Náttúrufræðingurinn - 2021, Page 78
Náttúrufræðingurinn
170
Svanhildur fæddist í Hrafnsgerði í Fellum, Norður-Múlasýslu,
24. ágúst 1925, en ólst upp á Seyðisfirði og í Reykjavík. Að
loknu stúdentsprófi 1946 fór hún til náms í grasafræði við
Háskólann í Kaupmannahöfn. Þar lauk hún magisterprófi 1953
með fléttur að sérgrein og hlaut gullpening skólans fyrir prófrit-
gerð sína. Síðan var hún búsett í Danmörku, fyrst í Kaupmanna-
höfn en frá 1965 í Árósum og nágrenni, kennari við háskóla á
báðum stöðum. Hún var gift Gunnari Olaf Svane, prófessor í
slavneskum málum. Svanhildur safnaði fléttum víða á Íslandi
frá árinu 1949 til aldamóta, líka í Danmörku, Færeyjum, á
Grikklandi og víðar, og samdi um þær greinar, flestar með
öðrum höfundum. Safn hennar er varðveitt í Botanisk Museum
í Kaupmannahöfn. Svanhildur lést á heimili sínu í Lystrup á
Jótlandi 12. mars 2016, 91 árs gömul.
Foreldrar Svanhildar voru Jón Sigurðsson (1903–1980),
Hrafnsgerði, Fellum, síðast fulltrúi hjá Búnaðarbanka Íslands
í Reykjavík, og Anna Sigurbjörg Þórarinsdóttir (1901–2000)
frá Gilsárteigi í Eiðaþinghá. Foreldrar Jóns voru Sigurður
Jónsson frá Skeggjastöðum, bóndi í Hrafnsgerði, og síð-
ari kona hans, Þuríður Hannesdóttir frá Austari-Krókum í
Fnjóskadal (Flateyjardal). Hún var systir Áskels bónda þar,
föður Jóhannesar kennara og jarðfræðings. Sigurður var
dugnaðarbóndi, hreppstjóri, organisti við Áskirkju og virkur
í félagsmálum, en varð skammlífur. Sigurður var afabróðir
minn, og við Svanhildur því þremenningar.
Jón og Anna voru bæði í Alþýðuskólanum á Eiðum 1919–21,
og þar urðu þeirra fyrstu kynni. Anna var systir Jóns Þórarins-
sonar tónskálds, sem var í sumardvöl í Hrafnsgerði um sjö ára
aldur. Þau Anna og Jón tóku við búi í Hrafnsgerði 1925, með
Þuríði móður hans og yngri systkinum, Hannesi og Bergljótu,
en hættu búskap 1928 og fluttust til Seyðisfjarðar með börn
sín tvö á unga aldri. Tók Þuríður þá aftur við búinu með yngri
börnum sínum. Á Seyðisfirði veiktist Jón af lömunarveiki og gat
síðan ekki stundað erfiðisvinnu. Þrautaráð þeirra hjóna var þá
að flytjast til Reykjavíkur 1936. Þar gekk Jón í Kennaraskólann
og lauk kennaraprófi. Hann stundaði eitthvað kennslu, en fékk
brátt sumarvinnu við Búnaðarbankann og nokkru síðar fullt
starf sem fulltrúi bankastjóra. Hann var vel þekktur meðal við-
skiptavina bankans, uns hann lét af störfum fyrir aldurs sakir.
Jón Þórarinsson ritar: „Önnur minning mín frá þessum
tíma er bundin Svanhildi, systurdóttur minni, sem þá var í
frumbernsku. Hún hafði þann háttinn á að hún var tekin að
syngja áður en hún talaði – þótti mér það stórmerkilegt.“1
Svanhildur var aðeins þriggja ára þegar fjölskyldan fluttist
til Seyðisfjarðar, og 11 ára þegar þau fluttust til Reykjavíkur.
Hún hóf barnaskólanám á Seyðisfirði og lauk stúdentsprófi
frá Menntaskólanum í Reykjavík vorið 1946. Um haustið hélt
hún til náms í náttúrufræði við Háskólann í Kaupmannahöfn.
Eflaust hefur Jóhannes frændi hennar átt þar hlut að máli,
enda var hann náttúrufræðikennari Menntaskólans frá 1932
til dauðadags 1961.
SVANHILDUR JÓNSDÓTTIR SVANE
Fyrsti íslenski fléttufræðingurinn
— Minning —
Svanhildur Jónsdóttir Svane. / Ljósm. Jens H. Petersen 2004.
Náttúrufræðingurinn 91 (3–4) bls. 170–174, 2021