Sjómannablaðið Víkingur - 01.01.2011, Side 31
Sjómannablaðið Víkingur – 31
Gripið var til þess ráðs að skilja
Erhard eftir í Grátufirði til að gera vist-
arverur íbúðarhæfar. Fyrsta verkið hans
var að fjarlægja snjóinn úr húsinu, negla
hlera fyrir gluggann og koma hita á
húsið. Eftir að hafa hreinsað húsið að
mestu fór Erhard, að kvöldi annars dags,
í heimsókn til vermanna í Suðurhöfn og
naut gestrisni þeirra. Vermenn hvöttu
hann til að gista nóttina sem í hönd fór
í stað þess að híma einn og yfirgefinn í
Norðurhöfn. Engu tauti var þó við karl
komið, sem tölti heim þessa 20 mínútna
gönguleið.
Skömmu eftir heimkomuna var barið
að dyrum. Erhard kallaði út og bauð
gesti inn að ganga en því boði var í engu
ansaði. Aftur er bankað og snarast Er-
hard þá út með vasaljós til að góma þann
sem úti var. Taldi hann víst að einhver
vermanna Suðurhafnar hefði elt hann til
Norðurhafnar í því augnamiði að hrekkja
hann duglega. Er út var komið var enga
lifandi veru að sjá og engin spor í snjón-
um nema hans eigin. Fór nú að fara um
karl og ljóst að svefnsamt yrði ekki um
nóttina héldi þessum reimleikum fram til
morguns. Nú var að duga eða drepast.
Ganga skyldi hann úr skugga um hvort
þarna væru mennskir menn á ferð, villi-
dýr, landvættir eða hreinlega grænlensk-
ir draugar. Stillti karl sér því upp við
gluggann og beið þess er verða vildi.
Að liðinni langri og spennuþrunginni
stundu er bankað í hið þriðja sinni. Létti
karli mjög þegar hann bæði heyrði og sá
bankið koma frá glamrandi glugga þá
vindur lék við glerið.
Sofandi þorsktorfur
Samskipti Færeyinga við Grænlendinga
voru öllu jöfnu á jákvæðu nótunum. Þó
vildu þeir síðarnefndu meina að slógið,
sem fór í sjóinn við fiskverkunarhúsin í
Norðurhöfn trufluðu laxagöngur í ána,
sem rann rétt við verstöðina. Eftir nokk-
urt þref samþykktu Grænlendingar að
henda mætti slóginu við eyjarnar í fjarð-
armynninu.
Vermenn smíðuðu þá í snatri pramma,
sem þeir notuðu til þessara flutninga.
Drógu trillurnar prammann út að eyj-
unum þegar þær fóru í róður að morgni
og komu með hann til hafnar í róðrarlok
að kvöldi.
Losun slógs úr prammanum var
nokkuð óhefðbundin og sýnir að ráð
höfðu þessir karlar undir rifi hverju.
Þungur steinn var bundinn við endann á
sleftógi prammans og þegar komið var á
losunarstað var honum hent fyrir borð á
fullri ferð. Þegar steinninn skall í botni
strekktist snöggt á tóginu, vegna fram-
skriðs prammans, og honum hvolfdi.
Einföld en áhrifarík aðferð til að afferma
bát. Pramminn lá síðan á hvolfi fyrir
stjóra yfir róðrartímann. Á leið sinni
til lands réttu karlarnir prammann við
og slefuðu til lands þar sem hann var
fermdur af úrgangi dagsaflans.
Erhard segir dvölina á Grænlandi hafa
verið lærdómsríkan og skemmtilegan
tíma. Þar sá hann meðal annars sofandi
þorsktorfur. Segi og skrifa sofandi.
Hafði orð á þessu háttalagi þorsksins
við íslenskan skipsstjóra með 40 ára sjó-
mannsferil að baki og hristi sá hausinn
ógurlega og sagði tóma lygi. En lygi er
það ekki því að fjölmargir sjómenn, aðrir
en Erhard, hafa séð þetta fyrirbæri.
Um nokkurskonar hópsvefn er að
ræða hjá þorskinum, sem safnast í stórar
torfur á grunnsævi og heldur sig nokkru
neðan sjávarborðs. Fiskurinn stendur
upp á endann og snýr hausinn niður og
sporðurinn upp. Þannig liggur hann hlið
við hlið og hreyfir sig hvergi. Ekki er
nokkur vegur að veiða fiskinn á hand-
færi í þessu ástandi.
Eitt sinn er trilla Erhards renndi inn
lítinn vog við Hvarf reyndist vogurinn
fullur af sofandi þorski. Þar sem þorsk-
urinn var óveiðanlegur í þessu ástandi
var lagst við klappir, sem sköguðu út í
voginn, og farið í berjamó. Einn skip-
verja stóð vakt á klöppunum og fylgdist
með torfunni.
Er vaktmaður gaf merki um að þorsk-
urinn væri að rumska þustu menn úr
berjamónum um borð í bátinn, eltu
þorskinn út úr víkinni og að nesi þar
fyrir utan þar sem á honum lóðaði.
Færum var rennt í kösina og fylltu
þeir trilluna þarna á skömmum tíma.
Greinilegt er á frásögnum Erhards af
þorskinum að hann er ekki eins mikill
þorskur og af er látið. Það er til dæmis
þekkt fyrirbrigði að hann þyngir sig er
hann stingur sér af landgrunninu niður í
djúpið. Það gerir hann með því að fylla
magann af grjóti. Grjótinu gúlpar hann
síðan upp úr sér þegar leið hans liggur
upp á landgrunnið aftur. Finnist slípað
grjót í maga á þorski þá er næsta víst að
hann er að koma úr djúpinu.
Komið er að leiðarlokum í rabbi mínu
við Færeyinginn Erhard. Veiðimaðurinn
sjálfur var fangaður af íslenskri blóma-
rós, Hjördísi Ísaksdóttur, 26 ára gamall,
stofnaði með henni heimili á Grenivík
1967 og breyttist með tímanum í ís-
lenskan skipstjóra. Sjórinn var því áfram
hans starfsvettvangur.
Erhard og mágar hans tveir, Oddgeir
og Vilhjálmur Ísakssynir, stofnuðu út-
gerðarfélag, sem rekið var af miklum
myndarskap frá 1972 til 2006. Í upphafi
var sótt á nýjum 27 tonna eikarbáti en í
lokin á 260 tonna tveggja þilfara stál-
skipi. Allir bátar fyrirtækisins báru
nafnið Sjöfn og í upphafi einkennisstaf-
ina ÞH-142 en seinustu árin EA-142.
Fyrirtækið eignaðist að vísu eitt sinn
trillu, sem fékk nafnið Kópur ÞH-90 en
það er önnur saga tengd góðu gengi og
æskudraumum.
Þegar Elli kerling fór að gera sér full
dælt við þessa sjóhunda seldu þeir út-
gerðina, settust í helgan stein og sitja þar
nú sem fastast.