Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - 01.07.2021, Blaðsíða 49

Ljósmæðrablaðið - 01.07.2021, Blaðsíða 49
49LJÓSMÆÐRABLAÐIÐ - JÚLÍ 2021 Það stefnir í metár í fæðingum á Íslandi og er áætlað að um 15% fleiri börn muni fæðast í júní og júlí á þessu ári miðað við árið á undan. Það verður því metfjöldi kvenna og barna sem þarf að sinna á meðgöngu, í fæðingu og eftir fæðinguna og er gífurlega mikilvægt að sinna þessu af kostgæfni og fagmennsku. Um tíma hefur verið skortur á ljós- mæðrum um land allt og mikið rætt um aðstöðuleysi á sjúkrastofnunum sem sinna verðandi og nýjum foreldrum í fæðingu og sængurlegu. Það er því mikilvægt að staldra við og spyrja sig hvort við séum nógu vel undirbúin fyrir þessa fjölgun. Þar sem við vitum með nokkrum fyrirvara um fjölgun fæðinga, þá höfum við yfirleitt nokkra mánuði til að bregðast við og undirbúa okkur vel en það hefur ekki verið gert. Kvennadeild Landspítala er stærsti fæðingarstaður landsins en þar fæðast um 75% barna á Íslandi. Starfsemin einkennist af fagmennsku en einnig af undirmönnun og aðstöðuleysi. Það segir sig því sjálft að 15% aukning í fæðingum mun hafa veruleg áhrif á starfsemina nema við grípum fast og örugglega í taumana. Aðstöðuleysi lýsir sér t.d. í því að stundum þurfa konur sem ekki geta farið snemma heim og fengið heima- þjónustu í sængurlegu frá ljósmóður að tvímenna á herbergjum í sængurlegu. Þá er aðstaðan fyrir maka þannig að honum er boðinn stóll til að hvíla sig á og nýir foreldrar hafa ekki mikið pláss til að athafna sig. Á tímum covid- takmarkanna hefur maki ekki haft tækifæri til að vera á sængurlegudeildinni á nóttunni á þeim stofum sem tvær konur liggja sængurlegu og því hefur samvera nýrra foreldra verið rofin. Þetta er alltaf slæmt fyrir nýja foreldra sem vilja nýta dýrmætan tímann til að kynnast barninu sínu og fara yfir atburði síðustu klukkutíma saman. En þetta er sérstaklega slæmt þegar kona hefur verið í erfiðri fæðingu, sem hugsanlega endaði sem bráðakeisari eða með því að barn þarf að leggjast inn á Vökudeild. Þá er algerlega ömurlegt að þurfa að senda maka heim frá konu og barni. Lengi hefur verið þörf á betri aðstöðu fyrir þessar fjölskyldur sem verður enn brýnni við yfir- vofandi fjölgun fæðinga. Afar mikilvægt er að bjóða öllum nýjum foreldrum bestu aðstæður til að hvíla sig eftir fæðingu, kynnast barninu sínu og fá stuðning og þjónustu frá ljósmæðrum, hjúkr- unarfólki og læknum. Oft á tíðum er mikið púsluspil að koma öllum fyrir á meðgöngu- og sængurlegudeild LSH og einkennist starfið á stundum af því að útskrifa þurfi konur og börn eins hratt og mögulegt er svo unnt sé að koma öðrum nýrri foreldrum fyrir á deildinni. Þetta skapar óþarfa streitu fyrir nýja foreldra og það heilbrigðisstarfsfólk sem þeim sinnir. Miðað við hversu oft þessar aðstæður koma upp nú þegar, þá er erfitt að ímynda sér hvernig þetta verður með 15% fleiri fæðingum á næstu mánuðum. Kvennadeildin er einnig verulega undirmönnuð og vantar ljós- mæður og hjúkrunarfræðinga á allar deildir. Slík undirmönnun gerir það að verkum að það starfsfólk sem vinnur á deildunum þarf að hlaupa hraðar á vaktinni og taka aukavaktir til þess að brúa bil sem annars myndast. Það er daglegt brauð að finna þurfi starfsfólk til að manna vaktir og því mikið álag þegar sífellt er verið að hringja eða senda skilaboð með bón um að mæta á aukavaktir. Þetta er hægt að gera í skamman tíma en getur ekki verið langtímaplan á eins stórum vinnustað og Landspítali er. Afleiðingin er úrvinda starfsfólk sem á í mikilli hættu á því að lenda í kulnun eða öðrum streitutengdum veikindum. Ljósmæður og hjúkrunarfræðingar sem sinna barnshafandi konum og nýjum foreldrum á kvennadeildinni sinna sínum skjólstæðingum af mikilli kostgæfni, fagmennsku og hugsjón og er ekki ólík- legt að einmitt þess vegna hafi þessi undir- mönnun og aðstöðuleysi viðgengist eins lengi og raunin er. En það er óforsvaranlegt að biðja þetta sama starfsfólk um að hlaupa nú ennþá hraðar, og ekki er hægt að ætlast til þess að við komumst yfir öll verkefnin á gleðinni og hugsjóninni einni saman. Heilsa móður og barns við fæðingu er mikilvægur mælikvarði á almenna heilsu þjóðar og því til mikils að vinna að allar barnshaf- andi konur, nýir foreldrar og nýburar fái fyrsta flokks þjónustu í gegnum allt ferlið innan Landspítala og utan hans. Ég skora því á heilbrigðisyfirvöld að veita meira fé í þennan málaflokk. Ú R Þ J Ó Ð F É L A G S U M R Æ Ð U N N I METÁR Í FÆÐINGUM Á ÍSLANDI - Tekur kvennadeild Landspítala endalaust við? Dr. Emma Marie Swift, ljósmóðir á meðgöngu- og sængurlegudeild LSH og lektor við Háskóla Íslands

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.