð á fætur. Sumt mátti best kyrrt liggja. „Þegar þú hringdir í lögregluna þá spurðir þú eftir mér, en ekki Ögmundi, samstarfsfélaga mínum …“ Hún kinkaði kolli. „Vildirðu ræða við lögreglumann eða, ja, ein- hvern sem varð næstum því prestur?“ Halla brosti. „Ég held að þú vitir svarið við því. Nú skaltu hins vegar halda heim á leið, ungi maður. Þú vilt ekki missa af jólunum.“ Morgunblaðið/Sigurður Ægisson Ljósmynd/Baldur Kristjánsson Jólasaga eftir Ragnar Jónsson Þögnin í snjókomunni

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.