Sjómannablaðið Víkingur - 01.01.2011, Page 46
46 – Sjómannablaðið Víkingur
Það braust um í stráknum löngun til
að drepa fiskinn en síðan hafði yfirhönd-
ina löngun hans til að gera náttúrunni
gagn og mig grunar að drengurinn hafi
séð í gegnum hégómann. Til hvers að
drepa þennan fisk?
Það var fallegt að sjá hann fara með
þessa vinkonu sína aftur niður að ánni
og strjúka henni á meðan hún jafnaði
sig ofan í vatninu. Alveg er ég sannfærð-
ur um að eftir á var strákurinn mjög
ánægður með þessa ákvörðun sína. Hann
á eftir að gera þetta aftur og aftur. Hins
vegar er ekki loku fyrir það skotið að
hann hefði nagað sig í handarbökin að
máltíð lokinni ef hann hefði drepið
hrygnuna fögru. Yngri kynslóð íslenskra
veiðimanna er án efa á réttri leið og
hefur lært af næstu kynslóð á undan að
blind græðgi er sjaldnast besta leiðar-
ljósið.
Verndun silunga
Þegar myndin um stangveiði á Íslandi
var búin, fór ég að velta því fyrir mér
hvers vegna hafi verið svona lítið fjallað
um silungsveiði í henni. Kannski vildu
höfundar myndarinnar að hún fjallaði
fyrst og fremst um laxveiði? Sennilega en
samt sem áður var stuttum köflum um
silungsveiði skotið inn á milli og það
sem stakk mig var að öllum silungi virt-
ist slátrað umsvifalaust. Í fínu laxveiði-
ánum var löxunum sleppt en sjóbirting-
urinn drepinn ef hann villtist á færið. Í
minna þekktum ám virtist það vera lög-
málið að beita ormi, láta urriðann eða
bleikjuna kokgleypa og drepa silunginn
vafningalaust.
Nú er það kunnara en frá þurfi að
segja að sjógenginn silungur á mjög
undir högg að sækja á Íslandi. Sjóbirt-
ingsárnar fornfrægu á Suðurlandi eru
ekki svipur hjá sjón miðað við það sem
áður var og reyndir veiðimenn halda því
fram að þar eigi laxaræktin mikla sök.
Sjógengin bleikja hefur einnig átt mjög
erfitt uppdráttar hin síðari ár og er nær-
tækt að nefna nýlega frétt um sjóbleikju-
veiðina í Hvítá í Borgarfirði sem hefur á
fáeinum árum hrunið úr um 4.000 fisk-
um á sumri í um 400 fiska á sumri. Nú
veiðist þar aðeins um 10% af því sem var
fyrir rúmum áratug.
Og þá veltir maður því fyrir sér hvort
veiðiréttarhöfum og veiðimönnum hafi
aldrei dottið í hug að ef til vill þurfi ekki
síður að vernda sjógengna silunga en
sjógenginn lax? Þetta eru skyldar fisk-
tegundir sem lúta að mörgu leyti sömu
lögmálum náttúrunnar og eiga sér sam-
eiginlega óvini. Skýtur það kannski ekki
skökku við að í mynd um stangveiði á
Íslandi árið 2010 sleppi veiðimenn flest-
um löxum með bros á vör en drepi alla
silunga miskunnarlaust eins og ekkert sé
sjálfsagðara jafnvel þótt allir sjógengnir
laxfiskar á Íslandi virðist eiga jafnerfitt
uppdráttar nú um stundir? Spyr sá sem
ekki veit.
Blessuð ljósnálin
Vel hefur gengið að vernda laxastofna í
nokkrum íslenskum ám með því að
ganga vel um auðlindina, drepa fáa eða
enga fiska, raska ekki búsvæðum þeirra
eða hrygningarstöðum og búa þannig í
haginn að náttúran geti séð um sína.
Þetta mætti gera með góðum árangri í
miklu fleiri laxveiðiám og einnig þar sem
silungurinn hefur átt sín gósenlönd.
Mér segir svo hugur að verðmæti
hreinna og ómengaðra straumvatna með
hreinum og ómenguðum stofnum sil-
unga og laxa eigi eftir að aukast stór-
kostlega á komandi árum. Þetta vita til
dæmis þeir sem stýra veiði í sjóbirtings-
ánni Rio Grande í Argentínu og lax-
veiðiánni Kharlovka í Rússlandi. Á
þessum stöðum, og mörgum öðrum sem
lúta ámóta veiðistjórn, er enginn fiskur
drepinn og árnar fyllast af fiski á hverju
sumri. Þannig gætum við umgengist sjó-
birtingsárnar okkar á Suðurlandi sem nú
drabbast niður þannig að óvíst er hvort
sjóbirtingurinn hreinlega haldi velli.
Þannig gætum við líka gengið um ís-
lenskar sjóbleikjuár sem nú eru óðum að
glata sinni fornu frægð.
Tifandi sporðar blessaðrar ljósnálar-
innar yrðu þá til þess að örva hjartslátt-
inn og kitla eðlishvötina enn á ný og
það sem meira er – um ókomna framtíð
komandi kynslóðum til ánægju og
heilla.
Ljósnálin tifar.
Björgvin Ólafsson glímir við sjóbleikju í Hofsá í Vesturdal í Skagafirði.