Náttúrufræðingurinn

Volume

Náttúrufræðingurinn - 2021, Page 7

Náttúrufræðingurinn - 2021, Page 7
Tímarit Hins íslenska náttúrufræðifélags 99 Ritrýnd grein / Peer reviewed Þegar menn settust hér að á 9. og 10. öld höfðu refir lagt allt landið undir sig. Mel- rakkar þóttu snemma skæðir keppinautar mannsins um veiðibráð, fugl og egg, og enn fremur ógn við búfénað. Strax í fyrstu lögum landsins voru refir ófriðhelgir og mátti veiða þá á hvers manns landi.9 Jafn- framt voru melrakkabelgir (feldir refa) verðmætur gjaldmiðill frá upphafi byggðar og voru til dæmis jafngildi lambagæru eða sex grömmum silfurs.9 Refir hafa því verið veiddir á Íslandi frá upphafi byggðar. Rannsóknir á íslenska refastofninum hófust á áttunda áratug 20. aldar og byggj- ast þær að miklu leyti á gögnum og sýnum sem aflað hefur verið við veiðar. Rann- sóknir þessar leiddu til vöktunar sem enn fer fram með sama hætti. Nú eru til samfelld gögn úr mælingum frá 1979 og veiðitölur fyrir meira en 60 ára tímabil. Umtalsverð þekking hefur safnast um lífshætti, líffræði og vistfræði tegundar- innar frá upphafi vöktunar. Íslenski refastofninn hefur á sex áratugum farið í gegnum tímabil fækkunar og fjölgunar og stendur nú nokkurn veginn í stað.10–13 Aðlögunarhæfni melrakkans hefur gert honum kleift að lifa af á Íslandi í þús- undir ára þrátt fyrir einangrun landsins, breytileika í veðurfari og fæðuframboði, auk álags vegna veiðisóknar manna. Á síðustu áratugum hafa orðið breytingar á loftslagi með auknum hraða hlýnunar og tilheyrandi áhrifum á lífríki, auk meng- unar sem dagar uppi á norðurslóðum. Tófan er eitt af flaggskipum rannsókna í þessum málaflokki14 og landfræðileg ein- angrun gerir það að verkum að íslenski melrakkinn er ákaflega mikilvægur fyrir rannsóknir á lífríki norðurslóða. Í þessum fyrsta hluta í þriggja greina flokki um stofnvistfræði íslenska mel- rakkans verður fjallað um verndarstöðu refa, veiðigögn og aldursgreiningar sem varpa ljósi á refastofninn, útbreiðslu hans og stærð, og þær breytingar sem hafa orðið frá upphafi skráninga til dagsins í dag. Fjallað verður um áhrif veiða og friðunar á stofnstærð og lykil- þætti stofnbreytinga. Að lokum verður farið yfir litarfar refa, erfðafræði lita- afbrigða og samsetningu arfgerða í landinu. FRUMKVÖÐLASTARF Í RANNSÓKNUM Theodór Gunnlaugsson (1901–1985) var einkar afkastamikill sjálfmenntaður fræðimaður og skrifaði talsvert í ýmis rit, þar á meðal í Náttúrufræðinginn. Bók hans, Á refaslóðum (1955), er mikil- væg samtímaheimild um íslenska refinn, byggð á reynslu Theodórs af viðureign við refi um áratuga skeið.15 Þær rann- sóknir á íslenska refastofninum sem nú fara fram hófust sem fyrr segir árið 1979 þegar Páll Hersteinsson tók að safna efniviði til að geta lagt mat á stærð tófu- stofnsins. Vegna þess að refaveiðar voru stundaðar með reglubundnum hætti, og skráning gagna góð, sá hann tæki- færi í rannsóknum tengdum veiðunum og fékk refaskyttur til liðs við sig til að útvega sýni og upplýsingar um felld dýr. Eftir nokkur ár var Páll kominn með efnivið til að geta metið stærð íslenska refastofnsins, sem aldrei hafði verið reynt áður. Stofnmatið var birt í fyrsta sinn í Fréttabréfi Veiðistjóra árið 1987,16 og er byggt á þekktri aðferð sem kallast aldurs-afla-aðferð með samlagningu Mórauð tófa í vetrarbúningi. Feldurinn er afar einangrandi og hitatap frá líkamanum nær ekkert. – Arctic fox of the blue morph during winter. The winter fur is extremely insulating and heat loss is consequently of minor degree. Ljósmynd/Photo: Gyða Henningsdóttir.

x

Náttúrufræðingurinn

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Náttúrufræðingurinn
https://timarit.is/publication/337

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.