Sjómannablaðið Víkingur - 01.01.2011, Síða 45
Sjómannablaðið Víkingur – 45
Í æðum mér vellur veiðimannablóð.
Tifandi sporður í vatni örvar hjart-
sláttinn og kitlar eðlishvötina. Fátt er
yndislegra en að veiða nokkra fiska úti
í guðsgrænni náttúrunni og hafa með
mér heim í matinn. Íslenskir laxfiskar
eru hnossgæti og þegar best lætur er
máltíðin sjálf hluti af upplifuninni við
veiðarnar. En þótt mér finnist gott að
borða laxfiska þá brýst fram í mér
verndarhugsun þegar ég skynja að farið
sé að ganga á forðann. Mér hrýs hugur
við því að einhver dýrategund eigi í vök
að verjast eða að framin sé rányrkja og
gengið illa um helgidóminn – náttúruna
sjálfa.
Verndun laxa
Um daginn horfði á ég mynd um stang-
veiðar á Íslandi og hugsaði um það
hversu mikið okkur hafi þó farið fram:
menn slepptu löxum í gríð og erg, virt-
ust varla vilja hirða sporð og það var
eins og trúin á gang náttúrunnar væri
aftur að ná yfirhöndinni. Ég hugsaði með
mér að kannski væru menn almennt að
átta sig á því einfalda lögmáli að það
eyðist sem af er tekið: kannski væru þeir
farnir að skilja að það þarf ekki að rækta
upp laxveiðiár. Aðalmálið er að láta þær
vera eins ósnortnar og frekast er kostur,
taka með sér fáa fiska heim og sleppa
öðrum aftur í ána, leyfa þeim að hrygna
og tímgast.
Þetta var skemmtilegt að sjá – þótt
auðvitað hafi þetta verið missýn hjá mér.
Því þegar líða tók á þáttinn, var röðin
komin að ám á Austurlandi og síðan
Suðurlandi þar sem öll laxveiði, leyfi ég
mér að segja, byggist á sleppingum. Sér-
staklega er þetta greinilegt í ánum á Suð-
urlandi, til dæmis Rangánum, Skógá og
Vatnsá í Mýrdal. Þessar ár voru áður sjó-
birtingsár eða sjóbleikjuár fyrst og fremst
en þar ráða nú laxar ríkjum með manna
hjálp. Það er misjafnt hvernig farið hefur
verið að en einfaldasta og algengasta að-
ferðin er að sleppa tugþúsundum göngu-
seiða í árnar, bíða á meðan þau nærast í
sjónum og stækka, selja síðan veiði-
mönnum leyfi til að veiða þessa hafbeit-
arfiska þegar þeir ganga aftur í árnar.
Markmið „ræktenda“ nást yfirleitt:
löxunum fjölgar en silungarnir hverfa
smám saman. Veiðimenn koma sælir
heim úr Rangánum með 10–20 laxa og
finnst eins og þeir hafi verið úti í nátt-
úrunni að veiða – en það er ekkert nátt-
úrulegt við þetta. Þessir menn hefðu
alveg eins getað farið í einhverja eldis-
tjörn að veiða. Enda skynja þeir það og
skilja að þeir komast í náttúrulega veiði
síðar, því það er ekki sama lax og lax.
Einu sinni veiddi ég tvo hafbeitarlaxa
á Rangárflúðum í Ytri–Rangá en man
ekkert eftir því. Dröslaði bara einhverj-
um þokkalegum fiskum upp á bakkann
og kættist mjög en svo var það búið. Ég
setti aftur á móti einu sinni í rosalegan
lax, rammvilltan, í Sveinsskeri á svæði
III í Stóru–Laxá, lét hann slíta hjá mér
og mun aldrei gleyma því. Munurinn á
náttúrulegri laxveiði og hinni tilbúnu er
nefnilega eins og munurinn á peningum
og vísakorti, kynlífi og klámmyndum,
málverki og eftirprentun.
Villtur lax er framtíðin. Í honum fel-
ast verðmætin og sífellt stækkandi hópur
veiðimanna lítur ekki við öðru og gefur
hafbeitaránum langt nef. Þess vegna
þarf að ganga vel um stofna villtra laxa,
vernda heimkynni þeirra, veiða hóflega,
veiða og sleppa, og tryggja vöxt þeirra og
viðgang með eðlilegum hætti, helst án
þess að mannshöndin komi þar nokkurs
staðar nærri.
Unga kynslóðin
Þannig hugsaði ég um laxveiðina á Ís-
landi á meðan veiðimyndin gekk áfram.
Þarna bar ýmislegt misjafnt fyrir augu en
sérstaklega varð ég hrifinn af senu þar
sem ungur strákur, á að giska 12 ára,
þurfti talsverðan tíma til að ákveða hvort
hann ætti að sleppa aftur fallegri hrygnu
sem hann hafði landað í Hvolsá vestur í
Dölum.
Guðmundur Ármann Sigurjónsson býr sig undir að sleppa fallegri sjóbleikju í Hörgá síðasta sumar.
Ragnar Hólm Ragnarsson
Blessuð ljósnálin