Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - 01.07.2021, Blaðsíða 8

Ljósmæðrablaðið - 01.07.2021, Blaðsíða 8
8 LJÓSMÆÐRABLAÐIÐ - JÚLÍ 2021 Það hefur sennilega ekki farið framhjá neinum að í byrjun árs tók Heilsugæsla Höfuðborgarsvæðisins (HH) við skimun fyrir frumubreytingum í leghálsi af Leit- arstöð Krabbameinsfélagsins. Sú breyting var gerð í kjölfar ákvörðunar heilbrigðis- ráðherra sem tekin var árið 2019. Mikið hefur verið rætt og skrifað um þessa breytingu, framkvæmd hennar, rannsóknar- aðferðir og ástæður og sitt sýnist hverjum. Um það verður þó ekki skrifað hér heldur enn fremur rýnt í kostina. Hjá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins störfuðu ljósmæður við skimunina. Það hefur ekki breyst því nú eru það ljósmæður, og stöku hjúkrunarfræðingar, sem starfa á heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæð- inu og úti á landi sem sjá um þetta starf. Ljósmæður sem starfa á landsbyggðinni hafa þó séð um skimunina undanfarin ár með góðum árangri. Konur geta nú líkt og áður leitað til síns kvensjúkdómalæknis og fengið sýnatöku ef þeim hugnast það frekar. Þær ljósmæður sem starfa við skimunina hafa margar hverjar fengið þjálfun í að taka sýni frá leghálsi í sínu námi og allar fengu þær þjálfun og fræðslu um skimunina í aðdraganda breytinganna. Ljósmæður eru sérfræðingar í samfelldri þjónustu og með því að ýmist breyta vinnufyrirkomulagi sínu eða auka starfshlutfall sitt fengu þær tækifæri til þess að bæta þessari þjónustu við sig. Konur sem mæta í skimun eru því jafnvel kunn- ugar ljósmóðurinni, hafa kynnst henni í gegnum mæðravernd, ungbarnavernd eða annað starf hennar innan heilsugæslunnar. Þess má þó geta að ljósmæður bættu skimuninni við starfssvið sitt án þess að samið hafi verið sérstaklega um launagreiðslur til þeirra en áður fékk sá sem tók sýni greitt fyrir hverja sýnatöku. Leghálsskimun er því ekki aðeins tækifæri til þess að víkka út starfssvið ljósmæðra heldur ætti einnig að vera tækifæri til þess að auka tekjur ljósmæðra. Til þess að svo geti orðið þarf að hefja umræðu um greiðslur vegna leghálsskimana á réttum vettvangi, en mikilvægt er að standa vörð um hagsmuni ljósmæðra og störf þeirra. Á mörgum heilsugæslustöðvunum þurfti að breyta aðstöð- unni og aðlaga hana nýrri starfsemi og hefur það gengið vel. Allar heilsugæslustöðvarnar fengu nýja skoðunarbekki, ljós, áhöld og annað sem til þurfti. Skimunin er heldur persónulegri á heilsugæslustöðvunum því ekki er þörf á að bíða á biðstofu, ber að neðan í gulum sloppi (og jafnvel með maska og hanska á covid tímum) eftir að hafa verið kölluð inn í sýnatöku. Á heilsugæslu- stöðvunum er hægt að fá að afklæðast inni á skoðunarherberginu og hafa margar konur haft á orði hversu miklu betra það er. Áður var Leitarstöðin og einkareknar stofur kvensjúkdóma- lækna einu staðirnir hér á höfuðborgarsvæðinu sem hægt var að fá skimun hjá. Nú eru sýni hins vegar tekin á öllum 19 heilsugæslustöðvum höfuðborgarsvæðisins, bæði innan HH og þeim einkareknu. Það má því gefa sér að auðveldara er að fá tíma sem hentar og að styttri biðtími sé eftir sýnatöku þar sem skimunarstöðvum hefur fjölgað til muna. Eins getur kona ráðið því hvert hún fer í skimun, hún þarf ekki að velja sína heilsugæslustöð heldur getur valið um að mæta á þann stað og á þeim tíma sem hentar henni. Bókun fer fram í gegnum heilsuvera.is eða í gegnum síma. Á Leitarstöð Krabbameinsfélagsins greiddu konur rúmar 4800 kr fyrir sýnatökuna en nú er sá kostnaður aðeins 500 kr. Aðgengið er því orðið talsvert betra en áður og kostn- aður einnig minnkað til muna. Margar konur hafa rætt um kosti þessa flutnings yfir til heilsugæslunnar, þeim þykir gott að koma á kunnuglega heilsugæsluna og margar nefnt hversu miklu munar í kostn- aði frá því sem áður var. Markmið skimunar er að greina frumu- breytingar á forstigi og meðhöndla þær til þess að lækka nýgengi og dánartíðni leghálskrabbameins. Því er mælt með reglulegri sýnatöku frá leghálsi hjá konum á aldr- inum 23-64 ára. Til þess að árangur skimunar sé góður skiptir mestu máli að fá faglega örugga þjónustu og mæta í reglubundna skimun. Því skiptir aðgengi höfuðmáli og með því að bæta aðgengi og draga úr kostnaði er verið að reyna að auka hlutfall þeirra sem mæta í skimun. Það er vel vegna þess að hlutfall þeirra sem mæta hefur farið lækkandi síðustu áratugi og hefur verið undir 70% síðastliðin ár en það er fyrir neðan viðmið Alþjóða- heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) um viðunandi árangur. Mikilvægt er að bæta mætinguna og ná henni upp fyrir 80%. Önnur breyting sem átti sér stað nú í byrjun árs er að tekin var upp HPV frumskimun hjá aldurshópnum 30-64 ára. Slík skimun er næmari á áhættu á legshálskrabbameini en frumuskoðun sem áður var gerð, en næmi HPV frumskimunar er um 95%. Ljósmæður geta vel ýtt undir þátttöku kvenna í leghálsskimun því þær vinna náið með konum og geta hvatt þær til þess að mæta í skimun. Svo sama hvert starfið er er alltaf tækifæri til þess að ræða leghálsskimun, sama hvort viðkomandi starfar í heilsugæslu, við mæðravernd, ungbarnavernd, við fæðingar eða í heimaþjónustu. Eins þurfa ljósmæður að vera duglegar að mæta. Flutningur leghálsskimunar yfir til heilsugæslunnar hefur gengið vel. Þegar þetta er skrifað hafa 3300 sýni verið tekin og 3000 þeirra verið greind. Aðeins 27 sýnanna voru ófullnægjandi, 20 þeirra voru tekin af kvensjúkdómalæknum en aðeins 7 þeirra voru tekin af hjúkrunarfræðingi eða ljósmóður á heilsugæslunni. Vissulega voru tafir við vinnslu sýna og birtingu niðurstaðna í upphafi en það vandamál ætti að vera úr sögunni. En hvað sem hverjum finnst um þær breytingar á þjónustunni sem hafa átt sér stað er alla vega eitt öruggt – að það verður ljós- móðir sem tekur vel á móti þér í leghálsskimun hjá heilsugæsl- unni. Aðalatriðið er að búið er að auka næmi skimunar, aðgengi að skimun og lækka þátttökukostnað en það er mikilvægt lýðheilsu kvenna og heilsueflingu þeirra. LJÓSMÆÐUR TAKA VEL Á MÓTI ÞÉR -Í LEGHÁLSSKIMUN HJÁ HEILSUGÆSLUNNI- Anna Guðný Hallgrímsdóttir, ljósmóðir Ú R Þ J Ó Ð F É L A G S U M R Æ Ð U N N I

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.