Iðjuþjálfinn - 2021, Page 21

Iðjuþjálfinn - 2021, Page 21
1. tölublað 202121 Þörf á öðrum valmöguleikum án lyfja Líkt og kom fram í upphafi greinarinnar er geðlyfjanotkun á Íslandi langtum meiri en í mörgum þeim löndum sem við erum gjörn á að bera okkur saman við. Ávísun geðlyfja hefur einnig aukist jafnt og þétt síðastliðin ár og talið er að ástæðan sé meðal annars að sífellt fleiri einstaklingar taki geðlyfin til langs tíma (OECD, 2017). Á Íslandi er almennt takmarkað aðgengi einstaklinga að þjónustu geðlækna. Sumir sjálfstætt starfandi geðlæknar eru hættir að taka við nýjum einstaklingum og hjá öðrum eru langir biðlistar. Langvarandi utanumhaldi og lyfjaeftirliti er stundum vísað til heimilislækna en þó er það vandkvæðum bundið þar sem margir hafa ekki lengur sérstakan heimilislækni heldur aðgang að heilsugæslustöð. Geðlæknar veita aðallega samtals- og lyfjameðferð. Þjónustan er niðurgreidd af Sjúkratryggingum Íslands (SÍ) en geðlæknar nefna sjálfir að þörf sé á að önnur meðferð á borð við sálfræðiþjónustu væri einnig niðurgreidd til að stuðla að bata einstaklinganna. Enn minni þjónusta og afar takmarkað aðgengi er að geðlæknum utan höfuðborgarsvæðisins (Leifur Bárðarson o.fl., 2016). Miðað við umtalsverða ávísun geðlyfja og rannsóknir á sjónarhóli einstaklinga með persónulega reynslu af andlegum áskorunum má leiða líkum að því að fjöldi Íslendinga sé á geðlyfjum og langi að aðlaga, breyta eða hætta á lyfjunum. Hjá Ostrow og félögum (2017) kom bersýnilega í ljós mikil þörf fyrir stuðning og aðstoð einstaklinga við að hætta á lyfjum eftir að þeir voru komnir nokkuð áleiðis í bataferli sínu. Það er ekki hlaupið að því að skipta um geðlækni eða komast til annars líkt og kom fram í úttekt Landlæknisembættisins (Leifur Bárðarson o.fl., 2016). Óvíst er hvert einstaklingur getur leitað eftir öruggri aðstoð ef viðkomandi geðlækni hugnast ekki fyrirhuguð breyting á geðlyfjanotkun einstaklingsins. Enga skýra þjónustu er að finna við netleit á íslensku umfram umræður á Barnalandi eða í öðrum óformlegum spjallhópum. Greinarhöfundur ræddi óformlega við einstaklinga sem nýta sér þjónustu Hugarafls í bataferli sínu. Umræðurnar hafa leitt í ljós persónulegar sögur þar sem sumir einstaklingar hafa þá reynslu að fagaðilinn neiti að aðstoða við að hætta lyfjatöku en láti stundum tilleiðast ef einstaklingurinn segist harðákveðinn í að breyta þessu, með eða án aðstoðar. Í verstu tilfellum hafa fagaðilar neitað að aðstoða viðkomandi við lyfjabreytingar, sagt einstaklingnum upp þjónustu eða fengið hann til að endurskoða lyfjatöku með því að tala um fyrir honum. Upplifun sumra félagsmanna Hugarafls var sú að fagaðilinn hefði dregið úr aukaverkunum lyfjanna og áhrifum þeirra á líf einstaklingsins. Það þarf hins vegar enginn að lifa með neikvæðum áhrifum aukaverkana nema einstaklingurinn sjálfur. Þessi óformlega þarfagreining leiddi í ljós vöntun á fleiri valmöguleikum og raunverulegum stuðningi til að taka ákvarðanir er varða eigið líf og geðlyfjanotkun. Hlutverk iðjuþjálfa sem málsvara Líkt og kemur fram í kanadísku hugmyndafræðinni CMOP:E, þá er hlutverk iðjuþjálfa ekki einungis að vinna með einstaklingnum til að stuðla að aukinni samsvörun færni, iðju og umhverfis, heldur líka að vera málsvarar hópsins og standa vörð um réttindi þeirra (Townsend og Polatajko, 2007). Iðjuþjálfar ættu óhikað að taka þátt í lyfjaumræðunni þó þeir sjái sjálfir ekki um ávísun geðlyfja. Það er mikil þörf á að opna umræðu um allar hliðar geðlyfja og stuðla að því að hvert og eitt okkar fái ítarlegar upplýsingar um þá ólíku valmöguleika sem standa fólki til boða til að vinna að bættri andlegri líðan og geta þá tekið upplýsta ákvörðun um hvað við teljum henta okkur hverju sinni. Sem iðjuþjálfi hef ég stutt töluverðan fjölda fólks til aukinnar virkni og þátttöku í þeim verkum sem skipta það máli, sem og skylduverkum. Ég hef endurtekið verið í þeirri stöðu að við- komandi sér sér ekki fært um að taka þátt þrátt fyrir áhuga, einungis vegna aukaverkana geðlyfjanna! Að sama skapi hef ég unnið með fólki sem hafði ekki fengið upplýsingar um mögulegar aukaverkanir, fráhvörf og möguleika á öruggri niðurtröppun lyfjanna frá þeim fagaðila sem ávísaði lyfjunum. Sum hver búa við langvarandi óafturkræfan skaða í kjölfar lyfjanna. Það er engin ein lausn sem hentar öllum, og það á sannarlega við um geðlyfin. Ég tel að kominn sé tími til að við tökum þessi samtöl þó þau geti verið krefjandi og horfumst í augu við að núverandi geðheilbrigðisþjónusta hafi skaðað einhvern hluta þeirra sem leita sér hjálpar. Eftir lestur þessarar greinar vonast ég til að iðjuþjálfar sjái sér skylt og fært að taka virkan þátt í umræðunni um geðlyf og standa með þeim einstaklingum sem leita til þeirra eftir aðstoð. Sú þátttaka getur haft margar birtingarmyndir; hægt er að skrifa greinar, taka þátt í hlaðvörpum, stefnumótun yfirvalda, stofna jafningjahóp um geðlyf líkt og starfræktur er

x

Iðjuþjálfinn

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Iðjuþjálfinn
https://timarit.is/publication/1164

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.