Náttúrufræðingurinn - 2021, Page 60
Náttúrufræðingurinn
152
Ritrýnd grein / Peer reviewed
7. mynd. Lóuþræll (Calidris alpina) tínir upp skötuorm í Gæsavötnum síðsumars 2017. Gæsavötn eru tvær grunnar tjarnir í 913 og 915 m
h.y.s. og er það hæsti fundarstaður skötuorms til þessa hér á landi. – Dunlin (Calidris alpina) catches Arctic tadpole shrimp in Gæsavötn
pond in late summer 2017 at 913–915 m a.s.l., the highest altitude of location recorded for the invertebrate in the study. Ljósmynd/Photo:
Þórður Halldórsson.
Þáttur skötuorms í fæðu silunga
í miðlunarlónum, sem einkennast af
vatnsborðssveiflum og lágri vatnsstöðu
á veturna, fellur vel að þeirri tilgátu að
egg skötuormsins séu háð mjög lágu
hitastigi yfir veturinn og klekist ella
vart út um vorið. Fjölmargar urriða-
rannsóknir í miðlunarlónum í Noregi
renna stoðum undir mikilvægi lágrar
vatnsstöðu á veturna fyrir þroskun
skötuorms og þýðingu hans við afkomu
urriða.19,42,51,52 Í nokkrum tilvikum er
staðfest að myndun miðlunarlóns hefur
tryggt tilvist skötuorma þar sem engir
skötuormar voru áður.46 Jafnframt stað-
festa rannsóknir í Noregi að afkoma
silungsstofna, einkum urriða, geti verið
háð framboði skötuorms, sem og að
magn skötuorms og framboð kann að
stjórnast af afráni fiskanna.34,46
Skötuormsát lóuþrælsins í Gæsa-
vötnum, sem vikið er að hér að framan,
staðfestir að það eru ekki einungis
endur sem éta skötuorma, eins og
þekkt er á Mývatni,16,53,54 heldur einnig
vaðfuglar. Hávella (Clangula hyem-
alis), sem telst til kafanda og er einn
helsti einkennisfugl hálendisvatna og
-tjarna, virðist reiða sig mjög á skötu-
orm sem fæðu og hið sama virðist gilda
um hrafnsönd (Melanitta nigra), sem
einnig er kafönd.16,53 Enn fremur hafa
komið fram vísbendingar um að stofn-
stærð hávellu og hrafnsandar á Mývatni
stjórnist af framleiðslu stórvaxinna
botnkrabbadýra á borð við skötuorm
og kornátu (Eurycercus lamellatus).16,53
Víða annars staðar á norðurhveli virðast
skötuormar vera eftirsótt fæða á meðal
and- og vaðfugla, svo sem hjá blikönd
(Polysticta stelleri), lóuþræl og send-
lingi (Calidris maritima), sem og kríu
(Sterna paradisaea).19
HLÝNUN
Sem fyrr segir virðist hitastig hafa
veigamikil áhrif á bæði landfræði-
lega og staðbundna útbreiðslu skötu-
orms. Gögnin í okkar rannsókn falla
almennt vel að þessari skýringu, bæði
hvað varðar dreifingu fundarstaða