Náttúrufræðingurinn - 2021, Qupperneq 80
Náttúrufræðingurinn
172
rannsóknir höfundar og gróðurgreiningar á 12 stöðum í Þing-
vallahrauni, allt frá Þingvallavatni upp í um 1.060 m hæð í
Skjaldbreið. Í viðauka eru birtar töflur yfir tegundir plantna
og tíðni þeirra í þremur helstu gróðurlendum hraunanna,
þ.e. gamburmosaþembu, lynglendi með grá- og gambur-
mosa, og graslautum með grámosa. Fram kemur að höf-
undur hefur auk háplantna nafngreint 30–40 tegundir mosa
og álíka margar tegundir af fléttum. Líklega er þetta í fyrsta
sinn sem margar tegundir fléttna og mosa voru teknar inn í
gróðurgreiningu á Íslandi.
Árið 1953 urðu þáttaskil í lífi Svanhildar, þegar hún lauk
magisterprófi og giftist Gunnari Olaf Svane frá Jótlandi,
doktor í slavneskum tungumálum. Þau stunduðu síðan bæði
kennslu við Háskólann í Kaupmannahöfn, hún líklega einnig
við Tækniháskólann. Árið 1965 fluttust hjónin til Árósa, þar
sem Gunnar var skipaður prófessor í slavneskum málum og
Svanhildur lektor í grasafræði. Þau eignuðust tvo syni, Jón
Olaf (f. 1954) og Axel Torstein (f. 1956). Jón er jarðfræðingur
að mennt og Axel eðlisfræðingur, lektor við Árósaháskóla.
Þeir kvæntust og áttu báðir fjögur börn.5 Axel andaðist 2016,
sama ár og móðir hans.
Haustið 1960 var ég nokkra daga í Kaupmannahöfn og
heimsótti þau Svane-hjón, sem þá bjuggu í úthverfinu Her-
lev. Gunnar var þá farinn að skilja og tala íslensku, því hann
var mikill málagarpur. Eftir að hann hætti störfum fór hann
að læra kínversku við háskólann í Árósum og þýddi bók eftir
sagnfræðinginn Sima Quiam um elstu sögu Kína.
Jón Ólafur Sigurðsson organisti, bróðursonur Svanhildar,
segir í minningargrein um hana:
Fæðingarstaður hennar, Hrafnsgerði í Fellum, var alltaf
ofarlega í huga hennar, og fylgdist hún vel með öllu sem
þar fór fram og ættingjum sínum fyrir austan, þó hún ætti
þess ekki oft kost að fara austur. Þegar þau hjón komu til
landsins, og hægt var að koma því við, þá keyrðu þau vítt og
breitt um landið, og notuðu ferðina til að safna sýnishornum
af skófum og öðru sem tilheyrði áhugamáli hennar. Sagði
hún alltaf að Hrafnsgerði væri hafsjór af sýnishornum á
þessu sviði. Eftir að skógurinn fór að vaxa upp, þá fór hún
að finna nýjar [skófa]tegundir, auk sveppaflórunnar.5
Kennslustarf og sveppafræði
Fléttur og sveppir eru nátengdar lífverur. Fléttur eru að
meginhluta sveppir sem hafa tekið þörunga í þjónustu sína
og mynda með þeim náið sambýli. Þær eru nú flokkaðar með
sveppum. Það er því ekki tilviljun að Svanhildur fór einnig að
sinna sveppafræði.
Anne Kristine Mehlsen, sem líklega var nemandi hennar,
ritaði í eftirmælagrein um hana:
Hún var einn af fyrstu kennurum við Botanisk Institut
þegar til þess var stofnað 1963. Hún var sett „kandidats-
instruktor“ og síðar „ekstern lektor“ og var ábyrg fyrir kennslu
um sveppi. Auk þess var hún í mörg ár með vikulangt sumar-
námskeið í plöntugreiningum. … Svanhildur var áhugasöm
og vinsæl samstarfskona og kennari. Þrátt fyrir að hún gerði
miklar faglegar kröfur var hún í uppáhaldi meðal stúdenta
sinna og kollega, og kenndi mörgum stórum hópum á því
sviði sem kallað var þelingar (sveppir og þörungar), ásamt
Lisbeth Mathiesen. Auk þessara grunnkúrsa hélt hún æfingar
fyrir framhaldsnema í sveppa- og fléttufræði þar til í byrjun
tíunda áratugarins, og byggði upp vönduð kennslusöfn í
tengslum við þær. Meðal stúdenta var Svanhildur þekkt fyrir
kröfur sínar um einbeitingu og nákvæmni við tegundagrein-
ingar, og með hjálp hennar, leiðsögn og gamansemi náðu
flestir auknu sjálfstrausti á því sviði.6
Hér er Svanhildur að leiðbeina um sveppagreiningu í Árósum í sept. 2003.
Ljósm. Jens H. Petersen.